Aðventumorgunn í fangelsi

Aðventumorgunn í fangelsi

Aðventumorgunn í fangelsi. Eins og hver annar morgunn – og þó. Kannski fyrsti aðventumorgunninn í fangelsi hjá einum fanga og sá síðasti hjá öðrum.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
07. desember 2011

Útsýnið úr lyftunni

Hver morgunn er í sjálfu sér öðrum líkur en þó felur hann eitthvað nýtt í sér sem kemur í ljós þegar hann líður. Nóttin er að baki og nýr dagur leysir hana af hólmi. Opin augu horfa mót því sem er nýtt því dagurinn sem kominn er hefur ekki áður sést. Hann er eins og nýtt snjókorn sem svífur til jarðar og eins og það býr yfir sinni fegurð og bíður þess að bráðna eins er dagurinn. Um leið og hann er kominn er hann á hraðferð til kvöldsins. Hann staldrar í raun og veru stutt við og kannski þess vegna er dýrmætt að nota hann í stað þess að horfa á eftir honum inn í nóttina eins og hann hafi aldrei látið sjá sig.

Þannig er hver dagur eins og lítil spegilmynd af lífinu sem kemur í heiminn. Af lífi mannanna sem koma og fara, kynslóðanna sem streyma eftir djúpum farvegi tímans. Á sama hátt og lífið gerir nánast þá kröfu á hendur mönnunum að þeir aðhafist eitthvað eins gerir dagurinn þá hina sömu kröfu. Svo lengi sem menn hafa heilsu og eru með ráði og rænu ganga þeir út í lífið með það í huga að njóta þess og sinna því sem það býður upp á. Og hver nýr dagur sem bankar upp á í lífi okkar er tilboð um að taka til hendinni. Tilboð um að nota hæfileika, njóta samvista, gera sér dagamun, læra eitthvað nýtt um sjálfan sig og lífið. Reyna að skilja sjálfan sig og lífið – og það er ekki lítið verkefni.

Dagurinn er nýr – og hann kemur – og fer. Og hver maður gengur inn í þennan tíma, mætir honum eins og gömlum kunningja og horfist um leið í augu við sjálfan sig, sér að hver dagur sem kemur og gefur honum tíma tekur líka tíma frá honum um leið og hann hverfur sjónum inn í nóttina. Í raun er hver maður ríkari að reynslu að hverjum degi liðnum en um leið ögn fátækari af þeim tíma sem hann fær til umráða í lífi sínu.

Aðventumorgunn í fangelsi. Eins og hver annar morgunn – og þó. Kannski fyrsti aðventumorgunninn í fangelsi hjá einum fanga og sá síðasti hjá öðrum. Og sumir hafa ekki tölu á þeim aðventumorgnum sem þeir hafa mætt innan fangelsis.

Aðventan er undarlegur tími og vafinn inn í trúarleg tákn og veraldleg. Það er eins og eitthvað fari af stað með miklum látum og hamagangi. Tími sem er ofinn saman í fjóra sunnudaga sem þramma ákveðnum skrefum til móts við jólahátíð. Sumir líta jafnvel á aðventuna sem rásmark á kappvelli lífsins og efnislegra hluta. Menn taka á sprett og stefna til jóla. Og koma móðir og másandi í mark, hníga niður örmagna af þreytu við jólaborðið.

Morgunn á aðventu í fangelsi geymir blendnar tilfinningar hjá mörgum fanganum. Fanginn stendur á hliðarlínu og fylgist með og reynir að taka þátt í öllu því sem fyrir augu og eyru ber. En honum eru settar skorður. Þó hefur hann kannski enn betra tækifæri en aðrir til að íhuga þann trúarlega boðskap sem aðventan ber með sér því tími hans er rýmri en hinna er fyrir utan standa. Hann hefur tíma til að íhuga boðskapinn um meistarann frá Nasaret sem breytti heiminum, breytti tímanum með svo augljósum hætti að menn telja ár sögunnar frá þeim tíma er hann kom í heiminn. Gefi menn sér tíma til að velta boðskapnum fyrir sér og láta hann móta sig eignast þeir nýjan tíma, nýja hugsun og nýtt viðhorf til lífsins. Þeir munu líta hvern dag glaðari augum en áður og vita að líf þeirra er dýrmætt og að hver dagur sem þeim er fenginn að gjöf er fjársjóður. Og enginn tekur þann fjársjóð frá þeim heldur deila þeir honum miklu fremur til annarra manna. Segja frá því að aðventumorgunn einn í fangelsi hafi líf þeirra breyst og þeir horft öðrum augum á heiminn og líf sitt. Það heitir einfaldlega að aðventan komi til fólks og efnislegi hluti hennar víkur fyrir þeim andlega en þó ekki svo að menn munu njóta hvors tveggja. Þeir vita í það minnsta hvers vegna þeir njóta á þessum tíma hins efnislega í mat og góðum viðurgjörningi.

Aðventan undirbýr tímamót sem eru í aðsigi. Þau tímamót eru með margvíslegum hætti í nútímanum. Efst ber vitaskuld að fjölskyldur hittast og njóta samvista, gleðjast og hver maður sýnir öðrum virðingu og kærleika. En fanginn dvelst ekki með sínum nánustu um aðventu né heldur á jólum. Hann dvelst meðal samfanga sinna og allir þeir reyna einnig að gera sér dagamun á aðventunni þó í litlu kunni að vera. Fanginn veit að þessi tími er öðruvísi en annar tími í fangelsinu. Sá tími er tregablandinn og ekki alltaf auðveldur þó menn geri sitt besta til að halda höfði. Hann reynir eftir því sem honum þurfa þykir að aðlagast tíma aðventunnar í fangelsinu. Síðar kemur nýr aðventumorgunn – annars staðar.