Lystigarðar þjóðar

Lystigarðar þjóðar

Kirkjugarðar þjóðarinnar eru merkar stofnanir. Staðir vítt um land, í þéttbýli, í strjálum byggðum. Grafreitir hafa fylgt okkur alla tíð. Staðir sem geyma ríka sögu.

Kirkjugarðar þjóðarinnar eru merkar stofnanir.  Staðir vítt um land, í þéttbýli, í strjálum byggðum.   Grafreitir hafa fylgt okkur alla tíð.  Staðir sem geyma ríka sögu.

Við kveðjum, syrgjum. Stöndum yfir moldum, merkt óvissu dauðans,  í ugg og ótta, líka í von og þökk.  Leggjum okkar nánustu til hinstu hvílu  í helga jörð.  Af jörðu ertu kominn. Að jörðu skaltu aftur verða.

„Nú ertu leidd mín ljúfa, lystigarð Drottins í…“ yrkir Hallgrímur Pétursson, bæði í harmi og von um unga dóttur sem hann missti.

Það er góð regla að umgangast hina dauðu af sömu virðingu og þá sem lifandi eru.  Þess vegna eru strangar reglur, skrifaðar, bundnar í lög og líka óskrifaðar um það er varðar kirkjugarða, umgengni og hirðu.

Sóknarnefndir eru að jafnaði kirkjugarðsstjórnir, utan höfuðborgarsvæðisins.  Sóknir hafa sjálfstæðan tekjustofn, sóknargjöld, sem eiga að standa undir rekstri sókna og viðhaldi helgidóma.  Kirkjugarðarnir hafa sinn tekjustofn, kirkjugarðsgjöld og þau greiða allir, óháð trúfélagsaðild.

Ekki aðeins hafa sóknargjöld verið skert síðustu árin, heldur einnig kirkjugarðsgjöld, þannig að framlög til kirkjugarða á landsvísu hafa verið skorin niður um 3,4 milljarða frá árinu 2005, þegar samið var við ríkisvaldið um rekstur þeirra.   Þrátt fyrir linnulausa áminningu hafa stjórnvöld daufheyrst við því að gera þarna bót á.

Það er ekki undur að víða kreppir skóinn í rekstri kirkjugarða.  Í Vesturlandsprófastsdæmi eru 44 kirkjugarðar, auk nokkurra aflagðra og svo heimagrafreita.  Þessir garðar bera flestir mikla sögu, vitna um líf og örlög þjóðar í meir en þúsund ár.

Í nýlegri vísitasíu um prófastsdæmið skoðaði ég ásamt fyrrum vígslubiskupi Skálholtsumdæmis alla þessa grafreiti.  Almennt má segja, að vel er um þessa garða hirt, þrátt fyrir fjárskort.  Sóknarnefndarfólkið leggur mikið á sig í sjálfboðinni vinnu til að grafreitirnir séu til sóma. Það er þakkarefni.  En víða er endurbóta þörf.  Lagfæra þarf girðingar og hleðslur, fjarlægja ónýta steinkassa um grafir sem eru til óprýði; lagfæra merk minningarmörk sem eru farin að láta á sjá.  Grafartaka og sláttur og sumarhirða kosta sitt. Sumt af þessu er gert í sjálfboðavinnu eða fyrir málamyndaþóknun.

Kirkjugarðar eru helgir reitir í margvíslegum skilningi.  Þar hvíla kynslóðirnar sem byggðu Ísland. Þar er partur af sögu okkar.  Garðarnir eru þannig menningarverðmæti og ættu að bera sómavitund okkar fagurt vitni.  Í kirkjugarðana leitar fólk til að minnast sinna nánustu, helga minningar sínar, segja bænir sínar, hugleiða og horfast í augu við sjálft sig.

Kirkjugarður á að vera fagur griðastaður, ekki aðeins hvíla hinna látnu, heldur einnig skjól hinum lifandi í hrakviðrum heimsins.  Þar á að vera gott að koma og vera. Þaðan á ávallt að vera unnt að ganga með birtu í sinni.

Hugarfarsbreytingar er þörf. Það er skylda stjórnvalda að leggja af tómlætið sem einkennt hefur framkomu þeirra gagnvart kirkjugörðunum um árabil, auglýsa manndóm í verki; ganga að því verki að skapa viðunandi rekstrargrunn og birta þannig menningarsýn sem er okkur öllum til sóma.  Kirkjugarðar eiga að vera lystigarðar þjóðar.

Höfundur er prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi.