Þjóðkirkja á þröskuldi I

Þjóðkirkja á þröskuldi I

Þjóðkirkjan má þó ekki aðeins sérhæfa sig á sviði trúar og lífsskoðana. Hún verður líka að taka þátt í að mæta öðrum áskorunum sem við Íslendingar ásamt öllum öðrum þjóðum glímum við: loftslagsvá af manna völdu og fólksflutningavanda. Þjóðkirkja sem ekkert leggur af mörkum til nútímasamfélags stendur vissulega ekki á þröskuldi heldur hafa dyrnar lokast að baki hennar.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
16. febrúar 2018

Það kann að vera klisjukennt að halda því fram að íslenska þjóðkirkjan standi á þröskuldi nú fremur en endranær. Fullyrðingin verður þó raunhæfari ef þröskuldurinn sem um er rætt vísar ekki til líðandi stundar heldur næstu kynslóðaskipta. Þá skjóta óhjákvæmilega ágengar spurningar upp kollinum: Hver verða tengsl þjóðkirkjunnar við þjóðina og þar með staða hennar sem þjóðkirkju þegar þau börn sem nú eru á grunnskólaaldri taka við af kynslóð foreldra sinna sem uppalendur ungra barna? Og hverjar verða forsendur kynslóðarinnar sem nú er í mótun til að veita börnum sínum trúarlegt uppeldi sem laðar þau að kirkjunni?

Vandi að spá
Um þetta er auðvitað vandi að spá en benda má á nokkur atriði sem óhjákvæmilega hafa áhrif í þessu sambandi: það trúaruppeldi sem grunnskólabörn fá á heimilum sínum núna, þá kennslu í kristnum fræðum sem þau fá í skólanum og fræðsluna sem þau fá á vegum kirkjunnar.

Engar kannanir liggja fyrir um trúariðkun og trúfræðslu íslenskra barna í upphafi 21. aldar. Þessi fyrirbæri mótast auðvitað fyrst og fremst af skoðunum og frumkvæði foreldranna. Ugglaust læra mörg börn Faðir vorið og hugsanlega aðrar bænir og vers. Óvíst er þó hve almennt það er og hvort börn hljóti almennt trúarlega mótun heima fyrir sem er til þess falin að vaxa með þeim og efla þau í foreldrahlutverkinu síðar. Á fyrsta og þriðja áratugi 20. aldar var gerð aðgreining á kirkju og skóla sem fram að því höfðu verið samtvinnuð. Þar með var skilið á milli trúarbragðafræðslu í skyldunámsskólum og þeirrar trúfræðslu sem er ætlað að hafa áhrif á tengsl barna við þjóðkirkjuna. Skólinn er nú á dögum fyrir alla en kirkjan aðeins fyrir þau sem það kjósa. Trúarleg mótun barna veltur því að mestu á hlut kirkjunnar sjálfrar. Hvað sækir hátt hlutfall grunnskólabarna kirkjulegt barna- og unglingastarf? Hversu staðfastlega sækja þau slíkt starf? Upp á hvers konar fræðslu er boðið? Og hvað situr eftir til framtíðar? Í þessu sambandi skipir fermingarveturinn auðvitað mestu máli. Þar er snertiflöturinn við uppvaxandi kynslóð breiðastur.

Mun fermingin haldast eða víkja?
Forsendur þeirrar kynslóðar sem gegna mun lykilhlutverki í trúaruppeldi þjóðarinnar kringum 2030 verða nokkurn veginn þær sömu og þeirra barna sem fermast um þessar mundir. Lesendum skal látið eftir að meta hvort þær eru veikar eða sterkar. Af ummælum presta að dæma eru þær veikar þegar börnin hefja fermingarundirbúninginn. En hafa þær breyst eitthvað að ráði eftir fermingarveturinn? Ugglaust hefur það ekki verið kannað. Íslenska þjóðkirkjan ástundar engar kirkjurannsóknir svo vitað sé en með því er átt við hagnýtar rannsóknir á kirkjustarfi sem leggja má til grundvallar við breytingar og þróun.

Ísland sker sig frá ýmsum löndum öðrum í því að hlutfall fermdra af hverjum árgangi er enn mjög hátt. Ástæðurnar kunna að vera margar og jafnvel há-kirkju- og trúarlegar. Líklegt er þó að félagsleg hefð skipti hér miklu máli og sú staðreynd að takmarkaðir kostir hafa verið í boði fyrir þau börn sem ekki vilja fermast kirkjulega en án þess að skera sig um of frá jafnöldrum sínu. Þeir valkostir sem um hefur verið að ræða hafa heldur varla staðið öðrum til boða en börnum sem alast upp í trúarlegum minnihlutahópum.

Nú er aftur á móti annars konar ferming í boði fyrir alla á vegum Siðmenntar. Ugglaust verður langt þar til Siðmenntar-ferming eða önnur hliðstæð tekur að keppa verulega við þjóðkirkju-fermingu. Þess ber þó að gæta að þegar mögulegt er að velja milli tveggja raunhæfra kosta opnast fljótt þriðji möguleikinn: að velja hvorugt. Það kann sem sé að vera skammt í að róttækar breytingar verði á fermingartölfræðinni í stærra þéttbýli þar sem hefðirnar gefa fyrst eftir. Oftast fylgja aðrir hlutar samfélagsins svo í kjölfarið þótt þróunin verði hægari þar.

Óþarfur höfuðverkur?
Nú má ef til vill segja að þjóðkirkjan geti látið sér þetta allt í léttu rúmi liggja. Það liggur í eðli ÞJÓÐ-kirkju að vera hógvær og óágeng, vera til staðar frekar en að láta á sér bera, vera frekar álengdar og á jaðrinum en í miðju samfélagsins, vera alltaf til þjónustu reiðubúin líkt og skáti en trana sér ekki fram, því síður þrengja sér upp á nokkurn mann. Til að vera þjóðkirkja af þessu tagi þarf kirkjan ekki að vera í neinu sérstöku sambandi við þjóðina. Hún þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af trúariðkun, trúarlífi eða trúarskoðunum — eða skoðunum yfirleitt. Hún þarf aðeins að bíða og vona að í framtíðinni haldi fólk áfram að leita til hennar á „stóru stundunum“ í gleði og þraut líkt og hingað til.

Fyrir þjóð–KIRKJU með kirkjulegan metnað er þetta á hinn bóginn ekki fullnægjandi. Slík kirkja vill standa á eigin grundvelli og starfa á eigin forsendum um leið og hún virðir og viðurkennir að trúarlegar forsendur þjóðarinnar og samfélagsins séu ekki nákvæmlega þær sömu og hennar. Hún lítur svo á að hún sé kölluð til ákveðins hlutverks og send með ákveðinn boðskap sem krefst annars en að bíða þolinmóð á hliðarlínunni. Hún vill líka láta taka sig alvarlega í alþjóðlegu samfélagi kirkna þar sem almennt er ekki litið svo á að hlutverk kirkna í samfélaginu sé það eitt „[…] að gifta og grafa […]“ svo vísað sé til fleygs kviðlingsins.

Þjóðkirkja í samtímanum
Þjóðkirkjan verður að horfast í augu við að tími óbreytanlegra, hefðbundinna opinberra stofnana er liðinn — líka á þeim markaði sem þjóðkirkjan starfar á.

Þjóðkirkjan er þegar komin í bullandi samkeppni á trúar- og lífsskoðunarmarkaðinum hvort sem henni er það ljúft eða leitt. Fyrir nokkrum áratugum leit svo út að trúarbrögðin væru að fjara út a.m.k. á hinum „háþróuðu“ Vesturlöndum og að auðvitað mundi kirkjuna sem stofnun daga uppi í kjölfarið. Með fjölmenningunni er þetta breytt.

Nú á dögum kemur trú, trúariðkun og trúarbrögð öllum við. Friður og jafnvægi í samfélögum Vesturlanda er ekki síst undir því komið að okkur lærist að lifa í sátt, virðingu og friði hvert við annað hvaða trú sem við aðhyllumst ef við þá á annað borð játum einhverja trú. Ólíklegt er að tilraunir stjórnvalda víða um heim til að útiloka hið trúarlega frá hinu opinbera rými beri árangur. Til þess vegur trúin allt of þungt í sjálfsmynd margra. Slík innilokun í einkarýminu mun líka ala á fordómum, tortryggni og vantrausti. Það leiðir svo til þess að skaðlegustu hliðar trúarbragðanna taki yfirhönd og þau verða niðurbrjótandi þáttur í samfélaginu í stað þess að taka þátt í að byggja upp. Nú er t.d. uppi á Alþingi umræða sem er til þess fallin að hleypa af slíkri þróun af stað.

Þessar nýju aðstæður gera kröfur til þjóðkirkjunnar. Hún verður að kannast við uppruna sinn, fagnaðarerindið sem hún er send til að boða og hefðbundin hlutverk sín sem biðjandi, boðandi og þjónandi kirkja. Jafnframt verður hún að virða fjölhyggjuna, sýna auðmýkt gagnvart henni og skilgreina sig í samspili sínu við aðra. Hvað getur hún lagt til fjölhyggjusamfélags? Getur hún aðeins syrgt forna valdastöðu sína og fordæmt nýjungarnar eða hefur hún upp á eitthvað jákvætt að bjóða? Getur hún tekið þátt í að slaka á spennu og auka traust og gagnkvæmni?

Þjóðkirkjan má þó ekki aðeins sérhæfa sig á sviði trúar og lífsskoðana. Hún verður líka að taka þátt í að mæta öðrum áskorunum sem við Íslendingar ásamt öllum öðrum þjóðum glímum við: loftslagsvá af manna völdu og fólksflutningavanda. Þjóðkirkja sem ekkert leggur af mörkum til nútímasamfélags stendur vissulega ekki á þröskuldi heldur hafa dyrnar lokast að baki hennar. Hún heyrir til horfinni tíð en ekki framtíðinni. — Hér skal því ekki haldið fram að þessu máli gegni um íslensku þjóðkirkjuna. Það er þó vissulega tími til kominn að hún meti stöðu sína út frá þessu sjónarhorni ef hún vill ekki slitna úr tengslum við þjóðina.

Í þessum pistil og þremur sem fylgja munu í kjölfarið verður bryddað upp á nokkrum viðfangsefnum sem mikilvægt er að bregðast við ef forsendur þjóðkirkjuskipanar í landinu — tengsl kirkjunnar við þjóðina — eiga ekki að bíða verulegan hnekki á næstu tveimur til þremur áratugum.