Þjónandi þjóðkirkja

Þjónandi þjóðkirkja

Tugþúsundir eiga sitt besta samfélag í starfi sem fram fer á vegum kirkjunnar. Hjón sem geta ekki lengur talað saman fá stuðning og styrk til að leita nýrra leiða hjá starfsmönnum Þjóðkirkjunar. Einmana og sorgmæddir fá huggun og samfélag.

Ég var á siglingu í aftakaveðri með Herjólfi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur hér um daginn, þegar ég rakst á enn eina greinina í Fréttablaðinu þar sem sótt var harkalega að Þjóðkirkjunni. „Ríkiskirkjunni“ eins og hún þar var kölluð, „hugsjónalausu kirkjunni“, „embættismannakirkjunni“ og „peningakirkjunni“. Slíkar greinar eru nokkuð algengar. Ég hafði sem sagt verið staddur í Vestmanneyjum í boði sóknarprestsins og sóknarinnar þar á bæ en á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Við höfðum verið að halda námskeið um hamingjuna á vegum kirkjunnar. Presturinn hafði undirbúið allt vel og af kostgæfni enda fullt hús eins og venjulega á slíkum kvöldum. Nú var ég á leiðinni heim.

Þetta ferðalag mitt var ekkert einsdæmi. Ég hef ferðast vítt og breitt um landið og haldið hjónanámskeið og fjölskyldukvöld að frumkvæði sóknarpresta og sóknarnefnda í litlum og stórum söfnuðum, fólks sem lætur sér annt um íbúana í sinni heimabyggð. Í vor hef ég verið með hamingjunámskeið um allt Kjalarnessprófastsdæmi. Hvarvetna þar sem ég hef komið hef ég hitt fyrir kirkjufólk sem leggur sig fram um að þjóna fólkinu í sínum söfnuði, hlustar á áhyggjur, sorgir, vonir og vonbrigði þeirra sem tilheyra söfnuðunum, fólksins í landinu, þjóðarinnar í Þjóðkirkjunni. Einhvernvegin kom ég þessari kirkju ekki heim og saman við hina hugsjónalausu ríkiskirkju sem lýst var í greininni í Fréttablaðinu. Kannski er ég bara orðinn svona blindur. Kannski hef ég starfað allt of lengi í Þjóðkirkjunni, búinn að vera í þessu harki í 20 ár – gott betur ef allt er talið til.

Eða kannski er þetta ekki blinda hjá mér. Kannski er um að kenna blindu og sinnuleysi þeirra sem stýra umræðunni í þjóðfélaginu, þögn þeirra sem vilja Þjóðkirkjuna burt í núverandi mynd. Já, hvers vegna er annars svona lítið talað um allt það mikla starf sem fram fer í Þjóðkirkjunni, kirkju þjóðarinnar, kirkju fólksins í landinu?

Um allt land starfar Þjóðkirkjan við sálgæslu, áfallahjálp, andlegan stuðning, handleiðslu og huggun. Þúsundir sækja til prestanna í einkaviðtöl um sín persónulegu málefni. Þúsundir treysta djáknanum sínum fyrir innstu hjartans málum. Þúsundir leita til annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar í gleði og sorg með margvísleg málefni lífsins, lítil og stór. Tugþúsundir eiga sitt besta samfélag í starfi sem fram fer á vegum kirkjunnar. Hjón sem geta ekki lengur talað saman fá stuðning og styrk til að leita nýrra leiða hjá starfsmönnum Þjóðkirkjunar. Einmana og sorgmæddir fá huggun og samfélag, sjúklingar eru sóttir heim, öldruðum veitt andleg aðhlynning, börnum og unglingum veitt leiðsögn og athvarf á tímum hraða, og félagslegs kulda. Fræðsla í forvörnum er sett á oddinn í unglingastarfinu. Fjölmargt starfsfólk með margskonar menntun og lífreynslu leggur sig fram um að þjóna þjóðinni í Þjóðkirkjunni. Enn fleiri vinna sjálfboðaliðastörf, vilja ekki einu sinni láta þakka sér fyrir heldur starfa í leynum. Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild. Þjóðkirkjan þjónar öllum. Á spítulunum fara fram þúsundir viðtala milli sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna og presta eða djákna. Þjónusta Þjóðkirkjunnar sem fram fer í leynum, fjarri kastljósi fjölmiðlanna, það er sálgæsla í sinni víðustu mynd, sálgæsla við heimilin, sálgæsla á sjúkrastofnunum, sálgæsla í skólum og á elliheimilum, sálgæsla við leik og störf. Þetta er hin þjónandi Þjóðkirkja, kirkjan sem er jafn virk á Suðureyri og Selfossi, Akureyri og Akranesi, Raufarhöfn og í Reykjavík.

Þegar Herjólfur kom í land hélt ferðalagið áfram í slagviðrinu í rútu yfir Þrengslin og heim á leið. Í fréttum útvarpsins var haldið áfram að tala um enn eina ágjöfina á „ríkiskirkjuna“. Ég hætti að hlusta, mátti ekki vera að því að velta mér upp úr þessu lengur. Heyrði hér um daginn af styrktarnámskeiði fyrir konur sem haldið hefur verið á vegum Þjóðkirkjunnar um allt land. Þúsundir kvenna hafa sótt sér endurnýjun og nýja lífsorku þar.