Hugleiðing í fangelsi: Alexander koparsmiður

Hugleiðing í fangelsi: Alexander koparsmiður

Nú sat hann þarna í rökkrinu. Rigningin lamdi húsið að utan og salt regnvatnið rann í stríðum straumum eftir rúðunni. Hann heyrði í fjarska óm af bauki samfanga sinna í næstu klefum.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
27. september 2013

Nú sat hann þarna í rökkrinu. Rigningin lamdi húsið að utan og salt regnvatnið rann í stríðum straumum eftir rúðunni. Hann heyrði í fjarska óm af bauki samfanga sinna í næstu klefum. Klukkan var að ganga ellefu og ekki allir sofnaðir. Hann var vanur að sofna um miðnætti og vakna um átta. Það var annars furðulegt hvað hann gat sofið þarna þrátt fyrir eina og eina andvökunótt.

En nú horfði hann út í kvöldrökkrið. Vissi ekki alveg hvernig hann var stemmdur. Hann hafði fengið tveggja ára dóm í dag. Og eitthvað átti hann í kerfinu. Hann vissi svosem ekki hvað það var og kannski vissi það enginn. En það var þarna einhvers staðar í skúffum kerfisins og beið síns tíma. Einhver sprækur lögfræðingurinn fengi það verkefni að rýna í það. Gott á hann. Hann hafði ekki áhyggjur af því. Allt skilaði sér að lokum. Einhvern veginn. Rosalega var hann svekktur út í þessa ljósmyndara sem héngu fyrir utan héraðsdóm. Þeir skyldu svo sannarlega ekki ná mynd af honum. Hann hafði skellt yfir sig ógeðslegri köflóttri úlpu og fangaverðirnir héldu undir handleggi hans. Leiddu hann eins og blindan mann. Undan úlpunni heyrði hann menn spjalla og einn ljósmyndaranna fleygði þeim orðum að honum að hann vær gunga fyrst hann skriði undir svona fáránlega ljóta úlpu. Var þetta smekkurinn? Það þekktu hann allir hvort sem var. Hann væri kunnur ofbeldismaður og vandræðagripur.

Úlpan. Þetta var ekki úlpan hans. Hún var í raun og veru yfirlýsing. Einkayfirlýsing hans á þessu stigi málsins, tautaði hann með sjálfum sér. Á þessu stigi málsins, einmitt. En hvert væri það næsta? Hann var ekki viss. Hvernig átti hann að koma til skila vangaveltum um sekt eða sakleysi? Honum datt ekki í hug að fara að væla í einhverju opnuviðtali um hernað gegn sjálfum sér í æsku. Eða koma fram í einhverju „human interest“- viðtali í sjónvarpinu þar sem þokan og eymdin var meiri í augum þáttastjórnandans en viðmælandans. Og hvað svo þegar landslýðurinn var búinn að lesa og horfa? Fella tár og allt það. Jeminn góður, vá, en hræðilegt og allt það kjaftæði. En við heppin að vera ekki svona. Börnin okkar eru örugg. Við erum svo góðir uppalendur og sneiðum hjá pakkinu í slömminu. Voðalegt fólk þarna uppfrá.

Úlpuna átti pabbi hans. Þessi skepna sem hafði komið honum í heiminn. Skítseyði skítseyðanna. Sá sem hafði barið hann eins og fisk frá því að hann mundi eftir sér. Troðið í hann fíkniefnum og sent út til að stela. Sagt honum að allt væri rotið og hann rotnastur. Ekki svo ólíkur mömmu hans. Hún var ýmist undir áhrifum eða edrú. Það var dagamunur á henni. Hann vissi ekki í hvoru ásigkomulaginu hún væri skárri. Lengi vel gat hann flúið í skólann. Það var ekki svo afleitur staður og hann sá fljótt að námið var engin hindrun. Átti auðvelt með það. En pabbi hans kom iðulega í skólann með hótunum og látum. Dró hann út og sagði margt þarfara að gera en að hanga þar innan um þessa aumingja. Alls konar nefndir og ráð funduðu um hann, tóku hann í viðtöl og smelltu á hann ýmsum greiningum eins og heiðursmerkjum þar til hann var orðinn girnilegt tilfelli í augum allra. Og fjölskyldusaga hans var orðin meira en þúsund blaðsíður og hann ekki orðinn fjórtán. Hlaut að verða metsölubók. Kannski myndi einhver skrifa doktorsritgerð um hana. Síðan tóku menn að stafla í hann hinum og þessum lyfjum svo hann næði jafnvægi í geðveiku öldurótinu í heimasælunni. Sálfræðingagengi settist um hann og spáði í hann og umhverfi hans og prófaði hann út og suður. Hann fékk stuðningsforeldra sem gáfust fljótt upp. Pabbi hans lét kunningja sína jafna um stuðningspabbann sem vankaðist fyrir lífstíð. Enginn vissi neitt. Og alltaf var pabbi hans í þessari köflóttu úlpu. Lífið er köflótt, öskraði hann á son sinn. Þú skalt fá að kynnast því eins og ég þegar ég var á þínum aldri. Afi þinn var ógeð og þú líkist honum.

Rökkrið umlykur hann. Og regnið streymir niður gluggann. Honum finnst sem himinninn gráti fyrir sig. Hann hefur aldrei grátið. Sennilega ekki með neina tárakirtla. Einhver hafði kannski stolið þeim þegar hann var lítill? Eða var þetta bara fæðingargalli?

Köflótta úlpan. Yfirlýsing. Seinna myndu menn skilja þetta. Núna hafði hann þetta fyrir sig. Og skrautlegur ferill hans var geymdur í rafskúffum kerfisins og hann átti von á bréfum frá því þar sem hann var þéraður. Eina virðingin sem honum var sýnd, hugsaði hann háðslega og brosti í rökkrinu.

Og nú voru samfangar hans hættir að bauka. Hann greip í Biblíuna og fletti upp einhvers staðar og las: „Alexander koparsmiður gerði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans.“ (Síðara Tímóteusarbréf 4.14). Þögnin lá yfir fangelsinu. Og saltstrokinn glugginn horfði á hann.