Nýtt ár – nýr boðskapur

Nýtt ár – nýr boðskapur

Það hlýtur að vera helsta verkefni kirkjunnar á öllum tímum að túlka boðskap kristinnar trúar inn í samtímann. Spurningin hlýtur alltaf að vera bæði fersk og ný: Hvernig getum við talað um Guð inn í nýja og breytta tíma? Í rauninni má líta svo á að kristin trúarhefð sé samsafn af svörum við þessari spurningu.

Það hlýtur að vera helsta verkefni kirkjunnar á öllum tímum að túlka boðskap kristinnar trúar inn í samtímann. Spurningin hlýtur alltaf að vera bæði fersk og ný: Hvernig getum við talað um Guð inn í nýja og breytta tíma? Í rauninni má líta svo á að kristin trúarhefð sé samsafn af svörum við þessari spurningu.

Í kjölfar heimsstyrjaldanna tveggja spurðu guðfræðingar og prestar á Vesturlöndum um möguleikann á að tala um Guð í ljósi þeirra hörmunga sem dunið höfðu yfir. Var yfir höfuð hægt að halda áfram að boða trú á góðan og kærleiksríkan Guð, sem ekki hafði stöðvað eða öllu heldur komið í veg fyrir að illskan fengi að vaða uppi með þessum skelfilegu afleiðingum. Ekkert var eins eftir helförina, ekki heldur boðskapur kirkjunnar. Það var ekki hægt að halda áfram eins og ekkert hefði í skorist. Kirkjan varð að ganga í sig og spyrja: Hvað gerðist í raun og veru? Hver var ábyrgð kirkjunnar? Hafði hún gert sitt eða hafði hún kannski sofið á verðinum?

Í okkar samtíma erum við að fást við nýjar spurningar, sem kalla á ný svör. Okkar tími er ólíkur öllum öðrum tímum og því þurfum við að leggja okkur fram við að túlka boðskap kristinnar trúar inn í íslenskar aðstæður í upphafi 21. aldarinnar. Það er alls ekki þannig að við getum ekki stuðst við það sem áður hefur verið unnið. Við erum öll virkir þátttakendur í mótun kristinnar hefðar. Kristin hefð er fjarri því að vera eitthvað staðnað fyrirbæri. Hún er þvert á móti dýnamísk túlkunarsaga, sem sífellt er í mótun og endurskoðun. Túlkunarsagan er saga túlkunar á textum Biblíunnar. Til þess að sinna hlutverki okkar sem túlkendur góðu fréttanna um Guð á meðal okkar, þá þurfum við að þekkja túlkunarsöguna. Við þurfum að lesa hana í ljósi þeirra aðstæðna sem hún er skrifuð í. Um aldir hefir þessi saga verið að skrifast og nú er komið að okkar kafla.

Á aðventunni, sem markar upphaf nýs kirkjuárs, syngjum við nýja sálma og heyrum nýjan boðskap. Að sjálfsögðu eru þetta bæði gamlir sálmar og gamall boðskapur, en á hverri aðventu verður allt nýtt af því að fagnaðarerindið kemur nú inn í nýjar aðstæður, inn í nýja tíma. Við erum ekki þau sömu og við vorum á aðventunni í fyrra. Og heimurinn er ekki heldur sá sami, því að á einu ári hefur ýmislegt gerst sem hefur breytt okkur og heiminum sömuleiðis. Þegar við heyrum boðskap aðventunnar núna heyrum við hann í ljósi þeirra reynslu sem lífið hefur fært okkur. Hluta af þessari reynslu eigum við sameiginlegan og hluta hennar eigum við ein. Þessvegna hljómar boðskapurinn ekki eins í eyrum okkar allra.

Aðventan er einstakur tími. Aðventan er tími vonar. Vonin gegnir miklu hlutverki í lífi okkar. Hún er í raun drifkrafturinn í lífinu. Það er vonin sem kemur okkur á fætur á morgnana, vonin um að dagurinn verði okkur hagstæður, að okkur takist að leysa verkefnin sem bíða okkar.

Aðventan er á margan hátt svo sérstök. Hún er sá tími þegar eftirvæntingin er beinlínis áþreifanleg allt í kringum okkur. Alls staðar er fólk, stórt og smátt að búa sig undir það sem kemur. Það er skúrað og skrúbbað, bakað og skreytt. Þannig búum við okkur undir það sem kemur, við búum okkur undir komu jólanna þegar við minnumst þess að Guð, skapari himins og jarðar, hefur vitjað sköpunar sinnar.

„Og Orðið varð hold.“ Það er einmitt þetta sem kristin trú fjallar um. Þetta er gamall sannleikur og nýr. Guð varð einn af okkur, manneskja af holdi og blóði. Það er fagnaðerindi kristinnar trúar, að Guð hefur í Jesú Kristi valið að ganga inn í mannleg kjör, kjör okkar. Það er erfitt að skilja og skynja til fulls mikilvægi þess að Guð valdi að verða manneskja; að Guð vildi kynnast af eigin raun gleði og hamingju, eftirvæntingu og tilhlökkun, áhyggjum og vonbrigðum, sorg og söknuði, þreytu og kvíða og öllu því öðru sem fylgir mannlegri tilveru.

En þó að við fáum ekki skilið, þá gefur vitneskjan um Krist okkur forsendur til að treysta því að Guð elskar okkur og vill mæta okkur þar sem við erum, hvar sem við erum. Það er vegna þess sem við getum falið Guði allar okkar langanir og þrár, drauma og vonir, sorgir og kvíða. Við getum treyst Guði fyrir þeim tilfinningum sem bærast innra með okkur, þeim hugsunum sem leita á okkur, þeim líkamlega og andlega sársauka sem þjakar okkur. Við skynjum veikleika okkar og vantrú og vitum af reynslunni að okkur mistekst oft. Við breytum ekki alltaf eins og okkur ber. Við reynumst ekki alltaf trúir þjónar í víngarði Drottins. En þrátt fyrir allt viljum við halda áfram. Við viljum læra af reynslunni og gera okkar besta, í trausti þess að Guð mun vel fyrir sjá.

Á jólunum kemur Guð til okkar og þá viljum við vera tilbúin. Við viljum ekki að jólabarnið komi að lokuðum dyrum, líkt og María og Jósef forðum daga í Betlehem. Við viljum frekar vera eins og hirðarnir sem heyrðu og hlýddu. Við viljum taka okkur stöðu með þeim hjá jötunni og gleðjast yfir því sem við verðum vitni að. Þessvegna vöndum við okkur við jólaundirbúninginn, ekki bara hinn ytri, heldur líka undirbúning hugar og hjarta, svo að ekkert fái komið í veg fyrir að jólin komi líka til okkar.

Gleðifréttirnar um Guð á meðal okkar koma til okkar allra, þær koma til þeirra veiku og smáu, til þeirra sem eru í nauðum stödd, til þeirra sem hafa sundurkramið hjarta, til hinna herteknu og fjötruðu, til hinna hrelldu og hræddu. Í fátækt og umkomuleysi ungabarnsins mætir Guð okkur þar sem við erum, fátæk og umkomulaus, hjálparvana og áhyggjufull. Það er þessvegna sem við eigum von mitt í öllu vonleysinu, þess vegna sjáum við ljós í myrkrinu. Vegna þess að Guð kemur til okkar leitar hugurinn fram á við og við bíðum – full eftirvæntingar. Vegna þess að við vitum að Guð kemur bíðum við, fullviss um að ljósið muni að lokum sigra myrkrið, vonleysið breytast í von, bölvun í blessun og dauði í líf.

Þetta er boðskapur aðventunnar til okkar í dag, þar sem við erum, hvar sem við erum stödd í lífinu. Leyfum þessum boðskap að fylgja okkur héðan úr kirkjunni í dag. Leyfum honum að ná til hjartans, leyfum honum að næra tilveru okkar alla. Það eru ótal verkefni sem bíða okkar á næstu dögum og vikum. Leyfum boðskapnum að fylgja okkur inn í þau verkefni, að fylgja okkur inn í daginn og hafa þar áhrif, ekki bara innra með okkur, heldur líka móta afstöðu okkar til þeirra sem verða á vegi okkar. Verum þannig boðberar ljóssins inn í þennan myrkasta tíma ársins, svo að ljósið fái að lýsa upp myrkrið, að vonin megi vinna sigur á vonleysinu, í trausti þess að lífið sjálft muni eiga síðasta orðið.

Dýrð sé Guði, sem hefur skapað okkur og endurleyst, og vill varðveita okkur í samfélaginu við sig. Amen.