Englar og djöflar

Englar og djöflar

Í raun er kvikmyndin eins og dulbúinn áróður fyrir kaþólsku kirkjuna og hennar trú, sem kemur vel út þegar allt er skoðað. Ádeilan frá bókinni skilar sér alla vega ekki enda margt þar á misskilningi byggt hvað varðar tákn og sögu og orðamerkingar.

Mánudaginn 11. maí gafst mér tækifæri ásamt fjölmörgum öðrum boðsgestum til þess að berja augum kvimyndina Englar og djöflar sem byggir á samnefndri bók Dan Brown. Bókin komst á metsölulista eftir að Dan Brown sló í gegn með Da Vinci lyklinum og varð metsöluhöfundur. Sú bók, DaVinci lykillinn, varð síðar kvikmynduð eins og menn muna og bæði kvilmyndin og bókin ollu miklum deilum og umræðu, enda þar haldið fram að Jesús og María Magdalena hafi verið kærustupar og átt barn og að Biblían hafi verið saman sett á 4. öld af kirkjunni til að fela þessa staðreynd.

Myndrammi úr Angels and Demons

Englar og Djöflar kom reyndar upphaflega út á undan Da Vinci lyklinum en seldist illa. Bókin var síðan sett í endurvinnslu eftir Da Vinci lykilin og kynnt sem framhald hans víða um heim, meðal annars hér á landi. Hið sama er gefið í skyn í kvilmynd þeirri sem nú er frumsýnd um heimsbyggðina. En þetta er sem sagt sölutrix. Sama sölutrixu hefur verið beitt á aðrar bækur Dan´s Brown.

Hvað um það. Kvikmyndin Englar og djöflar er hin besta afþreying a la Hollywood og heldur manni spenntum lengst af. Hún er öll tekin í Rómarborg og Vatikaninu og borgarumgjörðin nýtur sín vel. Ég hef sjálfur komið niður í Necropolis, borg hinna dauðu, undir Péturskirkjunni, að gröf Péturs á 12 metra dýpi. Innilokunarkenndin sem þar nær tökum á manni kemur sér vel til skila. En kvikmyndin víkur að öðru leyti langt frá bókinni þó kjarninn í söguþræðinu sé sá sami. Upphafskafla bókarinnar er sleppt, tengslum sögupersóna gerð lítil sem engin skil og skundað yfir margar pælingar. Reyndar er það til bóta að ótrúlegasta atriði bókarinnar er sleppt í kvikmyndinni, þegar Langdon stekkur úr þyrlu og svífur til jarðar hangandi í gluggatjöldum, en ekki fallhlíf. Þar missti ég reyndar sjálfur trú á bókinni.

Sú mikla árás á kjarna kristinnar trúar sem finna má í Da Vinci lyklinum er hér víðs fjarri. Kaþólska kirkjan fær skömm í hattinn fyrir grimma sögu sína og aðeins er tæpt á deilum trúar og vísinda og hlutverki trúarbragða í samtímanum. En allt er það í mýflugumynd og passað er að dýpri málefni skyggi ekki á spennuþáttinn.

Í raun er kvikmyndin eins og dulbúinn áróður fyrir kaþólsku kirkjuna og hennar trú, sem kemur vel út þegar allt er skoðað. Ádeilan frá bókinni skilar sér alla vega ekki enda margt þar á misskilningi byggt hvað varðar tákn og sögu og orðamerkingar. Kannski vildu kvikmyndaframleiðendur ekki styggja kaþólska kvikmyndahúsagesti?

Þannig að hér fá allir eitthvað fyrir sinn snúð. En ég bíð spenntur eftir næstu (alvöru) bók Browns sem á að koma út í haust.

Henni er víst ætlað að afhjúpa Frímúrara heimsins.