Skálholtsskóli hinn nýi 45 ára - hvert stefnir í Skálholti?

Skálholtsskóli hinn nýi 45 ára - hvert stefnir í Skálholti?

Væri ekki vel við hæfi nú þegar 45 ár eru liðin frá því að skólahald hófst að nýju í Skálholti, að efla á ný staðinn með samstilltu átaki kirkju og þjóðar?
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
30. júní 2017

Á þessu ári verða liðin 45 ár síðan Skálholtsskóli hinn nýji hóf starfsemi sína undir forystu sr.Heimis Steinssonar og Dóru Þórhallsdóttur. Að baki skólans stóð Skálholtsskólafélagið undir forysti herra Sigirbjörns Einarssonar biskups. Sterkar stoðir voru settar undir skólann með lögum um Skálholtsskóla árið 1976. Eftir kraftmikið frumkvöðlastarf fluttu þau hjónin til Þingvalla árið 1981. Skólastarfsemi var hætt við skólann árið 1992 og nú er Skálholtsskóli rekinn sem kirkjulegt menningarsetur.

Skálholt var endurreist á 20. öld af mikilli hugsjón, bæði kirkja og skóli. Eins og fréttir sýna virðist áhuginn á staðnum ekki mikill um þessar mundir. Kirkjan er í niðurníðslu og stórskemmd eftir jarðskjálfta en ekkert fé fæst til í viðgerðir. Og skólinn þarfnast styrkrar framtíðarsýnar eins og staðurinn allur. Ef til vill er það einmitt skýr framtíðarsýn og skýrt hlutverk sem gæti lyft staðnum á ný til vegs og virðingar.

Það er því ekki úr vegi að rifja upp frumkvöðlaárin og þá bjartsýni sem einkenndi uppbyggingu Skálholts á tuttugustu öld, ef það mætti verða til að hleypa mönnum kappi í kinn.

Kaflinn sem hér fer á eftir er úr grein sr. Heimis sem hann ritaði í tilefni af 25 ára afmæli skólans og sýnir vel hugsjónaeldinn sem brann. Vilji menn fræðast frekar um sögu þessara frukvöðlaára í Skálholti, má benda á Afmælisrit Prestafélags Suðurlands sem gefið var út 1987, en þar skrifaði sr.Heimir ítarlegan annál áranna 1969 -1981

„Endurreisn Skálholtsstaðar er í hópi rismestu verkefna íslenzku Þjóðkirkjunnar á ofanverðri 20. öld. Þegar skólahald hófst að nýju í Skálholti haustið 1972, komu ýmsir straumar saman í einum farvegi. Tvennt bar þar hæst: Annað var draumurinn um Skálholt hið nýja, en hann hafði frá fyrstu tíð snúizt um hvort tveggja, biskupsstól og kirkjulegt menntasetur í einhverri mynd. Skálholtsskóli hinn forni stóð mönnum fyrir hugskotssjónum. Kirkja Íslands skyldi eignast menningarmiðstöð, er yrði kristnihaldi komandi kynslóða til eflingar. Hins vegar bar í drauma vonir góðra manna um endurreisn lýðháskóla á Íslandi. Af þessum þáttum tveimur voru umræður og áætlanir um eflingu skóla í Skálholti snúnar árin fyrir upphaf starfseminnar. Þegar skólinn tók til starfa, var því síðan mjög haldið að nemendum, að þeir væru brautryðjendur nýrra og frjálslegri viðhorfa og aðferða í skólastarfi og námi, þátttakendur í ævintýri. Þetta var orð að sönnu í margvíslegum skilningi: Rétt er að minna á, að Skálholtsskóli hóf göngu sína fyrir upphaf fjölbrautaskólanna. Nýjungar lágu í loftinu varðandi tilhögun framhaldsnáms á Íslandi. En þær voru ekki orðnar að veruleika. Tíminn var fullnaður og þörfin fyrir gjörbreytta skólahætti öllum ljós. Skálholtsskóli var í öndverðu fyrirrennari nokkurs, sem almenningur vænti og síðar hefur í raun komið fram um land allt. Skólinn hitti þannig vel í lið, og þessar aðstæður léku í hendur honum. Sumarið 1969 var stofnað félag til eflingar hinum verðandi skóla. Það hét "Skálholtsskólafélagið". Sama ár fól kirkjuráð mér og konu minni, Dóru Þórhallsdóttur, að fara af landi brott til að kynnast starfsemi lýðháskóla á Norðurlöndum. Réðumst við til starfa á skóla einum í bænum Haslev á sunnanverðu Sjálandi. Skólinn heitir "Haslev udvidede höjskole". Úr þessu varð þriggja ára dvöl á erlendri grundu. Síðasta misserið unnum við á norskum lýðháskóla, "Utgarden folkehöyskole" á Karmöy, skammt frá Haugasundi og Stavanger. Sumarið 1972 komum við heim og tókum til við að undirbúa skólahald í Skálholti, m.a. með umfangsmiklu kynningarstarfi í fjölmiðlum. Árangur þessa erfiðis varð sá, að skólanum barst 41 umsókn um veturvist hið fyrsta haust. Ekki var þó heimavistarrými í Skálholti fyrir meira en liðlega tvo tugi nemenda. Niðurstaðan varð sú, að 24 ungmenni sátu í Skálholtsskóla fyrsta starfsárið. Síðar fjölgaði nemendum, og urðu þeir að meðaltali 35 í hverjum vetri þau tíu ár, sem við Dóra rákum Skálholtsskóla.

Skóli sá, sem hóf göngu sína í Skálholti hinn 15. október 1972, var lýðháskóli að norrænni fyrirmynd. Meðalaldur nemenda var 18 ár. Námið skiptist í skyldugreinar og valfrjálsar greinar. Skólinn bauð nemendum 60 kennslustundir í viku hverri, þar af 12 skyldustundir. Hver nemandi sótti liðlega 40 stundir í viku. Skyldugreinarnar voru íslenzkar bókmenntir, málfræði og starfsetning, menningarsaga og trúfræði, almennur söngur, "samtímaviðburðir", þ.e. fréttaskýringar um innlend og erlend efni, og vikulegur tveggja stunda fyrirlestur um sundurleit efni. Komu fyrirlesarar þá úr ýmsum áttum, m.a. fulltrúar allra stjórnmálaflokka ár hvert.Valfrjálsar greinar skiptust í nokkra höfuðþætti. Fyrst er að nefna "almennar greinar", en þær voru enska, danska, þýzka, latína, stærðfræði, eðlisfræði, líffræði, vélritun, bókfærsla og skyndihjálp. Annar flokkur valfrjálsra greina var "félagsfræðibraut". Þar var að finna sálarfræði og uppeldisfræði, félagsfræði, nútímasögu, búvísindi, félagsmálafræðu og starfsfræðslu. Þriðja brautin snerist um lífsviðhorfin. Þar stunduðu nemendur biblíuskýringar, siðfræði, heimspekisögu og almenna trúarbragðasögu. Fjórða svið valfrjálsra greina var listir og íþróttir, píanóleikur, fiðluleikur, flautuleikur, gítarleikur, þjóðdansar, kórsöngur, leikmennt, handmennt, sund og leikfimi. Engin próf voru tekin við lýðháskólann í Skálholti. Gengið var eftir náminu með daglegum verkefnum, stórum og smáum. Í vetrarlok gaf skólinn nemendum skriflegan vitnisburð um frammistöðu í námi. Félagslíf var fjölbreytt og lifandi á Skálholtsskóla. Rektor og kennarar skiptu með sér verkum og voru samvistum við nemendur dag hvern fram á kvöld. Málfundir og kvöldvökur, leikstarfsemi og blaðaútgáfa, skemmtisamkomur og dansleikar skiptust á, svo að eitthvað sé nefnt. Mikil áherzla var á það lögð, að skólinn væri "heimili" nemenda. Átti konan mín drýgstan þátt í þeirri viðleitni sem "húsmóðir" á skólanum að norrænni fyrirmynd. "Nemendasamband" var stofnað og starfaði með prýði í mörg ár“ (Heimir Steinsson Mbl. 1997).

En nú er hún Snorrabúð stekkur eins og fyrr segir og ástand kirkju og staðar vitnar um.

Væri ekki vel við hæfi nú þegar 45 ár eru liðin frá því að skólahald hófst að nýju í Skálholti, að efla á ný staðinn með samstilltu átaki kirkju og þjóðar? Skálholtsskóli og Skálholtskirkja endurspeglaði á sínum tíma þann samhug sem ríkti milli kirkju og þjóðar um Skálholt. Og milli Íslands og Norðurlandanna.

Þann samhug þarf að efla á ný – ef staðurinn á að eiga sér framtíð en ekki aðeins glæsta fortíð.