Andrúmsloft á aðventu

Andrúmsloft á aðventu

Á aðventunni er eins og skelin verði þynnri og það sé erfiðara að brynja sig fyrir áreitinu úr umhverfinu. Þessvegna á gleðin, en einnig sorgin, greiðari aðgang að okkur um þetta leyti en ella.

Það er eitthvað alveg einstakt sem gerist á aðventunni. Þá er ég ekki að tala um þessa ytri umgjörð, jólaljósin, jólagjafaauglýsingarnar og stressið sem oft fylgir undirbúningi jólanna. Nei – ég er að tala um þetta sérstaka andrúmsloft sem ríkir í samfélaginu á þessum árstíma og fáir virðast ósnortnir af. Á aðventunni er eins og skelin verði þynnri og það sé erfiðara að brynja sig fyrir áreitinu úr umhverfinu. Þessvegna á gleðin, en einnig sorgin, greiðari aðgang að okkur um þetta leyti en ella.

Meðvitundin um hversu erfitt það getur verið að halda jólin hátíðleg í skugga sorgar hefur aukist til muna á undanförnum árum og er það vel. Þegar undirbúningur fyrir jólahátíðina nær hámarki og umhverfið íklæðist hátíðarbúningi, þá finna þau sem syrgja og sakna hvað mest fyrir missinum. Auða sætið við hátíðarborðið minnir á einstaklinginn sem er farinn. Og allt talið um gleðileg jól er í sterkri mótsögn við tilfinningar þeirra sem syrgja og sakna, eða eru þjökuð af áhyggjum og kvíða. Undir slíkum kringumstæðum er erfitt að vera þátttakandi og finna samhljóm á milli umhverfis og innri líðan. Aukin meðvitund um einmitt þetta ætti að gera okkur læsari á umhverfi okkar og líðan þeirra sem í kringum okkur eru og þar með hjálpað okkur að sýna skilning í verki.

Á aðventunni er einnig auðveldara að höfða til samkenndar með þeim sem eiga undir högg að sækja en endra nær - hvort sem um er að ræða þau sem búa við skort úti í Afríku, á Hawai, eða hér á meðal okkar í samfélagi allsnægta þar sem enginn ætti að þurfa að líða skort. Þessvegna á það ekki að koma á óvart að safnanir fyrir mikilvæg málefni gangi eins vel og þær gera svona rétt fyrir jólin. Auðvitað má halda því fram að þau sem gefa í slíkar safnanir séu að kaupa sér frið eða afsökun fyrir óhóflegri eyðslu í eigin þágu, en það er líka hægt að líta svo á að einmitt á þessum tíma sé fólk viljugra en ella til að láta gott af sér leiða, til að létta undir með þeim sem á þurfa að halda.

Það er stundum talað um að það sé eitt af stóru vandamálum samtímans hversu erfitt fólki reynist að sýna samsemd með þeim sem finna til. Ástæðuna er án efa m.a. að finna í þeirri ofgnótt frétta sem yfir okkur dynur á hverjum degi – oftar en ekki af átökum, slysum, hamförum, ofbeldi og öðru sem veldur ómældri þjáningu og sorg. En á aðventunni er margt sem bendir til þess að það sé auðveldara að kalla fram samsemd og fá fólk til að opna augu og eyru fyrir neyð náungans. Á þessum árstíma er eins og við séum opnari fyrir því að sjá líf okkar í stærra samhengi. Við erum ekki eyland, við þurfum á því að halda að tilheyra; tilheyra fjölskyldu, tilheyra vinahópi, tilheyra samfélaginu sem við búum í og þannig mætti lengi telja.

Jólabarnið í jötunni kallar fram einlæga gleði yfir lífinu og möguleikum þess. En það minnir okkur líka á hversu viðkvæmt og vandmeðfarið lífið er. Litla barnið þarf á ást og umhyggju að halda. Foreldrarnir, hirðarnir og vitringarnir standa fyrir stærra samhengið sem veitir því allt sem það þarfnast. Frammi fyrir boðskap jólanna stöndum við berskjölduð. Í einfaldleik sínum kemur þessi boðskapur við kvikuna í okkur og gerir okkur erfitt fyrir að verjast, gerir okkur erfitt fyrir að skýla okkur á bak við varnir sem við kunnum að hafa byggt upp - gegn eigin vanmætti og neyð annarra.

Í myrkrinu skín ljós og fagnaðarerindi jólanna hljómar í eyrum okkar: „Verið óhrædd, ég boða yður mikinn fögnuð.“

Guð hefur ekki gleymt okkur – Guð kemur til okkar og dvelur á meðal okkar. Þessvegna óskum við hvort öðru gleðilegra jóla.