Átak í fullorðinsfræðslu

Átak í fullorðinsfræðslu

Til að sporna gegn vaxandi fákunnáttu í kristnum fræðum og biblíufræðum verður að gera stórátak í fræðslumálum safnaðanna og á það við alla þætti fræðslunnar. Nota allir leiðir, gamlar og góðar, nýjar og ferskar. Já, og ekki síst finna slóðir sem ekki hafa verið farnar áður.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
26. janúar 2016

Kristin trú segir mikla sögu. Sögu sem hefur hríslast um menningararfinn á liðnum öldum og er honum samofinn svo ekki sér á milli sögunnar og arfsins. Hún hefur mótað hugsun og atferli, siðferði og venjur. Ekki er ljóst hvað ætti að leysa hana af hólmi í umróti nútímans. Kannski allar heimsins neyðarlínur.

Trúar- og menningararfur

Stundum heyrist sagt að kunnáttu í kristnum fræðum fari aftur. Börn kannist ekki við ýmsar þekktar sögur úr Biblíunni – og sama gildi reyndar um margt fullorðið fólk. Menn séu lengur að átta sig á biblíulegum tilvísunum í kvikmyndum og bókmenntum og þurfi jafnvel aðstoð við það. Kristinfræðikennsla í sumum skólum sé víða hátíðarfræðsla og fari síðan inn í geymslu eins og annað jóla- og páskaskraut; annars staðar er hún vonandi í góðu standi eða sæmilegu en þó liggur ekki fyrir nákvæm vitneskja um það og á sumum höfuðbólum hefur verið tregða til að afla hennar. Fyrir nokkru var frétt um að sjaldgæfara væri nú en áður að fólki næmi staðar þar sem slys hefðu orðið á fólki til rétta fram hjálparhönd. Þess í stað væri brunað framhjá en þó hringt í neyðarlínuna sem er gott mál í sjálfu sér. Sú spurning vaknar hvort dæmisagan um miskunnsama Samverjann sé týnd og tröllum sýnd. Kannski. Vonandi ekki.

Sóknarfærin liggja víða

Það er kúnst að ná til fólks í erli nútímans en margt er engu að síður til ráða. Kirkjan hefur sem betur fer einstaklega góðu fólki á að skipa og skipulag hennar er að mörgu leyti gott. Hvort tveggja þarf hins vegar að nýta og í því felast ótal sóknarfæri.

Söfnuðurinn er grunneining þjóðkirkjunnar – eða grunnstoð, deigla kirkju og kristni. Og þar má finna hjartslátt þjóðkirkjunnar – er það ekki? Þar hefur hver kristin manneskja sinn vettvang og hirðir hennar er aldrei langt undan, safnaðarfólk og vinir. Söfnuðurinn er kjörinn vettvangur fræðslu og uppbyggingar. Þar er að finna hina margfrægu grasrót!

Víða hefur dafnað blómlegt safnaðarstarf af ýmsum toga enda þótt það sé ekki ætíð sótt af þorra safnaðarbarna sem er alvarlegt umhugsunarefni fyrir söfnuðina og leiðtoga þeirra. Óneitanlega vaknar grundvallarspurning: Hvernig getum við laðað fleiri að safnaðarstarfinu? Svar við þeirri spurningu verður hver söfnuður að finna fyrir sig – og út frá sínum aðstæðum. Það er fullt tilefni til að kalla til fundar í grasrótinni. Núna. Og kannski var fundurinn bara haldinn í gær!

Þörf á stórátaki - fullorðinsfræðsla

Eitt má þó segja: Til að sporna gegn vaxandi fákunnáttu í kristnum fræðum og biblíufræðum verður að gera stórátak í fræðslumálum safnaðanna og á það við alla þætti fræðslunnar. Nota allir leiðir, gamlar og góðar, nýjar og ferskar. Já, og ekki síst finna slóðir sem ekki hafa verið farnar áður. Þar er auðvitað hver sjálfum sér næstur. Leiðtogar safnaðanna hafa það hlutverk meðal annars að vera þar í fararbroddi – og vekja söfnuðinn. Margir hafa þar unnið gott starf. Í einhverjum tilvikum þarf söfnuðurinn kannski að vekja leiðtogann. Aldrei að vita.

Fullorðinsfræðsla er mikilvægt viðfangsefni fyrir alla söfnuði landsins og að henni þarf að gæta sérstaklega. Tækifærin eru næg og efni sem hægt væri að nota við hana er til. Það er ekki fráleitt að söfnuðir stofni kirkjuskóla fullorðinna enda drjúgur mannauður í sóknum landsins sem gæti lagt því starfi lið. Segja má að sums staðar sé vísir að þeim þar sem skotið er á fræðslufundum um margvísleg þjóðþrifamál með kirkjulegum tengingum og lifandi umræðutorg þar sem safnaðarfólk ýmist fræðir eða stýrir gestaumræðu. Allt er þetta til fyrirmyndar.

Skálholtsútgáfan –útgáfufélag þjóðkirkjunnar hefur gefið út margs konar fræðsluefni á undanförnum áratugum. Þar hefur reyndar höfuðáherslan verið á barna- og unglingaefni. En hún hefur líka gefið út á umliðnum árum fjölda bóka sem gætu vel nýst í fullorðinsfræðslu safnaðanna og sumar hverjar hafa reyndar verið notaðar í því skyni.

Dæmi um nýja bók sem nota má í fullorðinsfræðslu

Hér skal nefnd nýleg bók sem komin er út hjá Skálholtsútgáfunni-útgáfufélagi þjóðkirkjunnar, og væri tilvalið að nota í fullorðinsfræðslu safnaðanna. Bókin heitir Stóra púsluspilið – Leitin að elstu handritum Biblíunnar, eftir Hans Johan Sagrusten, í þýðingu undirritaðs. Hans Johan kom á síðustu prestastefnu og kynnti bók sína og var honum vel tekið af kennilýðnum. Bókin fjallar um efni sem lítið hefur verið ritað um á íslensku og telst eflaust nýnæmi fyrir íslenska lesendur. Í henni er rakinn á skýran og lipran hátt mikilvægur hluti af tilurðarsögu Nýja testamentisins sem eru meðal annars hin fornu handrit texta þess. Sú saga er oft með ævintýrablæ og margt sem kemur lesendum á óvart. Nota mætti bókina til dæmis í leshring í söfnuðum og spjalla um hana og fræðast um efni sem tengist henni.

Margar aðrar bækur mætti nefna sem Skálholtsútgáfan-útgáfufélag þjóðkirkjunnar hefur gefið út. Af nægu er að taka – aðeins þarf að bretta upp ermar og auka fræðsluna.

Mikilvægt er að söfnuðir kynni sér útgáfumál þjóðkirkjunnar og komi með hugmyndir um útgáfu og fleira sem að henni lýtur. Allar hugmyndi eru vel þegnar! Slóð Skálholtsútgáfunnar-útgáfufélags þjóðkirkjunnar er:

http://kirkjuhusid.is/collections/4044-um-lifid-tilveruna-og-truna