Þjóðkirkja - ríkiskirkja

Þjóðkirkja - ríkiskirkja

Þjóðkirkja er kirkja þjóðar, vill veita þjóðinni allri þjónustu sína og eiga með henni samleið. Slík kirkja gengur með þjóðinni allri í gleði og sorg, af því að þjóðin vill eiga með henni samleið, án þess þó að önnur trúfélög njóti ekki sama frelsis og allir borgarar ríkisins fulls trúfrelsis.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
31. ágúst 2010

Þann 26. ágúst síðastliðinn barst sú frétt að Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG ætli sér að leggja fram tillögu fyrir Alþingi í haust um að skilið verði að fullu milli ríkis og kirkju. Í viðtölum sínum við fréttamenn um málið segir þingmaðurinn meðal annars: “Kirkjan þarf auðvitað að taka á sínum málum burt séð frá því hvort hún er ríkiskirkja eða ekki”.

Eitthvað virðist þingmaðurinn hafa misskilið hugtakið ríkiskirkja. Og þar með líklega um leið hvað Þjóðkirkja stendur fyrir. Nú er það svo að skipan málefna kirkjunnar hefur verið með margvíslegum hætti í gegnum söguna. Og er enn. Ríkiskirkjur kallast þær kirkjur sem eru algerlega háðar ríkisvaldinu um alla hluti og ráða sér á engan hátt sjálfar. Danska kirkjan er til dæmis næst því að vera slík ríkiskirkja norrænu Þjóðkirknanna. Þar í landi er kirkjan algerlega háð ríkinu, getur ekki einu sinni tekið til notkunar nýja sálmabók eða Biblíuþýðingu án þess að danska þingið samþykki útgáfuna. Danskir biskupar eru valdir af kirkjumálaráðherra og allur rekstur kirkjunnar er settur undir ráðherra.

Þessi er öfugt farið hér á landi. Þjóðkirkjan íslenska er frjálst og sjálfstætt trúfélag. Hún ræður öllum sínum innri málefnum sjálf innan lagaramma ríkisins. Hver söfnuður Þjóðkirkjunnar er sjálfstæður varðandi eigin rekstur sem byggir á sóknargjöldum sem ríkið innheimtir fyrir Þjóðkirkjuna eins og öll önnur trúfélög. Auk þess greiðir ríkið laun presta, prófasta, vígslubiskupa og biskupsembætisins á grundvelli samnings frá 1907 milli ríkisins og kirkjunnar. Þá afhenti kirkjan ríkinu allar þær jarðir er áður höfðu staðið undir rekstri embættanna. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta. Þessi samningur var endurnýjaður árið 1997.

En hvað er Þjóðkirkja? Með hugtakinu Þjóðkirkja er átt við kirkju sem stendur traustum fótum í þjóðlegri hefð og sögu hefur fylgt þjóð sinni um aldir. Þjóðkirkja er kirkja þjóðar, vill veita þjóðinni allri þjónustu sína og eiga með henni samleið. Slík kirkja gengur með þjóðinni allri í gleði og sorg, af því að þjóðin vill eiga með henni samleið, án þess þó að önnur trúfélög njóti ekki sama frelsis og allir borgarar ríkisins fulls trúfrelsis.

Danski presturinn og sálmskáldið N.F.S. Grundtvig sem uppi var á 19. öld mótaði hugmyndina um Þjóðkirkjuna og taldi að umfram allt ætti kirkjan að vera “folkelig” eða kirkja fólksins í landinu. Enda kallast danska kirkjan “Folkekirke” - kirkja fólksins. Sama hugtak notaði Grundtvig er hann lagði grunn að dönsku lýðháskólahreyfingunni og kallaði þá skóla “Folkehöjskole” – skóla fólksins, alþýðunnar.

Íslenska Þjóðkirkjan á hugmyndafræði Grundtvigs sameiginlega með dönsku kirkjunni og öðrum norrænum kirkjum. Íslensk þjóð og kirkja fólksins eru samofin. Auðvitað getur farið svo að kirkjan fjarlægist svo fólkið að hún hætti að vera kirkja fólksins. Enn hefur það ekki gerst og fólk heldur áfram að sækja kirkjuna sína í gleði og sorg. Þjóðkirkjan starfar um allt land við sálgæslu, áfallahjálp, andlegan stuðning, handleiðslu og huggun. Fólk sækir til prestanna í viðtöl um sín persónulegu málefni. Hjón sem geta ekki lengur talað saman fá stuðning og styrk til að leita nýrra leiða hjá starfsmönnum Þjóðkirkjunar. Einmana og sorgmæddir fá huggun og samfélag, sjúklingar eru sóttir heim, öldruðum veitt andleg aðhlynning, börnum og unglingum veitt leiðsögn og athvarf á tímum hraða, og félagslegs kulda. Fræðsla í forvörnum er sett á oddinn í unglingastarfinu. Fjölmargt starfsfólk með margskonar menntun og lífreynslu leggur sig fram um að þjóna þjóðinni í Þjóðkirkjunni. Enn fleiri vinna sjálfboðaliðastörf, vilja ekki einu sinni láta þakka sér fyrir heldur starfa í leynum. Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild. Þjóðkirkjan þjónar öllum. Á spítulunum fara fram viðtöl milli sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna og presta eða djákna. Þjónusta Þjóðkirkjunnar sem fram fer í leynum, fjarri kastljósi fjölmiðlanna, það er sálgæsla í sinni víðustu mynd, sálgæsla við heimilin, sálgæsla á sjúkrastofnunum, sálgæsla í skólum og á elliheimilum, sálgæsla við leik og störf.

Þetta er hin þjónandi Þjóðkirkja, kirkjan sem er jafn virk á Suðureyri og Selfossi, Akureyri og Akranesi, Raufarhöfn og í Reykjavík. Íslenski fáninn, þjóðsöngurinn sem er sálmur, hátíðir kirkjuársins, tungan og þjóðmenningin undirsstrika síðan hin sterku tengsl Þjóðkirkju og þjóðar. Þjóðkirkju sem er fyrst og fremst kirkja fólksins. Kirkja almennings. En er ekki og verður aldrei kirkja ríkisins.