Myndin af Jesú

Myndin af Jesú

Margir geyma ákveðna mynd í huga sínum af Jesú Kristi. Sú mynd er bæði dregin upp af sjálfum okkur og öðrum. Allt það sem við heyrðum af honum í bernsku okkar hvort heldur það var heima, í kirkju og skóla, eða það sem við lásum og þær myndir sem við sáum.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
15. mars 2006

Margir geyma ákveðna mynd í huga sínum af Jesú Kristi. Sú mynd er bæði dregin upp af sjálfum okkur og öðrum. Allt það sem við heyrðum af honum í bernsku okkar hvort heldur það var heima, í kirkju og skóla, eða það sem við lásum og þær myndir sem við sáum, já, allt þetta hefur raðast upp í huga okkar eins og stór mósaíkmynd af meistaranum frá Nasaret. Þetta er mynd sem fylgir okkur ævina út og hún er okkur styrkur á ýmsum skeiðum lífsins og ekki síst þegar gefur á bátinn. Þá köllum við hana fram í huga okkar og horfum á hana. Hún verður sem áttaviti í orðum og verkum.

Eflaust dregur algengasta myndin af Jesú fram drætti kærleika og manngæsku: Jesús sem málsvari þeirra sem minna mega sín, hinna útskúfuðu á jaðri samfélagsins. Hjálparhella þeirra í smáu sem stóru og sá sem leiddi fólk inn í lífið á nýjan leik. Gaf líf þeim sem höfðu glatað því vegna sjúkdóma, opnaði þeim dyr til lífsins sem höfðu lokað þeim vegna framkomu sinnar.

Þjáning hans og sú smán sem hann hlaut af hendi margra á jarðvistardögum sínum hefur blásið krafti í baráttu þeirra sem kúgaðir eru af ranglátum stjórnvöldum – veitt þeim styrk sem orðið hafa fyrir ofsóknum af hendi einstaklinga eða félaga. Hún hefur líka aukið þeim kraft sem hafa staðið andspænis andlegri þjáningu og líkamlegri af völdum hvers kyns sjúkdóma. Kross á sjúkrastofu eða í fangaklefa þar sem þjáð manneskja liggur getur verið henni huggun og styrkur - ekki bara vegna þjáningarinnar sem smiðurinn mikli gekk í gegnum heldur og vegna hins sem ógetið er: Vonarinnar sem hinn þjáði á krossinum gaf mannkyni.

Það er í eðli manneskjunnar að forðast þjáningu og vanlíðan. En jafnvel þótt hún viti um ýmsar hættur sem lífið felur í sér þá arkar hún oft út í fen ógæfunnar og kallar fram ómældar þjáningar yfir sjálfa sig og aðra.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um alla þá þjáningu sem blasir við í heiminum. Oftast viljum við ekki vita af henni vegna þess að hún veldur okkur sjálfum hugarangri og auk þess teljum við jafnvel að hún komi okkur ekki við. Þetta er þjáning annarra en okkar. Við erum við. En að láta sér ekki annt um aðra er litur sem finnst hvergi í myndinni af Jesú, fyrirmynd okkar. Litur afskiptaleysis er hins vegar sterkur víða í nútímanum.

Sú hugsun er býsna sterk hjá mörgum að við fáum engu breytt um þjáningar annarra eins og til dæmis í fjarlægum heimshlutum. Þegar við hugsum með þessum hætti þá er næsta víst að við höfum lokað eyrum fyrir rödd fyrirmyndarinnar, Jesú frá Nasaret: Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður...

Í huga margra er Jesús fyrirmynd um hina góða manneskju sem fórnar sér fyrir aðra. Fyrirmynd sem margir keppast um að láta móta líf sitt allar stundir. Hann er hin fullkomna manneskja. En fyrirmyndin felur ekki aðeins í sér gullinn þráð fullkomnunar sem flestir telja reyndar ógerlegt að höndla heldur og hinn rauða þráð fyrirheitis um nýtt líf.

Yfir myndinni af Jesú er birta sem er annarri birtu sterkari. Ljómi sem menn skynja ekki hjá öðrum manneskjum hversu góðar sem þær kunna að vera og okkur kærar. Ljós og skuggar myndarinnar takast á. Skuggar hins mannlega og ljósgeislar hins guðlega. Myndin af Jesú frá Nasaret er ekki bara mynd af góðum meistara sem gekk um og mælti heimsfleyg orð og sýndi skilning á högum fólks og hjálpfýsi. Myndin er líka mynd af Guði.

Mannleg augu hafa aldrei séð Guð á sama hátt og við sjáum aðra manneskju. Hin guðlegu penilsför í myndinni af Jesú Kristi eru ekki kyrr heldur einlægt á hreyfingu. Augu okkar nema aðeins brot þeirra en skynja engu að síður að þar eru ljósbrot skaparans. Þau sindra í myndinni af Jesú í huga okkar. Hann ber Guð til okkar og þess vegna getum við sagt að Guð sé í honum og að Guð sé hjá okkur.