Jesús frá Nasaret og utangarðsmenn

Jesús frá Nasaret og utangarðsmenn

Ætli utangarðsmaðurinn sé ekki jafngamall menningunni? Maður sem reikar um og á ekki til hnífs og skeiðar. Betlar stundum sér til matar eða slær lán á kurteislegan hátt sem ljóst er að aldrei verður greitt þó lán sé kallað. Utangarðsmaðurinn hefur ekki alltaf öruggt húsaskjól og marga nóttina hefur hann hvergi haft höfði sínu að að halla.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
27. október 2008

Ætli utangarðsmaðurinn sé ekki jafngamall menningunni? Maður sem reikar um og á ekki til hnífs og skeiðar. Betlar stundum sér til matar eða slær lán á kurteislegan hátt sem ljóst er að aldrei verður greitt þó lán sé kallað. Utangarðsmaðurinn hefur ekki alltaf öruggt húsaskjól og marga nóttina hefur hann hvergi haft höfði sínu að að halla. Stundum hefur hann gripið í vinnu en ekki enst lengi. Og kannski var það ekki heldur ætlunin að endast. Kannski vildi hann bara að sjá hvernig það væri að vera launamaður og hvað hefðist upp úr því krafsi. Var ekki ánægður með það og taldi því árangursríkara að halda inn í garðinn í skjóli myrkurs og afla sér þess sem þyrfti til lífsviðurværis. En garðbúar láta slíkt auðvitað ekki viðgangast. Þeir byggja fangelsi og dæma utangarðsmennina til vistar þar.

Samfélagið er nefnilega garður. Ekki letigarður heldur garður iðju. Þeir sem eru innan garðs strita við það að rækta garðinn. Og menn vita að garðurinn gefur ekki neitt af sjálfum sér. Hörðum höndum vinnur hölda kinn, sagði listaskáldið góða. Og í sveita þíns andlitis skaltu þú strita, var sagt við mann nokkurn sem rekinn var út fyrir frægan garð. Fólkið sem bjó í þeim garði er sennilega frægasta utangarðsfólk sögunnar. Það ber í það minnsta nokkuð merkileg nöfn. Eða hver man ekki eftir Adam og Evu?

Utangarðsmennirnir sem við sjáum í borgum nútímans eru nafnlausir. En við þekkjum þá alla. Þó eru þeir ekki eins. Hver þeirra er einstakur. Menn af holdi og blóði. Sumir gengu til liðs við flokk þennan ófúsir og aðrir skipa raðir hans vegna sjúkleika sem er illviðráðanlegur. Og enn aðrir gátu kannski ekki fótað sig innan garðsins og hröktust af leið. Lentu utan garðs. Svo eru þeir til í hópnum sem í dularfullri sérvisku sinni ákváðu að hreiðra um sig utan hans.

Jesús frá Nasaret umgekkst utangarðsmenn. Við lesum um samneyti hans við betlara og sjúkt fólk sem samfélagið hafði vísað á dyr. Í þeim hópi voru líkþráir, blindir og heyrnarlausir, geðsjúkir og bæklaðir. Fólk sem á reyndar enn undir högg að sækja í samfélagi velferðar. (Eða hver hefur ekki lesið eða heyrt af horriminni sem margir í þeirra hópi hanga á?) Vændiskonur voru líka í hópnum ásamt tollheimtumönnum sem sinntu svívirðulegu starfi að mati flestra og fyrir vikið var þeim útskúfað úr samfélaginu. Réttur til að innheimta ýmsa tolla rómverska ríkisins var leigður út til auðugra manna. Þeir réðu svo menn til að rukka inn tollinn – oft voru þrælar kallaðir til verksins. Tollheimtumenn voru landráðamenn í augum sómakærra borgara því þeir áttu samskipti við heiðingja sem voru óhreinir í augum þeirra. Fleiri voru í þessum hópi utangarðsfólks eins og fjárhirðar (þeir sem reyndar fengu fyrstir að heyra fagnaðarboðskapinn um fæðingu frelsara heimsins!), mykjuhreinsarar, vefarar, litarar, farandsalar, fjárhættuspilarar og glæpamenn. Þetta var flokkur hinna óhreinu, þetta voru syndararnir. Þeir sem álitnir voru syndarar fylltu flokk undirmálsfólks í siðgæðismálum og staða þeirra í samfélaginu var öllum augljós. Þeir voru utangarðsmenn. Þetta er sá hópur sem meistarinn frá Nasaret beinir sjónum sínum að. Er vinur þeirra (Lk 7.34) og finnur til samkenndar með þeim: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ (Mk 2.17) – þeirra er boðskapurinn um ríki Guðs. Þeir sem berja sér á brjóst, frómir á svip og með kenninguna á hreinu, og telja sig réttláta fyrir eigin verk, fá að heyra: „Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki.“ (Mt 21.31).

Sjálfur var hann farandpredikari sem lifði að mestu á bónbjörgum. Enda þótt hefðin segi að Jesús frá Nasaret hafi verið smiður þá er ekki þar með sagt að hann hafi ætíð haft lífsviðurværi af því starfi. Smiðsvinnan gat verið býsna stopul. Samfélag hans var bændasamfélag, jarðareign var undirstaðan. Meistarinn var utangarðsmaður í rómverska heimsveldinu sem teygði anga sína til heimahaga hans. Heimsveldis sem hvíldi á herðum þræla. Efst í samfélagsstiganum sat keisarinn sem deildi og drottnaði. Neðstir voru þrælar og hin útskúfuðu, utangarðsfólkið fyrirlitna og óhreina. Hugsanlega um fimmtungur þegna heimsveldisins rómverska. Þegna sem hengu á horriminni.

Krossfestingin var staðfesting samfélagsins á því að hann væri utangarðsmaður. Ekki bara vegna þess að krossfest var utan borgarmúra hinnar helgu borgar heldur voru honum til sitt hvorrar handar aðrir utangarðsmenn – reyndar voru þeir þar með réttu eins og annar þeirra sagði. Og sá bað Jesú um að minnast sín – Jesús svaraði honum að bragði: „Í dag skaltu vera með mér í Paradís.“(Lk 23.43). Í garðinum sem þau Adam og Eva voru forðum rekin úr.

Utangarðsmanninum var gefin von. Það var meistarinn frá Nasaret sem gaf hana.