Hallgrímur Pétursson - fjórði hluti

Hallgrímur Pétursson - fjórði hluti

Við skildum við Hallgrím Pétursson í síðasta pistli þar sem hann hafði sent Ragnheiði Brynjólfsdóttur, dóttir Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti, handritið að sínum dýrasta kveðskap. Var það í maí árið 1661. Hafði handritið að geyma meðal annars Passíusálmana, Sálminn um blómið og sálminn Um fallvaltleika heimsins.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
10. apríl 2014

Við skildum við Hallgrím Pétursson í síðasta pistli þar sem hann hafði sent Ragnheiði Brynjólfsdóttur, dóttir Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti, handritið að sínum dýrasta kveðskap. Var það í maí árið 1661. Hafði handritið að geyma meðal annars Passíusálmana, Sálminn um blómið og sálminn Um fallvaltleika heimsins.

Ekki er beinlínis vitað hvers vegna Hallgrímur sendi Ragnheiði þetta handrit. En hann var mikill vinir föður hennar og fjölskyldu. Hitt er vitað að hann sendi einnig sálmana fjórum öðrum konum, eiginkonum og dætrum vina sinna. Treysti hann konunum greinilega betur en öðrum fyrir þessum verkum sínum. Hallgrímur sendi einnig sálmana til Jóns Jónssonar prófasts á Melum í Melasveit og geymdi eitt eintak sjálfur.

Öll handritin eru týnd nema þetta eina sem hann gaf Ragnheiði . Það er varðveitt á Landsbókasafninu.

Saga þess verður ekki rakin hér, þó hún sé merkileg.

En rétt er að gera nánar gaum að þessum maí mánuði árið 1661 þegar Ragnheiður fékk handritið frá Hallgrími.

Því þeir atburðir sem þá áttu sér stað sýna vel þann mann sem Hallgrímur hafði að geyma.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir hafði alist upp í Skálholti í einni voldugustu fjölskyldu Íslands á 17. öld, dóttir biskupsins og besta kvonfang landsins Það olli því miklu uppnámi þegar sögusagnir fóru að berast af því að hún ætti í óleyfilegu ástarsambandi við kennara sinn, Daða Halldórsson.

Var svo rammt að þessu kveðið að hún var neydd til að sverja skírlífiseyð í viðurvist fjölda presta úr Ártnesþingi í Skálholtskirkju.

Eiðtakan fór fram þann 11. mai árið 1661.

Þá var Ragnheiður aðeins 19 ára gömul .

Læt ég eiðinn fylgja og bið lesendur að lygna aftur augunum og sjá fyrir sér prestafjöldann og glottandi áhorfendur þar sem Ragnheiður ein og varnarlaus er niðurlægð opinberlega á þennan hátt.

"Til þess legg ég, Ragnheiður Brynjólfsdóttir, hönd á helga bók og það sver ég við guð almáttugan, að ég er enn nú á þessari stundu svo óspillt mey af öllum karlmanns völdum og holdlegum saurlífsverkum sem þá, er ég fæddist fyrst í þennan heim af minnar móður lífi, svo sannarlega hjálpi mér guð með sinni miskunn, sem ég þetta sver, en refsi mér, ef ég lýg".

Í þessum sama píslar- mánuði, ef til vill í þeirri sömu viku sem hún er skotspónn kirkju og almenning, fær Ragnheiður handrit Hallgríms að Passíusálmunum í hendur.

Tileinkunarorð Hallgríms til Ragnheiðar hafa varðveist í eftirriti Hálfdanar Einarssonar skólameistara á Hólum og eru þannig:

„Erusamre, gudhræddre og velsidugre | jomfru Ragnheide Bryniolfs dotter | ad Skälhollte, sender þetta psal | makver til eins gods kyn | ningar merkis j Christi | kiærleika | Hallgrimur Petursson pr(estur ) | Saurbæ ä Hval fiardarstrónd | Anno 1661 in majo. |

Mikill er munur heims og himins | sama heimi neita, sem himins vill leita".

Hér kveður við annan tón í garð stúlkunnar ungu en hjá hinum dómharða samtíma. Vinátta, virðing og umfram allt umhyggja lýsir úr orðum Hallgríms. Allt fram á okkar tíma hafa "skáldin" leikið sér að því að níða og rægja Ragnheiði. Það er vænlegt til vinsælda, var og er. En Hallgrímur einn stóð henni við hlið eins og klettur.

Ævi Ragnheiðar var þyrnum stráð. Hún eignaðist barn í meinum og lést árið eftir barnsburðinn þann 23. mars árið 1663, eftir erfið og þungbær veikindi.

Brynjólfur biskup tók son hennar, Þórð Daðason, að sér og arfleiddi að öllum eigum sínum - beygður af samviskubiti og eftirsjá án efa. En pilturinn lést aðeins 11 ára gamall og svo fór að Brynjólfur skildi enga afkomendur eftir sig.

Við útför Ragnheiðar var sálmur Hallgríms Péturssonar, Um dauðans óvissa tíma, líklega fluttur í fyrsta sinn.

Upphaf hans endurspeglar harmsögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, sem á vissan hátt hefur orðið harmsaga hvers Íslendings allar götur síðan. En lokaerindið býður upp á sátt við tilveruna og örlögin, æðruleysi sem einkennir sögu okkar sem búum við hið ysta haf, - og vekur von þrátt fyrir allt.

Allt eins og blómstrið eina upp vex á sléttri grund fagurt með frjóvgun hreina fyrst um dags morgunstund, á snöggu augabragði af skorið verður fljótt, lit og blöð niður lagði, - líf mannlegt endar skjótt.

Ég lifi' í Jesú nafni, í Jesú nafni' eg dey, þó heilsa' og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi afl þitt né valdið gilt, í Kristí krafti' eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt.