Fjölbreytileiki heimildanna um Jesú.

Fjölbreytileiki heimildanna um Jesú.

Þetta er eins og með myndasafnið sem nú er verið að koma upp í New York um árásirnar 11/9 2001. Safnað er óteljandi myndum frá einstaklingum sem hver fyrir sig segir lítið, geymir eitt þröngt sjónarhorn, eina reynslusögu. En saman mynda þær ómetanlegan sjóð heimilda fyrir framtíðina – ómetanlegan í fjölbreytileika sínum
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
22. september 2009

Eitt getum við sagt með sanni um þær heimildir sem við höfum um Jesú Krist og frumkirkjuna – þær eru fjölbreytilegar. Fjölbreytileikinn er eitt aðal einkenni þeirra texta sem við finnum í Nýja testamentinu.  Fjölbreytileiki heimildanna skýrir líka vel hvers vegna kristin trú talar til allra manna á öllum tímum í öllum aðstæðum.  Þeir sem skrifuðu þessa texta höfðu ekki hugmynd um að löngu síðar myndu þeir verða hluti af ritsafni sem nýjar kynslóðir myndu líta á sem heilagt, jafn heilagt hebresku Biblíunni (sem við köllum Gamla testamentið).

Guðspjallamennirnir sem skrifuðu guðspjöllin létu sér ekki detta í hug að ritin þeirra yrðu hluti af fjögura guðspjalla safni, sem menn myndu telja öll jafn heilög, jafn rétthá og jafn miklar heimildir um Krist.  Sama gildir með þá sem rituðu bréfin og aðrar bækur Nýja testamentisins. Engann bauð í grun að skrifin þeirra ættu eftir að rata inn í slíkt textasafn. Þetta er því ákaflega fjölbreytilegt textasafn sem við finnum í Nýja testamenntinu– og það er meðal annars fjölbreytileikinn sem gerir það svona spennandi, einstakt og góða heimild.

Snemma litu sumir á fjölbreytileikann sem vandamál og vildu t.d. búa til einn texta úr öllum guðspjöllunum en slétta yfir ósamfellur og mismunandi áherslur þeirra.  En þessu hafnaði meirihluti krisinna manna alla tíð. Menn völdu meðvitað að láta fjölbreytileikann standa og vitna þannig um sannleikann um Jesú í öllum sínum myndum!

Túlkun þessara texta hefur að sama skapi verið fjölbreytileg í gegnum aldirnar. Kristnir menn hafa frá upphafi haldið áfram að túlka textana, ritningar Gamla og Nýja testamenntisins og tjá trú sína og spegla líf sitt í þeim á ólíkan hátt.  Fjölbreytileiki hinnar kristnu trúar er upprunalega nálgun kristinna manna á þeim mikla leyndardóm sem koma Guðs í heiminn í Jesú Kristi var og er.

Upphaf fjölbreytileika textana er að finna í öllum þeim óteljandi mörgu munnlegu heimildum um Jesú sem samferðamenn hans geymdu í hjarta sér og fluttu í frásögn  nýjum kynslóðum.  Þessar munnlegu heimildir voru síðan túlkaðar á margvíslegan hátt út frá ólíkum aðstæðum karla og kvenna.  Ólíkir hópar bjuggu líka yfir mismunandi þekkingu á mismunandi sögum um Jesú. Guðspjallamennirnir notuðu þessar heimildir síðan á ólíkan hátt út frá sínum forsendum og með ólíkan hlustendahóp í huga. Fjölbreytileikinn var síðan staðfestur þegar fjölmörgum textum var safnað í ritsafnið sem við köllum Nýja testamenntið, án þess að reynt væri að samræma þá eða gera úr þeim eina frásögn.

Fjölbreytileikinn endurspeglast í dag í öllum þeim litskrúðugu söfnuðum kristinna karla og kenna um víða veröld sem lesa þessa texta og túlka þá í ljósi sinnar reynslu, trúar og menningar.

Fjölbreytileikinn, er einmitt styrkur kristinnar trúar og reynslu sem hefur gert henni mögulegt  að breiðast út um alla heimskringluna. Gleymum því ekki að það er ekkert til sem heitir hlutlaus sagnfræði eða hlutlaus túlkun á sagnfæðilegum heimildum. Allir sagnfæðingar skrifa út frá eigin sjónarhorni, eigin túlkun og eigin áherslum. Það er himinn og haf á milli sögulegrar túlkunar atburða eftir því hver lífssýn þess er sem ritar söguna og túlkar heimildirnar.

Þess vegna er fjölbreytileikinn svo mikilvægur – sérstaklega þegar við lesum í heimildirnar um Jesú.

Þetta er eins og með myndasafnið sem nú er verið að koma upp í New York um árásirnar 11/9 2001. Safnað er óteljandi myndum frá einstaklingum sem hver fyrir sig segir lítið, geymir eitt þröngt sjónarhorn, eina reynslusögu. En saman mynda þær ómetanlegan sjóð heimilda fyrir framtíðina – ómetanlegan í fjölbreytileika sínum.

Rétt eins og textar Nýja testamentisins.