Fátækt á Íslandi

Fátækt á Íslandi

þegar þetta er skrifað eru mánaðarmót ný liðin og eins og um hver mánaðarmót að undanförnu hefur verið straumur fólks til safnaða þjóðkirkjunnar og hjálparstofnanna í leit að fjárhagslegri aðstoð.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
04. september 2009

þegar þetta er skrifað eru mánaðarmót ný liðin og eins og um hver mánaðarmót að undanförnu hefur verið straumur fólks til safnaða þjóðkirkjunnar og hjálparstofnanna í leit að fjárhagslegri aðstoð. Það eru reyndar sérstaklega erfið mánaðarmótin að þessu sinni, því skólarnir voru að byrja og kostnaður barnafjölskyldna mikill af þeim sökum.

Matur er að hækka, bækur, föt og nauðsynjar hafa margfaldast í verði. Og undanfarið ár hefur grynkað mikið í sjóðum landsmanna eins og við vitum. Það fólk sem leitar sér aðstoðar og kemur til dæmis til kirkjunnar er á öllum aldri og af báðum kynjum. Í hópnum eru margir sem af einhverjum ástæðum hafa orðið undir í þjóðfélagsbaráttunni og geta ekki lengur séð sér og sínum farborða með þeim stuðningi sem samfélagið veitir.

Sumir eru öryrkar, aðrir hafa barist lengi við erfiða sjúkdóma. Enn aðrir eiga veik börn eða veika aðstandendur og hafa orðið að draga sig út úr vinnumarkaðinum um stundarsakir að hluta eða öllu, til þess að helga sig umönnun sjúklingsins. Í hópnum eru líka ellilífeyrisþegar að ógleymdum öllum einstæðu foreldrunum, oftast mæðrum.

Þar eru líka margir fulltrúar þeirra sem hafa misst vinnuna undanfarið. Svo eru það hinir sem eiga fyrir stórri fjölskyldu að sjá og eru í fullu starfi en launin duga ekki til þess að endar nái saman. Til þess er skuldabyrðin of þung eða matarreikningarnir of háir. Hópurinn er sem sagt mjög fjölbreyttur. En eitt eiga allir í hópnum sameiginlegt. Í síðustu viku mánaðarins eiga þau varla fyrir mat eða öðrum nauðþurftum handa sér og sínum.

Þess vegna leita þau til hjálparstofnanna, til að fá hjálp til þess að kaupa mat svo að það ríki ekki matarleysi á heimilinu. Það er ekki þar með sagt að allar skuldir hafi verið gerðar upp frá því um síðustu mánaðarmót. Oftast duga tekjurnar ekki til þess. En þegar vika eða meira er eftir af mánuðinum og enginn matur er til, þá skipta skuldirnar minna máli á móts við það að þurfa að horfa upp á börnin sín án matar.

II

Það er oft deilt um á opinberum vettvangi hvað fátækt sé og hvernig eigi að skilgreina fátækt. Sýnist sitt hverjum og sumir segja að lítil sem engin fátækt sé á Íslandi miðað við önnur lönd. En þetta fólk sem leitar eftir stuðningi við matarinnkaup í kringum mánaðarmótin er hið sanna andlit fátæktarinnar á Íslandi, andlit sem fáir ef nokkrir kjósa að sýna opinberlega. Það er e.t.v. ekki auðvelt að trúa því fyrir sadda og sæla góðborgara að það sé til fólk hér á landi sem hreint og beint eigi ekki til hnífs og skeiðar. En það er nú samt hin kalda staðreynd sem ekki verður undan vikist.

Eins og ég sagði hér fyrr þá deila menn um hvernig skilgreina beri hugtakið fátækt. Sú skilgreining er í raun sára einföld. Það er fátæk fjölskylda sem verður að neita börnunum sínum um þátttöku í margskonar félagsstarfi vegna þess að það eru engir peningar til á heimilinu. Það eru fátæk börn sem komist ekki í tónlistarskóla, geti ekki stundað íþróttir, eru ekki jafnrétthá öðrum börnum í samfélaginu, af því að foreldrarnir geta ekki greitt þau gjöld sem kráfist er. Það er fátæk fjölskylda sem getur ekki keypt skólabækur og námsgögn fyrir börnin sín. Og það er fjölskylda í neyð sem þarf að biðja um mataraðstoð af því að engir peningar eru til fyrir mat . Nei, það er ekki auðvelt að trúa því að ástandið sé svona á allt of mörgum heimilum.

En fátæktin er því miður staðreynd sem ekki er hægt að afneita. Hvernig er best að bregðast við þessum staðreyndum fátæktarinnar á Íslandi sem ég nefndi? Ætli fyrsta skrefið sé ekki að viðurkenna fátæktina og horfast í augu við staðreyndir? Til þess að snúa við þeirri dapurlegu þróun sem Rauði krossinn, Hjálparstarf kirkjunnar og fleiri hjálparsamtök hafa bent okkur á að eigi sér stað um þessar mundir í átt til meiri fátæktar, þá held ég að það sé nauðsynlegt að taka höndum saman á breiðum grundvelli um þjóðarátak gegn fátækt. Svo margir þjóðflagshópar eru það illa staddir að ekki þýðir lengur að vera með venjulegt flokkakarp og ásakanir um hverjum allt sé að kenna.

Velferðarkerfið á Íslandi hefur aldrei staðið undir nafni miðað við hin Norðurlöndin og er á engan hátt í stakk búið til að takast á við þann mikla vanda sem nú blasir við. Þess vegna verður að breyta um stefnu. Athafnir en ekki orð er það sem þarf. Raunveruleg hjálp fyrir fjölskyldur landsins - ekki smáskammtalækningar. Þannig og aðeins þannig er hægt að vinna bug á þeirri fátækt og því vonleysi sem ríkir svo víða í landinu nú þegar haustar að og langur vetur er á næsta leiti.