Syndin á einn eða annan hátt

Syndin á einn eða annan hátt

Textarnir sem lesnir eru í kirkjum landsins á þessum Drottins degi sem er 19. sd. eftir þrenningarhátíð, fjalla allir um syndina á einn eða annan hátt, eins og við höfum fengið að heyra. Guðspjallið segir frá því þegar Jesús fyrirgefur manni, sem er lamaður, syndir hans og lendir í orðaskaki við farísea af því tilefni.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: "Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: "Hann guðlastar!"

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: "Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar' eða: ,Statt upp og gakk'? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér" - og nú talar hann við lama manninn: "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!"

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald. (Matt. 9.1-8)

I

Textarnir sem lesnir eru í kirkjum landsins á þessum Drottins degi sem er 19. sd. eftir þrenningarhátíð, fjalla allir um syndina á einn eða annan hátt, eins og við höfum fengið að heyra. Guðspjallið segir frá því þegar Jesús fyrirgefur manni, sem er lamaður, syndir hans og lendir í orðaskaki við farísea af því tilefni.

Farísear voru strangtrúaðir menn á dögum Jesú. Þeir höfðu það fyrir satt að allir sjúkdómar stöfuðu af því að hinn sjúki hefði á einhvern hátt syndgað gegn Guði. Sjúkdómar voru þess vegna áfall í tvöföldum skilningi. Bæði urðu menn að þjást undan sjúkómnum sem þá hrjáði og eins voru þeir oft á tíðum útskúfaðir úr manlegu samfélagi. Þess sjáum við mýmörg dæmi í guðspjöllunum. Jesús sýndi aftur á móti framá að þessi hugsunarháttur væri andstæður köllun hansi. Hann var kominn í heiminn til þess að takast á við hið illa í heiminum í öllum sínum myndum og sigra það. Sú barátta var gegn sjúkdómum og dauða, en hún var líka gegn synd og fordómum og öllu því sem veldur aðgreiningu og útskúfun í mannlegu samfélagi. Þess vegna fyrirgaf Jesús lamaða manninum fyrst syndir hans, til að sýna að maðurinn væri elskaður af Guði. Svo læknaði Jesú manninn og undirstrikaði þar með að hann, Jesús, hefði vald yfir öllu, vald til að fyrirgefa og til að lækna og líkna. Og frásögninni lýkur með því að fólkið sem horfir á lækninguna undrast þetta vald Jesú.

Þessi saga er til í bæði Matteusar, Markúsar og Lúkasarguðspjalli en þó með nokkuð ólíkri áherslu. Guðspjallamaðurinn Matteus undirstrikar vald Jesú til að fyrirgefa syndir og til að lækna sjúka.

II

Hugtakið synd er reyndar lítið notað nútildags og þykir oftar en ekki frekar gamaldags ef ekki hreint og beint púkalegt. Umfjöllun um syndina er gjarnan tengd við forna tíma og horfna veröld þegar mannkyn var hneft í fjötra kirkjuvalds og kredduklerka, sem töldu sig ráða ríkjum í skjóli guðlegs valds, tóku sér til vald til að dæma um hvað væri Guði þóknanlegt og hvað ekki, rétt eins og farísearnir í guðspjalli dagsins. Til allrar hamingju er slík kreddukirkja á undanhaldi og þegar til hennar heyrist, þá brosa menn góðlátlega út í annað og láta sem ekkert sé. Við nútímamenn viljum vera upplýst og sjálfstætt fólk sem tekur ábyrgð á sjálfu sér í lífinu og lætur ekki segja sér fyrir verkum. Við teljum okkur ekki þurfa á siðapredikunum að halda. En þó að tímarnir breytist og kreddum kirkjunnar fækki, þá þýðir það ekki að syndin sé horfin úr heimi. Þvert á móti. Við skulum aðeins íhuga hvað þetta orð “synd” í raun og veru merki. Synd þýður sundrung, að eitthvað sem áður var heilt sé brotið. Ef við skiptum út orðinu synd og setjum í stað þess orðið sundrung, þá þarf ekki miklar bollaleggingar til að sjá að sundrungin ræður víða ríkjum í heiminum. Það gerir hún líka á landinu okkar bláa, bæði á opinberum vettvangi og á hinu persónulega sviði mannlífsins. Hér áður fyrr var gjarnan talað um það að Íslendingar væru ein þjóð í einu landi. Slíkt tal á hátíðarstundum hjá ráðamönnum vekur í dag ekki annað en hlátur þeirra sem heyra. En því miður er tilefnið ekki eins broslegt. Hér ríkir orðið sundrung í samfélaginu, sundrung milli stétta og þjóðfélagshópa, sundrung milli ríkra og fátækra. Sú sundrung virðist fara vaxandi frekar en hitt

Tökum dæmi. Langar biðraðir fólks sem á ekki fyrir mat og brýnustu nauðþurftum myndast hjá Mæðrastyrksnefnd og öðrum neyðarmóttökum samfélagsins í hverjum mánuði svo sem Rauða krossinum og Hjálparstarfi Þjóðkirkjunnar. Í þeim er að finna sjúklinga, öryrkja og einstæðar mæður, en einnig venjulegt launafólk sem lifir ekki af lágum launum sínum.

Á sama tíma heyrum við af ótrúlegum gróða og fjármálabraski fáeinna auðmanna samfélagsins sem sífellt vilja meira og meira og fá virðast aldrei nóg.

Þessi sama sundrung sem á opinberum vettvangi afhjúpast í bilinu milli ríkra og snauðra er fer vaxandi dag frá degi, hún kemur einnig fram víða á heimilum landsins. Hjónaskilnaðir hafa svo dæmi sé tekið aldrei verið fleiri en í ár. Við prestarnir verðum mikið varir við þessa upplausn sem ríkir á svo mörgum heimilium. Til okkar koma ótaldir skjólstæðingar í hverri viku og hafa sömu sögu að segja. Oft sundrast fjölskyldur og hjónabönd vegna þess að of lítill tími gefst til að rækta sambandið innan fjölskyldunnar. Langir vinnudagar og fjárhagsáhyggjur ræna okkur tímanum sem við gætum átt með börnunum okkar og maka okkar. Sundrungin aðgreinir þannig líka hin fullorðnu frá börnunum. Það er of seint að ætla sér að fara að rækta sambandið við barnið sitt þegar það er komið á unglingsárin, ef við höfum aldrei áður gefið því tíma. Afleðingarnar liggja því miður ljósar fyrir og koma upp á yfirborðið í ólíklegustu myndum.

Sundrung eða synd. Hvaða orð hæfir þessu ástandi best að þínu mati?

Sundrungin, syndin, er staðreynd. Hún afhjúpast á fjölmörgum sviðum samfélagsins, ég hef aðeins nefnt hér nokkur brot, fáein dæmi um það. Við virðumst vera ófær um að snúa þróuninni við, lækna okkur sjálf.

III

Inn í þessa sundrung, kemur Jesús í dag og alla daga og segir við okkur, “syndir þínar eru þér fyrirgefnar”. Við erum hvert og eitt í hlutverki lama mannsins í guðspjallinu sem Jesús læknar og fyrirgefur. Við þurfum á fyrirgefningunni að halda, þurfum á lækningu að halda, bæði í hinu opinbera lífi og innan heimilisins. Það er eitthvað mein sem hefur grafið um sig í þjóðarsálinni og við þurfum á hjálp að halda til að losna við það. Jesús býður okkur þessa hjálp. Hann býðst til að ganga fram, býðst til að rétta við samfélagið okkar, brúa sundrungina innan heimilanna, fjarlægja meinið, fyrirgefa það sem við getum ekki fyrirgefið okkur sjálf. En það að taka við slíkri fyrirgefnigu er ekki gert með hangandi hendi . Jesús segir ekki kæruleysislega við lama maninn í guðspjallinu, “þetta er allt í lagi vinur, þér er fyrirgefið” og lætur hann síðan afskiftalausan. Nei, hann læknar manninn, reysir hann upp, gefur honum nýja krafta, nýjan þrótt til að takast á við tilveruna. Að taka á móti fyrirgefningu Jesú felur það í sér , að þeim sem er fyrirgefið verður að horfast í augu við vandann, við sjálfan sig, við sundrungina, verður að viðrukenna hvernig komið er fyrir sér. Sú viðurkenning er fyrsta skrefið í átt til hins nýja lífs, hið fyrsta skrefið yfir gjá sundrungarinnar.

Að horfast í augu við vandann og viðurkenna hann er þannig líka fyrsta skrefið fyrir samfélagið okkar til þess að taka við þeirri fyrirgefningu sem Jesús býður okkur. Allt of lengi höfum við litið í aðra átt, látið sem engin mein séu til, lokað augunum fyrir vandanum. En ljós Jesú lýsir upp myrkrið, afhjúpar syndina.

Það er margir sem fyrtast yfir því kastljósi sem boðskapur Jesú beinir út í samfélagið, láta kirkjuna og orð hennar jafnvel fara í taugarnar á sér. En köllun Jesú er einföld og boðskapur hans tær. Við erum verði keypt segir hann . Við erum hans. Hann býður okkur lækningu og fyrirgefningu sem er keypt með blóði frelsarans. Brettum því upp ermarnar og lifum samkvæmt þeirri fyrirgefningu sem við höfum fengið.

Í Efesusbréfinu sem lesið var úr hér fyrr í guðsþjónustunni, dregur Páll postuli á lýsandi hátt saman eins og honum einum er lagið þýðingu þess að Jesús hefur fyrirgefið okkur og kallað okkur til nýs lífs, til að lifa lífinu í sínu ljósi . Páll skrifar :” Svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist. Því ég veit að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir. Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur, en íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans. Gefið djöflinum, ekkert færi”.

Já við höfum fengið að heyra um Krist á Íslandi frá upphafi. Við höfum verið frædd um hann og boðskap hans í 1000 ár. Við vitum til hvers hann ætlast. En viljum við hlusta? Viljum við klæða okkur úr hinum gamla manni, eiginhagsmunaseminni, kapphlaupinu eftir vindi, gróða og auði? Viljum við íklæðast hinum nýja manni sem Jesús kallar okkur að verða, íklæðast réttlætinu, sannleikanum? Eða er kominn tími til að höggva á hinar fornu klukkur sem kalla okkur til iðrunar og loka hinum gömlu kirkjum sem minna á boðskap sem er þyrnir í augum þess er ekki vill sjá og heyra?

Þessum spurningum verður auðvitað hver að svara fyrir sig. Líttu á þínar eigin eigin aðstæður, þitt eigið líf. Líður þér vel, nýtirðu tímann fyrir þá sem þér þykir vænt um, ræktið þið samfélagið á heimilinu þínu, innan fjölskyldunnar, í vinahópnum? Eða þarft þú á fyrirgefningu Jesú að halda í þínu lífi?

Þarft þú á því að halda að sundrungin milli þín og þinna sé brúuð?

Og hvernig er það með þjóðfélagið okkar?

Er það eins og við viljum? Er allt í sómanum? Eða erum við tilbúin að horfast í augu við vandan, viðurkenna vanmátt okkur? Viljum við taka við fyrirgefningu Jesú og lifa í ljósi hennar?

Við skulum hugsa okkur vel um. Ákvörðun okkar skiptir sköpum fyrir okkur sjálf, fjölskyldu okkar og samfélagið allt. Gefum ekki djöflinum færi. Nei, tökum í stað þess í hina útréttu hönd Drottins sem reisir okkur við eins og lama manninn í guðspjallinu, endurskapar okkur og blæs okkur nýju lífi í brjóst með orðunum sem eru sterkari en allt mannlegt vald : “Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar”. Amen. Þórhallur Heimisson er sóknarprestur í Hafnarfjarðarkirkju. Þessi prédikun var flutt á 19. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, 6. október 2002.