Allra sálna messa

Allra sálna messa

Allra sálna messa var fyrst sungin opinberlega árið 998 í Cluny klaustrinu í Frakklandi. Víða um lönd kveikja menn á allra sálna messu ljós á leiðum ástvina sinna og halda fyrirbænaguðsþjónustur fyrir þeim sem horfnir eru úr þessum heimi.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
02. nóvember 2009

Kertaljós

Allra sálna messa var fyrst sungin opinberlega árið 998 í Cluny klaustrinu í Frakklandi, en frá Cluny klaustrinu kom eins stærsta siðbótarhreyfing miðaldanna, á þeim tíma þegar mikil spilling hafði ríkt í kaþólsku kirkjunni sem þá var hin eina viðurkennda í Vestur-Evrópu. Víða um lönd kveikja menn á allra sálna messu ljós á leiðum ástvina sinna  og halda fyrirbænaguðsþjónustur fyrir þeim sem horfnir eru úr þessum heimi. Sú hefð að halda líkar fyrirbænaguðsþjónustur er nú að ryðja sér til rúms hér á landi. Allra sálna messa og allra heilagra messa urðu sama hátíðin í lúterskum sið - sungin fyrsta sunnudag í nóvember.

Einn  af textum allra sálna messu fjallar um öll þau sem komin eru úr þrengingunni miklu, frá dauðanum og til eilífa lífsins og hafa hvítþvegið sig í blóði lambsins sem er Jesús kristur. Sá texti er úr Opinberunarbók Jóhannesar, 7. kapítula. Í þeim texta ær lesandi að líta yfir hin huldu landamæri er skilja að þetta líf og hið næsta. Þetta er reyndar eitt af fáum dæmum um það að Biblían fjalli beint um hvernig sú tilvera er sem bíður eftir dauðann. Það er ekki vegna þess að Biblían boði ekki eilíft líf eða tilvist og tilveru einstaklingsins eftir dauðann. Þvert á móti . Það ríkir alger fullvissa um eilífa lífið í Nýja testamentinu, svo mikil fullvissa að það er eins og ekki þurfi að ræða það frekar. Það er eiginlega sjálfgefið. Nýja testamentið talar heldur ekki um lífið hér og nú og lífið eftir dauðan sem eitthvað aðskilið fyrirbrigði. Lífið sem við eigum í heiminum fyrir dauðastundina og lífið sem bíður okkar hjá Guði eftir dauðann er í raun eitt og hið sama. Dauðinn er því framhald tilverunnar með Guði en í umbreyttri mynd. 

En í hverju er umbreyting lífsins fólgin eftir dauðann? Páll postuli talar um það í fyrra bréfi sínu til Korintumanna og segir svo :”En nú kynni einhver að segja: Hvernig rísa dauðir upp?” Og hannsvarar spurningunni þannig :”Til eru himneskir og til eru jarðneskir líkamar. Þetta hið forgengilega á að íklæðast óforgengileikanaum, og þetta hið dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.” 

Þetta er allt mikill leyndardómur og kannski ekki á mannlegu færi að skilja hann til hlýtar, en Páll notar líkingar til að leiðbeina skilningi okkar. Hið óforgengilega með og í Guði tekur við af forgengileikanum eftir dauðann, hjá Guði sprettum við eins og blóm af fræi, himneskur líkami af jarðneskum. En kjarninn í því sem Páll segir er sá að við munum lifa í Guði, en ekki forgengileg og tímanleg eins og núna, ekki háð stund og stað og klukku, heldur íklædd ódauðleikanum . Nánar getum við ekki komist til skilnings á þessum leyndardómi.  

Ég vil ráðleggja hverjum þeim sem virkilega vill kynnast hinni kristnu upprisutrú  að taka Nýja testamentið sitt og fletta upp á 15. kaflanum í fyrra korintubréfi og lesa það sem Páll skrifar þar. 

Á allra heilagra messu og allra sálna messu minnumst við þeirra sem með lífi sínu hafa orðið öðrum mönnum leiðarljós og styrkur. Þau eru ljós Jesú í heiminum, oftast án þess að vita af því sjálf. Að vera heilagur merkir að vera helgaður, frátekinn. Öll munum við eftir helgum mönnum og konum, móður, ömmu, afa, föður, systkini, vini, einhverjum sem lifði og dó fyrir aðra, fyrir okkur og eru okkur fyrirmynd. 

Kirkjan minnist sérstaklega sumra nafngreindra helgra manna og kvenna úr sögu sinni, en þau eru til í ótölulegum fjölda önnur sem hjörtun okkar geyma í helgri minningu. Þau eru öll í hópnum sem Jóhannes greinir frá í Opinberunarbók sinni. Þau biðja fyrir okkur dag og nótt eins og við biðjum fyrir þeim. 

Og á dauðastund okkar, þegar heimarnir tveir renna saman, hinn himneski og jarðneski og verða eitt, þegar við ekki lengur megnum að biðja fyrir okkur sjálfum, þá biðja hinir heilögu og allir ástvinir okkar í óforgengileikanum ,fyrir okkur frammi fyrir augliti Guðs.