Einkenni kristniboðsstarfsins

Einkenni kristniboðsstarfsins

Kærleiksþjónusta er veitt hverrar trúar sem fólk kýs að vera. Sums staðar hefur hún gert fagnaðarerindið trúverðugt og ýtt undir að fólk kynnti sér boðskapinn. En hún er aldrei veitt með neinum formerkjum eða skilyrðum.
Ragnar Gunnarsson - andlitsmyndRagnar Gunnarsson
09. nóvember 2007

Kristniboðsdagur Þjóðkirkjunnar minnir okkur á þríþætt hlutverk kirkjunnar, að vera biðjandi, boðandi og þjónandi. Kristniboðsstarf er kirkjustarf og ber öll einkenni þess.

Bæn og bænastarf hefur alla tíð einkennt kristniboðsstarfið, bæði meðal þeirra sem mynda bakland þess hér á landi og bera hag málefnisins fyrir brjósti og þeirra sem starfað er meðal á akrinum. Það er trú okkar að bæn beri ávöxt. Árangur kristniboðsstarfsins, bæði í Eþíópíu og Keníu, er slíkur að hann verður best útskýrður sem bænasvar. Þrátt fyrir ýmsar fórnir heima og úti, fjármagn og mikla vinnu er ekki vafi að bænin er lykill í þessu efni eins og mörgu öðru. Kirkjurnar á starfssvæði kristniboðsins eru bænakirkjur.

Boðunin hefur einkennt kristniboðsstarfið enda markmið þess að sjá til þess að allir alls staðar hafi tækifæri til að kynnast Jesú Kristi. Ávöxt starfsins má einnig útskýra sem beina afleiðingu þess að fagnaðarerindið um Jesú fékk að hljóma og heilagur andi kom trúnni til leiðar. Köllun kirkjunnar og kristniboðsins er að boða Jesú Krist, krossfestan og upprisinn frelsara.

Vissulega má segja að kristniboðarnir hafi komið á hagkvæmum tíma þegar fólk var tilbúið að hlusta og taka á móti. Sums staðar hefur fagnaðarerindið verið boðað í áratugi og árangurinn lítill sem enginn. Við þökkum Guði fyrir hans góða verk, fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög sem hafa kosið að tilheyra Jesú Kristi. Við þökkum fyrir innlenda kirkju í kristniboðslöndunum, fyrir heimamenn sem eru í forsvari starfsins og fyrir lifandi söfnuði – fólk sem heyrði kærleiksboðskapinn um Jesú.

Kristniboðsstarfið hefur alltaf verið þjónandi. Margs konar neyð og þörf hefur mætt kristniboðum á vettvangi. Þeir hafa ekki getað setið aðgerðarlausir. Kærleiksþjónusta er veitt hverrar trúar sem fólk kýs að vera. Sums staðar hefur hún gert fagnaðarerindið trúverðugt og ýtt undir að fólk kynnti sér boðskapinn. En hún er aldrei veitt með neinum formerkjum eða skilyrðum.

Meðal þess sem unnist hefur eru umbætur í landbúnaði, umhverfisvernd, heilsugæsla, ungbarnavernd, menntun frá leikskóla upp á háskólastig, sjálfsstyrkingarhópar kvenna og fleira gott sem allt samfélagið nýtur góðs af.

Í sumum tilvikum hefur boðun fagnaðarerindisins verið besta hjálpin. Þar hafa konur fundið að þær eru metnar til jafns við karla. Það hefur veitt kraft til að ráðast gegn umskurn kvenna. Litlum börnum hefur verið bjargað frá dauða þegar siður þjóðflokksins krafðist mannfórna. Þetta eru aðeins nokkur dæmi um umbætur sem hefðu tekið áratugi hefði fagnaðarerindið ekki verið boðað .

Kristniboð er köllun kirkjunnar. Hér á landi eru ekki margar kristniboðshreyfingar eða kristniboðsfélög að störfum. Slíkt er heldur ekki aðalatriði. Mestu skiptir að kirkjan taki köllun sína alvarlega. Að hún sé boðandi kirkja um allan heim, kristniboðskirkja. Kirkjan varð til vegna þess að fagnaðarerindið var boðað. Hún hefur lifað vegna þess. Framtíð hennar ræðst af því hvort og hvernig farið er eftir boðum Jesú þegar hann kallaði fylgjendur sína til að fara út um allan heiminn: „Gerið allar þjóðir að lærisveinum... og kennið þeim að halda allt sem ég hef boðið yður,“ sagði Jesús. Þetta er stórkostlegt starf sem við öll getum tekið þátt í með einhverjum hætti.