Nýtt ár í óvissu og von

Nýtt ár í óvissu og von

Víst er að árið 2009 verður munað um langa hríð. Þetta hefur verið býsnaár. Allt með ólíkindum. Undireins í janúar hófust fjöldamótmæli er birtu djúpstæða reiði fólks yfir því hruni er varð á haustmánuðum 2008 og afleiðingum þess. Þetta þarf ekki að rifja upp í smáatriðum.

Predikun flutt við aftansöng í Borgarneskirkju 31. desember 2009

Lúkas 13. 6-9.

En hann sagði þeim þessa dæmisögu: “Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni ? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.”

Enn erum við í kunnuglegum aðstæðum, stödd í helgidóminum við lok árs. Fáeinar stundir lifa af árinu sem er að líða, það hverfur brátt í aldanna skaut. Við áramót, líkt og við önnur tímamót, lítum við til baka, til þess tíma sem er að líða.

Víst er að árið 2009 verður munað um langa hríð. Þetta hefur verið býsnaár. Allt með ólíkindum. Undireins í janúar hófust fjöldamótmæli er birtu djúpstæða reiði fólks yfir því hruni er varð á haustmánuðum 2008 og afleiðingum þess. Þetta þarf ekki að rifja upp í smáatriðum. Stjórnarskipti urðu. Við gengum í fang Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, til að bjarga því sem bjargað varð. Og nú undir árslok tókst Alþingi á við hið harmlega Icesave mál, og urðu loksins lyktir. Vonandi ganga eftir orð fjármálaráðherrans um að þær ósanngjörnu byrðar er við þurfum að axla verði ekki of þungar og að orðspor Íslendinga í alþjóðasamfélaginu batni og viðreisn geti hafist.

En orðaskaki og skylmingum stjórnar og stjórnarandstöðu verður að linna. Með fullri virðingu fyrir skoðunum og andstæðum sjónarmiðum stjórnmálamanna. Icesave málið er þungbært og mörg sjónarmið gild uppi um hvað ber að gera. Nú er samt nóg komið af átökum og Alþingi þarf að veita samhenta forystu og leiðsögn til friðar, sátta og uppbyggingar.

Enn er þó rót og uppnám meðal okkar. Erfitt er að sjá hvernig mál munu þróast á næstu mánuðum og misserum. Þótt fullyrt hafi verið að afleiðingar hrunsins hafi ekki orðið jafn slæmar, alla vega eins og staðan er nú, hvað varðar atvinnustig og afkomu fyrirtækja og einstaklinga - þá vitum við um og sjáum bugaðar manneskjur og fjölskyldur sem brotna. Og reiðin grefur enn um sig. Víst fóru margir óvarlega, smitaðir af bjartsýni, blekktir og afvegaleiddir af fráleitri ráðgjöf fjármálastofnana sinna, og tefldu á tæpasta vað, miðað við gengi krónu og verðbólgustig fyrir hrun. Þeirra hlutskipti verður erfitt. En margir sem fóru að því er virtist varlega engjast nú í ugg og ótta um hag sinn og sinna.

Bráðlega er von á skýrslu rannsóknarnefndar um bankahrunið - um efni hennar er það eitt vitað, að formaður nefndarinnar hefur sagt að þungbær verði niðurstaðan - hvað svo sem það þýðir í raun. Í framhaldinu verður að eiga sér stað uppgjör - og þeir sem sök bera verða að axla ábyrgð sína. Margt gefur vísbendingar um að ekki aðeins hafi verið gengið fram í fullkomnu ábyrgðar- og fyrirhyggjuleysi, heldur hafi í einhverjum tilvikum verið um skipulagða glæpastarfsemi að ræða.

Víst er að þegar að uppgjöri kemur verður ljóst að margir hafa brugðist, ekki staðið sig sem skyldi.

Guðspjall dagsins geymir sögu; dæmisögu Drottins Jesú Krists um fíkjutré. Tré sem ekki hefur dugað vel. Tré sem á litla framtíð. Tré sem á að upphöggvast og hverfa. Gefðu því eitt ár enn, segir víngarðsmaðurinn, og biður því vægðar. Þetta er dæmisaga.

Dæmisaga er saga sem tekur atvik úr daglegu lífi og reynslu okkar – notar efni sem er afar venjulegt og öllum auðskilið, til að flytja erindi, boðskap, hugmynd eða lífsskoðun. Sagan af fíkjutrénu sem á sér tvísýna tilvist á því ekki heima í handbók um trjárækt, heldur geymir hún erindi um tímann og tækifærin, vöxt og stöðnun, líf og dauða. Þetta er saga um afdrif mannanna.

Nýtt Ísland. Þetta er ákall sem heyrst hefur undanfarin misseri. Að við þurfum eitthvað alveg nýtt.

Eru þarna á ferðinni innantóm slagorð eða vilji til alvöru endurskoðunar á því hvernig við hugsum og göngum fram í verkum okkar? Spilling og klíkuskapur er svo sem ekkert nýtt í íslensku samfélagi. Stjórnmálamenn, sumir, hafa allan lýðveldistímann farið með verðmæti þjóðarinnar sem sitt góss, deilt og drottnað, hyglað sér og sínum, án þess að það hafi þó skapað allsherjarhrun. Flokksskírteinið var oft það besta plagg sem menn gátu veifað.

Þessu þarf að breyta og við skulum vera minnug þess er fram kom á þjóðfundarsamkomunni sem haldin var fyrir skömmu, að fólk vill að nýtt Ísland einkennist af heiðarleika, virðingu og kærleika

Og orðræða okkar og samtalshættir þurfa að breytast. Við höfum um of tamið okkur að tala í fullyrðingastíl og hafa uppi ógrundaða dóma, hleypidóma.

Öguð, hófstillt umræða er nauðsynleg hverju samfélagi. Að hlutirnir séu skoðaðir eins og þeir eru. Kirkjan hefur ekki farið varhluta af neikvæðni og vantrausti fólks í garð opinberra stofnanna. Þrátt fyrir gott og mikið starf, þrátt fyrir að vera stofnun sem þjónustar fólk, hvenær sem er og hvar sem er, ávallt þegar eftir er kallað, virðast margir vantreysta kirkjunni, og jafnvel vilja hana burt. Þetta er undrunarefni en jafnframt áminning.

Nú fyrr í þessum mánuði var haldin stór alþjóðleg ráðstefna í Kaupmannahöfn um loftslagsmál og umhverfi. Því miður skilaði þessi mikla samkoma litlu; ekkert er nú fast í hendi um hvernig mannkyn ætlar að bregðast við umhverfisvá er vofir yfir og getur leitt mestu hörmungar mannkynssögunnar yfir - og enginn verður undanskilinn. Sem fyrr eru það skammtímahagsmunir sem ráða. Skammarlegt var úrræðaleysi þjóðarleiðtoga heimsins.

Það er játning kristinnar kirkju að jörðin og heimurinn bera vitni um dýrð Guðs. Guð er ekki hátt upp hafinn og fjarlægur; í sköpunarverki Guðs búa vísbendingar um Guð. Miðaldaguðfræðingarnir orðuðu þetta svo: Finitum capax infiniti. Eilífðin býr í hinu tímanlega. Í því sem við reynum, sjáum og snertum búa ótal vísbendingar um Guð; hvað Guð er, hvað hann vill.

Í tónlist Mozarts reynum við og skynjum eitthvað sem er ekki af þessum heimi. Í fegurð og mikilfengleik náttúrunnar greinum við vísanir til Guðs skapara sem er handan þessa heims, en samt svo nærri. Í augum barnsins sáum við blik og birtu, undur, sem við getum ekki skýrt eða tjáð með orðum. Og Marteinn Lúther talar um hluta sköpunarverksins sem grímur Guðs, larvae Dei, nálægð Guðs í sköpun hans. Heimurinn er þannig sannarlega verk Guðs, sköpunarverk, eign hans, veruleiki sem er til orðinn fyrir veru og vilja Guðs - heimur kallaður út úr myrkri og tómi. Það er játning kristinnar trúar.

Heiminn á að nota; hann á að vera til uppihalds lífsins. En hvernig og með hvaða hætti ?

Lykilhugtak í guðfræði Gamla Testamentisins eru orð um ráðsmennskuskyldu mannanna.

Í stað drottnunarhugarfarsins, sem einkennt hefur umgengni og ágengni mannana síðustu aldir, er áhersla á lotninguna, auðmýktina. Í 8. Davíðssálmi hugleiðir skáldið þetta hlutskipti mannsins að hafa forystu, bera ábyrgð á öllu því sem lagt er að fótum hans.

Maðurinn er kallaður inn í þennan heim og gefið líf. Það er eftirtektarvert að í sköpunarsögunni, sem er í raun og veru lifandi ljóðræn predikun og sýn spámanns, er nafn hins fyrsta manns Adam - dregið af hebreska orðinu adamah - sem merkir jörð eða mold. Afdrif manns og moldar eru þannig nátengd. Sköpunin er líka oft uppteiknuð sem lifandi vera sem gleðst og grætur, syngur Guði lof, stynur undan oki sínu líka og hefur fæðingarhríðir.

Við höfum þessa jörð að láni til viðurværis. Skuldunautar okkar, þeir sem lána okkur jarðargæðin eru komandi kynslóðir, óbornir afkomendur okkar. Nú þegar stöndum við í stórri skuld; hvernig tekst að greiða hana niður ?

Vitnisburður kristinnar trúar um ráðsmennsku er í andstöðu við það hugarfar sem ráðið hefur gerðum mannkyns gagnvart sköpuninni, alla síðustu öld. Nægjusemi og fyrirhyggja hafa vikið fyrir blindri hagvaxtar- og neysluhyggju; Ofdramb mannsins, sem hefur gleymt Guði sínum og gert sjálfan sig að Guði hefur fært okkur út á ystu nöf.

Í Helgakveri sem var fermingarkver, kennt við höfundinn Helga Hálfdánarson, prestaskólakennara, er börnunum kennd umgengni við skepnurnar. Og þar segir á mjög afgerandi hátt. Ill meðferð á skepnum ber vott um grimmt og guðlaust hjarta. Þessa staðhæfingu séra Helga má yfirfæra á sköpunarverkið í heild sinni og minna okkur á að nú er tíminn til að snúa við, breyta.

Það gladdi okkur nú í haust að sjá frábæra frammistöðu hins gáfaða og geðþekka liðs Borgarbyggðar í þeim ágæta þætti Útsvari. Í seinni þættinum sem þau sátu var einn þáttur spurninga sem kallaður var Fordómar. Hleypidómar hefði verið nær lagi, því þarna var sannarlega spurt um þá.

Við Íslendingar höfum oft gert okkur sek um hleypidóma gagnvart útlendingum og gjarnan litið á þá sem eitthvað er við gætum grætt eða hagnast á.

Það stóð ekki á okkur að hleypa fólki inní landið á þenslutímanum þegar við þurftum vinnufúsar hendur til að bæta lífskjör okkar.

En flóttamenn og þá sem vilja bæta líf sitt og lífsgæði, ber að ströndum okkar góða lands. Ekki ber íslensk löggjöf fagurt vitni um hug okkar til þeirra sem vilja leita hér griða. Endalaust berast okkur fréttir af brottvísun hælisleitenda og dapurlegum aðbúnaði þeirra sem einhvern veginn hafa þó komist í gegn um tollmúrana og eru vistaðir hér í óvissu og óöryggi og vita það eitt að þau eru ekki velkomin. Svo heimtum við samúð og skilning á kjörum okkar hjá útlendu fólki sem íslenskrar fjármálastofnanir, í skjóli vanhæfra stjórnvalda, hafa hlunnfarið og skilið eftir á vonarvöl.

Í kreppu og erfiðleikum er fátt hollara þjóð sem horfir með ótta og hrolli á efnahagsumhverfið, en að opna faðminn og taka við þeim sem, þó ekkert eiga og ekkert hafa og óttast um líf sitt ef þau verða send á heimaslóðir. Þrátt fyrir aðsteðjandi erfiðleika, tekjusamdrátt, niðurskurð, erfiðari skuldir er samfélag okkar í grunninn gott og ríkulega búið. Við erum þess fullmegnug að vera veitul, lúta og líkna þeim sem ekkert eiga; lifa, - líkt og Marteinn Lúther sagði framgöngu hins kristna manns - glöð og fagnandi fyir hverri skepnu. fyrir hverjum manni og gera hinum þurfandi vel.

Nú er tímabært að bjóða fólki úr öðrum heimshornum vist með okkur, auðga þannig mannlíf allt og jafnframt bæta orðspor okkar í samfélagi þjóðanna hvað varðar stuðning við þá sem eru þurfandi.

Sagan um fíkjutréð geymir í sér áminningu og hvatningu um ábyrgð. Ábyrgð mannanna. Tréð á að gefa ávöxt, til þess er það, annars fær það ekki að lifa og er engum til gagns.

Sagan um fíkjutréð segir okkur, að enn er tími, enn er miskunn Guðs rík. Misjöfn erum við sannarlega - og misjafnir eru dagar okkar. En við erum líkt og fíkjutréð, þurfum aðhlynningu og næringu, svo við fáum lifað og borið góðan ávöxt og horft vonglöð fram á veg.

Í bæn, er við leitum Drottins í hugsun okkar og orðum, í ákalli, í nauðum, í lofsöng og í gleði, þiggjum við það sem hann vill gefa, það sem hagvöxtur heimsins getur ekki gefið og engin gengisfelling mannlegra verðmæta getur frá okkur tekið.

Við megum þakka af hjarta fyrir að á nýju ári fáum við enn tíma, einn dag í einu.

Biðjum um vit og dómgreind til að fara vel með það sem er á okkar valdi, svo að dagar okkar verði góðir. Æðruleysi til að sætta okkur við það sem við fáum ekki breytt og djörfung til að vera það sem við teljum réttast.

Guði sé lof fyrir nýtt ár sem hann gefur. Guð gefi að við getum unnið ljóssins verk meðan dagur er.

Gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni. Amen.