Hugsun mannsins og Guð

Hugsun mannsins og Guð

Maðurinn getur ekki lifað án efnis. Allt er úr efni. Efnisheimurinn er víður heimur og margslunginn. Stundum spyrja menn um upphaf þessa efnisheims og sumir svara því svo að hann sé tilviljun ein en aðrir að einhver hafi búið hann til. En hvað með hugsunina? Er hún úr efni?
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
26. ágúst 2008

Við lifum í efnisheiminum. Allt umhverfis okkur er efni. Hús, bílar og föt. Úti í náttúrunni sjáum við efni. Gróður, sand og möl. Fjöll, vötn og sjó. Sjálf erum við gerð úr efni, líkama. Til að lifa þurfum við fæðu sem er úr alls konar efnum. Fæðan sem við neytum breytist í líkama okkar og nærir hann. Í líkamanum ferðumst við um efnisheiminn hvort til vinnu eða tómstunda. Og við glímum við alls konar efni til að fá efni sem heitir peningar til að kaupa annað efni (fæðu og húsaskjól).

Maðurinn getur ekki lifað án efnis. Allt er úr efni. Efnisheimurinn er víður heimur og margslunginn. Stundum spyrja menn um upphaf þessa efnisheims og sumir svara því svo að hann sé tilviljun ein en aðrir að einhver hafi búið hann til.

En hvað með hugsunina? Er hún úr efni?

Hugsunin er dálítið dularfull. Við getum ekki aðeins leitt hugann að því sem er heldur líka búið til í huga okkar það sem ekki er til í efnisheiminum. Það er ímyndunarafl hugsunarinnar. Stundum leiðir það afl til þess að eitthvað sem ekki var til í efnisheiminum sprettur upp og verður mörgum til gæfu en stundum til ógæfu. Í huga mannsins vakna líka hugsanir sem ekki eiga neitt skylt við ímyndun heldur eru þær heilbrigð og örugg vissa sem ekki er hægt að bera á móti.

Hugsun hvers manns er sérstök og höfuð hans heimur út af fyrir sig. Vissulega er hægt að kortleggja hugsanir manna í stórum dráttum eins og markaðsfræðin gerir en það er aldrei hægt að ná algeru tangarhaldi á þeim. Hugsunin býr í höfðinu á okkur og margt getur haft áhrif á hana. Hún er ósýnileg þó svo endurómur hennar berist stundum í viðbrögðum okkar. Þú móðgar einhvern og á svip hans má kannski sjá viðbragð hans.

Hugsunin er ekki úr efni. En efnisheiminn skynjum við með hugsun okkar og skynfærum. Stundum er talað um að hugsun manna sé efninu æðri. En aðrir segja að ekkert sé til nema það sé úr efni. Þá skauta menn fram hjá hinni efnislausu hugsun og öllu því sem henni fylgir. Horfa fram hjá því sem dvelur nær hverjum manni en nokkuð annað. Enginn getur yfirgefið hugsun sína – hún býr í okkur og vakir jafnvel meðan við sofum. Og meira að segja gamalmennið með elliglöp sín er með sína hugsun þó flokkuð sé sem glöp. Hugsunin er í líkamanum og getur farið um víðan völl. Hún hefur sig upp fyrir efnisheiminn enda þótt hún búi í honum.

Í augum hvers og eins eru hugsanir hans jafn raunverulegar og efnisheimurinn. Það gildir jafnt um heilbrigðar hugsanir sem og þær sjúklegu. En hvort tveggja sjúkar og heilar hugsanir geta verið á skjön við efnisveruleikann. Sjúklegar hugsanir er reynt að leiðrétta að því marki sem það er hægt og út frá þeim forsendum sem stimpla þær sjúklegar. Heilbrigðar hugsanir hafa verið brennimerktar sem sjúklegar í mörgum samfélögum.

Margir segja að Guð sé uppspuni og hugarfóstur hugsunarinnar. Og sumir berjast með oddi og eggju gegn þeirri hugsun að til sé Guð. Setja allt sem ekki megi þreifa á í skjóðu hindurvitna. Efnisyggjan er mælisnúra þeirra og harðstjóri sem ríkja vill yfir hinni óefniskenndu hugsun. Spranga um götur og torg og hrópa hátt um að Guð sé ekki hægt að finna í efnisheiminum og þess vegna sé hann ekki til.

Á öllum öldum hafa menn skynjað með hugsun sinni að Guð sé til. Hann hefur verið nefndur ýmsum nöfnum í sögumannkynsins. Margir hafa líka staðhæft að þeir hafi jafnvel séð Guð. Hann hefur komið til þeirra með ýmsu móti og ávarpað þá. Vitnisburður þeirra stendur óhaggaður hvað sem efnishyggjumenn segja.

Og til er vitnisburður manna sem sáu Guð ganga um hér á jörðu í meistaranum frá Nasaret og gera gott: Hugur Guðs klæddist efni í honum.

Sá vitnisburður er sterkari en þeirra sem binda sig á klafa efnishyggju og geta engu svarað til um óefniskennda hugsun mannsins. Þaðan af síður um fullyrðingar þeirra að hafa séð hugsun Guðs með sínum eigin augum í holdi manns.