Hvað felst í orðunum stuðningur og vernd eins og segir í stjórnarskránni?

Hvað felst í orðunum stuðningur og vernd eins og segir í stjórnarskránni?

Í lögunum felst þó ekki aðeins stuðningur heldur tryggja lögin ríkisvaldinu greiða aðkomu að ýmsum innri málefnum Þjóðkirkjunnar. Telji löggjafin sjálfstæði kirkjunnar orðið of mikið eða að hún hafi á einhvern hátt misfarið með það og/eða ekki risið undir því getur dæmið snúist við.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
18. október 2012

Í gegnum tíðina, og einkum undanfarið, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem spurt er um stöðu kirkjunnar í stjórnarskrá, hef ég fengið ýmsar spurningar og heyrt þeim varpað fram til annarra. Ég hef verið spurður um það hvernig yrði með hátíðisdaga og frídaga sem tengjast kristni, s.s. jól, páska, ef þjóðkirkja yrði ekki í stjórnarskrá. Fólk hefur velt því fyrir sér hvers vegna þjóðkirkjan eigi að njóta réttinda umfram önnur trúfélög og hvað felist í því að stjórnvöldum beri að styðja og vernda kirkjuna. Aðkoma fólks og þátttaka þess í kirkjustarfi er mismikil, stundum engin, og því ljóst að spurningar eru af ólíkum toga. Nú þegar þjóðin þarf að gera upp hug sinn um mikilvægt málefni, þykir mér skipta máli að svara sem flestum spurningum sem bornar eru upp. Ég hef því kosið að svara einni spurningu í senn, í sjálfstæðum greinum, fer hér á eftir svar við spurningu 4 af 7. 

Spurt er: Hvað felst í því að ríkisvaldið skuli styðja og vernda Þjóðkirkjuna eins og nú stendur í stjórnarskránni?

Áður en grundvallarlög Dana tóku gildi 1849 voru ríki og kirkja í danska ríkinu ein samofnin heild og Danmörk lútherskt ríki. Með grundvallarlögunum var á hinn bóginn komið á trúfrelsi og greint á milli ríkis og kirkju í þeim mæli að um tvær stofnanir væri að ræða þar sem önnur (ríkið) gæti m.a. stutt við hina (þjóðkirkjuna). Jafnframt var mörkuð sú stefna að ríkið skyldi styðja og vernda evangelísk-lúthersku kirkjuna „að því leyti sem hún væri þjóðkirkja“, þ.e. að því leyti sem hún er umgjörð um trúarlíf  dönsku þjóðarinnar. Tuttugu og fimm árum síðar (1874) tókum við þetta kerfi í arf í okkar fyrstu stjórnarskrá sem enn er í gildi hvað þetta atriði áhræri (sbr.  62. gr. stjskr.). Ekki er nánar til tekið í stjórnarskránni í hverju stuðningur og vernd ríkisvaldis skuli fólginn heldur er löggjafanum látið eftir að ákveða það.

Stuðningur og vernd ríkisvaldsins kemur t.d. fram í því að lög hafa verið sett um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (nr. 78/1997) sem gefa henni lögformlega stöðu og skipulega uppbyggingu. Þá áskilja lögin Þjóðkirkjunni sjálfstæði og sjálfsstjórn innan lögmæltra marka. Í lögunum felst þó ekki aðeins stuðningur heldur tryggja lögin sem slík ríkisvaldinu einnig greiða aðkomu að ýmsum innri málefnum Þjóðkirkjunnar. Lengi hefur stefnan vissulega legið til aukins sjálfstæðis. Telji löggjafin sjálfstæði kirkjunnar hins vegar orðið of mikið eða að hún hafi á einhvern hátt misfarið með það og/eða ekki risið undir því getur dæmið snúist við.

Þá kemur stuðningur fram í því að ríkið veitir fé á fjárlögum til Þjóðkirkjunnar. Einnig kemur óbeinn fjárhagsstuðningur fram í því að ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir Þjóðkirkjuna en sama fyrirkomulag gildir um önnur skráð trúfélög.

Ennfremur er stuðningur talinn koma fram í því að menntun presta og djákna fer fram við Háskóla Íslands, að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar teljast til embættismanna ríkisins, sem og að kristin fræði eru kennd í skyldunámsskólum. Þá er bent á að almannafriður er boðinn á helgidögum þjóðkirkjunnar (og þar með annarra kristinna trúfélaga). Eins má benda á að í 122. grein almennra hegningarlaga er að finna sérstakt ákvæði er bannar truflun á opinberri guðsþjónustu og öðrum kirkjuathöfnum og svipað ákvæði er að finna í lögum um helgidagafrið. Þá verndar 125. grein hegningarlaga Þjóðkirkjuna og önnur trúfélög gegn því að dregið sé dár að kenningu þeirra eða trúariðkun (bann við „guðlasti“). Loks veitir 233. grein sérstaka refsivernd gegn ofsóknum vegna trúarbragða, litarháttar, kynþáttar og kynhneigðar sem nýtist Þjóðkirkjunni en einnig öðrum trúfélögum.

Öll þessi vernd verður þó tæpast leidd af kirkjuskipaninni og kemur að sumu leyti öllum trúfélögum til góða eins og á hefur verið bent. Það fyrirkomulag að ríkið launar biskup Íslands, vígslubiskupa, ákveðinn fjölda presta og starfsmanna á biskupsstofu er heldur ekki stuðningur í skilningi stjórnarskrárinnar. Í þessu efni er byggt á samningi milli ríkis og þjóðkirkju um endurgjald fyrir jarðeignir sem þjóðkirkjan afhenti ríkinu til umráða og loks eignar á 20. öld. Þessi hluti fjárhagstengsla ríkis og þjóðkirkju er með öðrum orðum ekki afleiðing af þjóðkirkjuskipaninni heldur tilfærslu á eignarhaldi og eignarrétti á nýliðinni öld.

Sumt af því sem hér hefur verið talið til stuðnings ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna á grundvelli kirkjuskipanarinnar má einnig rökstyðja með tilliti til sögulegra ástæðna, ríkjandi menningarhefðar eða þeirrar staðreyndar að meirihluti þjóðarinnar lítur á þjóðkirkjuna sem „sína“ kirkju í einhverri merkingu. Helgidagafriðinn og kennslu í kristnum fræðum má til dæmis styðja slíkum almennum rökum. Þá má færa akademísk rök fyrir guðfræðiiðkun við ríkisháskóla þótt öðrum þræði sé um kirkjulega starfsmenntun að ræða. Mikilvægt er þó að mögulegt sé að stunda fullgilt guðfræðinám án starfsþjálfunar eða tengsla við kirkjustarf. Þá þarf að huga að því í hvaða mæli eðlilegt sé að þjóðkirkjan kosti starfsmenntunina. Frá 2007 hefur verið í gildi samstarfssamningur milli guðfræðideildar (nú guðfræði- og trúarbragðafræðideildar) Háskóla Íslands og þjóðkirkjunnar um starfsþjálfun, kennslu í kennimannlegum fræðum (helgisiðafræðum og síðar sálgæslu) og símenntun presta og djákna sem þjóðkirkjan fjármagnar en deildin ábyrgist faglega og annast að minnsta kosti að hluta. Varðandi kennslu í kristnum fræðum ber að hafa í huga að í mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að er kveðið á um frumlægan uppeldisrétt foreldra eða forráðamanna sem felst í því að þeir eiga rétt á að menntun, fræðsla og trúarleg og siðferðileg mótun barna í þeirra umsjá sé í samræmi við trú eða lífsskoðanir þeirra sjálfra. Vegna þess er ekki heimilt að skylda börn til að taka þátt í kennslu í kristnum fræðum ef trúarsannfæring foreldranna er önnur. Þó má færa rök að því að sáttmálarnir undanþiggi nemendur ekki fræðslu um kristna trú og eftir atvikum önnur trúarbrögð sem menningarleg og félagsleg fyrirbæri. Af sömu ástæðu þarf að tryggja að fræðslan skarist ekki við eiginlega trúfræðslu eða trúariðkun og/eða setja ákvæði um greiðar undanþágur frá slíkri kennslu.

Með þjóðkirkjuskipaninni eru Þjóðkirkjunni tvímælalaust veitt forréttindi umfram önnur trúfélög. Sökum þessa er ekki jafnræði með trúfélögum í landinu þrátt fyrir trúfrelsið. Er misræmið réttlætt með því að mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyri Þjóðkirkjunni, hún gegni fjölþættum samfélagslegum og menningarlegum hlutverkum sem önnur trúfélög hafi ekki axlað í sama mæli, þjónusta hennar standi öllum til boða óháð búsetu, kirkjuaðild og trú, sem og að hún eigi lengri samfellda sögu með þjóðinni en önnur trúfélög. Hefur mismunun trúfélaga af þessum ástæðum ekki verið talin án ástæðu og þar með ekki andstæð lögum. Ljóst er hins vegar að stjórnarskráin heimilar ekki mismunun milli trúfélaga án málefnalegra ástæðna eða mismunun — jákvæða eða neikvæða — milli einstaklinga sem rekja má til trúarskoðana þeirra eða trúariðkunar (sbr. 65. grein). Þá kemur hún heldur ekki í veg fyrir að ríkisvaldið veiti öðrum trúfélögum sama eða sambærilegan styrk og vernd og Þjóðkirkjunni. Trúarleg mismunun er því ekki óhjákvæmileg afleiðing þjóðkirkjuskipanar af því tagi sem hér er.

Þess skal að lokum getið að þrátt fyrir aukna fjölhyggju hafa þær alþjóðastofnanir sem um tilvist þjóðkirkna hafa fjallað ekki talið slíkt fyrirkomulag í sjálfu sér andstætt trúfrelsisákvæðum. Í lýðræðisríkjum nútímans skiptir þó máli hvernig slíkt fyrirkomulag er framkvæmt og hversu mikil forréttindi það tryggir einni kirkju eða trúfélagi.