Hvert stefnir kirkjan?

Hvert stefnir kirkjan?

Samfélag kristinna manna kallast kirkja. Hlutverk kirkjunnar, allra kirkjudeilda, er að starfa í ljósi Guðsríkisins, með Guðsríkið að markmiði. Kirkja sem gerir það er kirkja Krists og ljósberi í myrkrinu.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“ Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um: Segið dótturinni Síon: Konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip. Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“

Matt. 21. 1-9

Tímatal manna er með ýmsum hætti. Almanaksár hefst fyrsta janúar, skólaár í ágústbyrjun, reikningsár fyrirtækja og stofnanna á sér upphaf í enn annan tíma. Kirkja Krists hefur sinn hátt á í þessu efni. Kirkjuárið gengur í garð í dag, - á fyrsta sunnudegi í aðventu, fjórum vikum fyrir jól.

Fyrri hluti hvers kirkjuárs kallast “hátíðahlutinn”. Þar er að finna þrjár höfuðhátíðir kristinna manna, jól, páska og hvítasunnu. Í dag er lokið hinni löngu röð “sunnudaga eftir Þrenningarhátíð”, sem spannar hálft árið, hátíðalausa hlutann eins og hann kallast. Annar tími er runninn upp: Jól og nýár fara í hönd, því næst þrettándinn og svo sunnudagar eftir þrettánda, þá níuviknafasta, dymbilvika og páskar, en að svo búnu gleðidagar eða “sunnudagar eftir páska” og loks hvítasunna og Þrenningarhátíð. * * *

Vikurnar fjórar fyrir jól nefnast “aðventa” en það orð merkir “tilkoma”, þ.e.a.s. tilkoma Krists, hingaðkoma frelsarans. Við heyrðum fyrsta guðspjall dagsins lesið frá altari. Það var 2l. kapítuli Matteusar guðspjalls, fyrstu níu versin. Þar greinir frá innreið Jesú í Jerúsalem, en þeirri frásögn lýkur með því, að múgurinn, sem á undan honum fór og eftir fylgdi, hrópaði: “Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins”.

“Blessaður sé sá, sem kemur”. Þannig hljóðar grunntónn aðventunnar. Við undirbúum okkur fyrir komu Krists inn í líf okkar í dag og næstu sunnudagadaga. “Sjá, ég stend við dyrnar og kný á” segir hinn upprisni í Opinberunabók Jóhannesar, en þau orð eru meðal ritningarlestra þessa Drottinsdags og við heyrðum þau lesin hér fyrir stundu. Og áfram heldur frelsarinn sömu orðum í leyndardómi: “Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér”.

“Raust, dyr, kvöldverður”, allt eru þetta táknræn orð. Merking þeirra er sú, að hinn eilífi óbreytanlegi Guð sem er til staðar í öllum trúarbrögðum og nærri á öllum tímum, skapari himins og jarðar, þessi Guð vill í syni sínum, Jesú Kristi, nema land í hjarta þínu og sameinast þér um tíma og um eilífð. Aðventan er sá tími ársins, sem kirkjan hefur sérstaklega valið til að vekja athygli þína á þessu. Það sama á reyndar við í nokkrum skilningi um allar aðrar stundir kirkjuársins .-

* * *

En hvaða merkingu hefur koma Krists? Hverju breytir koma hans?

Jú, því er auðsvarað. Jesús Kristur leiðir í lög Guðs ríki – hvorki meira né minna. “Tilkomi þitt ríki, svo á jörðu sem á himni” segjum við í “Faðirvorinu”. “Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu”. Þannig hljómar upphaf predikunar Jesú samkvæmt elstu heimildinni, sem til er um hann og starf hans, Markúsar guðspjalli.

Guðs ríki, sem einnig er nefnt “himnaríki” í guðspjöllunum, er veruleiki, sem Jesús Kristur hefur í för með sér, þegar hann kemur í heiminn.

Hefur þú hugleitt það ágæti guðsþjónustugestur?

Hann hefur sjálfur lýst þessum veruleika svona: “Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir upp rísa og fátækum er boðað fagnaðarerindi”. Guðs ríki er ný öld, sem tekur að renna upp við hingaðkomu Krists í heiminn, sælutími, lausn úr viðjum “heimsríkjanna”, sem kúgað höfðu almúgann - og kúga enn.

Á tuttugustu öld og í upphafi þeirrar tuttugustu og fyrst höfum við séð kúgun heimsríkjanna ganga úr hófi fram, og það í nafni jafnréttis og bræðralags. Hálf veröldin laut til skamms tíma veldi hugmyndafræði, sem þóttist ætla að innleiða nýjan og áður óþekktan jöfnuð meðal mannanna. Hún var kölluð “kommúnismi” . Og hún var guðlaus, trúlaus í kjarna sínum. Ávöxtur hennar varð ekki jöfnuður, heldur einhver skelfilegasti ójöfnuður, sem nútímasagan greinir frá, kúgun og blóðsúthellingar svo miklar að mannleg skynjun fær vart skilið. Enn þann dag í dag ríkir þessi stefna í Kína, en það kostaði víst milli 50 og 70.000.000 mannslíf að koma henni þar á. Hver sem vill fræðast nánar um þessa skelfilegu sögu getur gluggað í bók um Maó formann kínverska kommúnistaflokksins sem kom út á íslensku á liðnu hausti. Enn þann dag í dag eru mannréttindi fótum troðin og að engu höfð á þeim slóðum. En það má víst ekki tala um slíkt opinberlega því kínverski markaðurinn er stór og allir vilja auðgast á Kínverjum og komast í mjúkin hjá þarlendum stjórnvöldum – og þá er óþægilegum staðreyndum um mannréttindabrot ýtt undir stólinn.

Guðs ríki Jesú Krists rís gegn slíkum heimsríkjum á hverri tíð. Markmið Guðs ríkis er m.a. það, að samfélag mannanna mótist af fyrirgefandi kærleika, þar sem kristnir menn iga að vera ljós heimsins , þar sem sáttarhugur ríkir, jafnrétti og umhyggja og bræðralag, þar sem hinir trúuðu safna sér fjársjóðum á himni og kappkosta að ganga inn um þrönga hliðið, þar sem hver og einn leitast við að gjöra vilja Guðs. Tilgangurinn með predikun Jesú um Guðs ríki er sá, að tilheyrendur hans fái staðið á bjargi, sem ekki bifast, þótt allt annað raskist á jörðu. Samfélag kristinna manna kallast kirkja. Hlutverk kirkjunnar, allra kirkjudeilda, er að starfa í ljósi Guðsríkisins, með Guðsríkið að markmiði. Kirkja sem gerir það er kirkja Krists og ljósberi í myrkrinu. Þegar kirkjan aftur á móti snýr sér að öðrum markmiðum, markmiðum þessa heims, og þegar hún beitir starfsaðferðum þessa heims, þá hættir hún að vera kirkja Krists, en verður aðeins ámótleg og vesældarleg endurspeglun af heimsríkjunum eins og saga liðinna alda sýnir. * * *

Við Íslendingar heyrum þennan boðskap um Guðsríkið, nú í aðventubyrjun og í hvern tíma annan. Hér á landi reynir enginn að hindra það, að fagnaðarerindi Jesú Krists um Guðs ríkið berist mönnum til eyrna. Þvert á móti er kirkja Krists á Íslandi beinlínis borin uppi af stjórnarskrá lýðveldisins og lögum þess óháð öllum deilum um útfærslu í fjölmenningarsamfélagi samtímans. Hér ríkir trúfrelsi. Okkur hefur þannig verið gert kleift að heyra orð Drottins. Þó hrannast nú upp óveðursský og sótt er að kristinni trú. Skýrasta dæmi þess er úr skólastarfinu en um það hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum að undanförnu. Nú er prestum bannað að sækja heim suma leikskóla því boðskapur þeirra er talinn hættulegur börnunu . Reynt er að koma í veg fyrir ferðir fermingarbarna og nýjasta krafan er sú að kristinfræði skuli ekki kennd í skólanum og að kristið siðgæði skuli ekki haft þar að leiðarljósi. Það gleymist alveg að það var kirkjan sem á sínum tíma ruddi skólunum braut hér á landi og allir helstu frumkvöðlar í skólastarfi á fyrri hluta tuttugustu aldar komu úr prestastétt. En nú eru þetta víst hættulegir menn með hættulegan boðskap.

Við höfum á 20. öld leitt í lög velferðarþjóðfélag á Íslandi í anda kristins boðskapar – Gullnu reglunnar sem segir “Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra”. Samkvæmt þeim leikreglum, sem hér ríkja, er ætlast til þess, að allir landsmenn njóti sömu aðstöðu til menntunar, heilbrigðisþjónustu og ytra öryggis, svo að einungis séu nefndir þrír meginþættir velferðar. Nú er sótt að hinum kristnu stoðum. Ef þeim er ýtt burt hlýtur eitthvað annað að koma þar í stað. Sagan sýnir hvert slíkt leiðir – þegar trúleysið er gert að trú eins og dæmin sýna sem ég nefndi hér fyrr. Hvert stefnir samfélagið okkar þá? Því verðum við að reyna að svara.

Og hvert stefnir kirkjan í ölduróti samtímans, samfélag kristinna, ljósberi Guðs? Endurspeglar hún boðskap Jesú í starfsháttum sínum, framkomu og boðun? Eða ráða aðrir hagsmunir þar för? Því þarf þessi aldna stofnun að svara þegar Kristur kemur.

Hver og einn þarf einnig að líti í eigin barm og spyrji: Elska ég náungann eins og sjálfan mig? Kappkosta ég að því vera fullkominn, eins og minn himneski faðir er fullkominn? Hvorugt verður um mig sagt. Og meðan svo er hlýt ég að leggja við hlustir í eftirvæntingu, þegar hinn krossfesti og upprisni nálgast mig, kemur til mín með guðsríkisboðskap sinn og býðst til að breyta mér í betri mann, ef ég vil. Það sama hlýtur kirkjan hans að gera. Ef hún vill vera kirkjan hans. Fyrirgefningu hans þiggjum við. Síðan tökum við til á ný, lyftum upp merkinu hans og göngum fram á við, til Guðs ríkis.

* * *

Þannig er allur boðskapur aðventunnar: Eitthvað gott og betra er í vændum. Guðs ríki er í nánd. Kristur er að koma. Og Kristur kemur!

Í dag, á þessum fyrsta degi nýs kirkjuárs samfögnum við hvert öðru og biðjum sjálfum okkur, kirkju krists og öllum samferðamönnum okkar í lífinu blessunar um allar ókomnar stundir. Megi árið verða okkur hverju og einu, náðarár guðlegrar návistar. Sú náð er öllu ofar að eiga Guð að í gleði og sorg og son hans Jesú Krist, hinn krossfesta og upprisna. Megi okkur hlotnast sú gæfa í sálu okkar allar stundir. Og megi kirkjan bera gæfu til að vera kirkjan hans og ganga í sannleika fram undir merki hans í átt til Guðsríkisins á komandi kirkjuári og um alla framtíð.