Hrós felur í sér kærleika

Hrós felur í sér kærleika

Ein leið til þess að fleyta áfram því sem er jákvætt er að hrósa fólki. Það sem við sýslum við á hverjum degi er unnið allajafna af samviskusemi og dugnaði. Okkur finnst það reyndar vera sjálfsagt að leysa allt sem best af hendi. Það er einnig margsannað að hrós byggir upp t.d. betri starfsanda og eykur vellíðan á vinnustað.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
02. nóvember 2006

Stundum er sagt að almennar fréttir sem berast okkur í fjölmiðlum staldri aðallega við það sem neikvætt er. Það sem fer úrskeiðis vekur oft meiri athygli heldur en það sem vel fer. Við þekkjum þetta sennilega öll þegar kveikt er á fréttum að morgni dags. Jákvæðar fréttir eru stundum heldur strjálar en iðulega talin upp hin og þessi óhæfuverk sem unnin hafa verið í veröldinni á síðasta sólarhringnum og mannfall tíundað nokkuð rækilega. Þess vegna hefur orðtakið engar fréttir eru góðar fréttir sprottið upp.

Í daglegum samskiptum okkar er mjög mikilvægt að nema staðar við það sem er jákvætt. Það þarf í raun og veru ekki að leita langt yfir skammt til að sjá það sem er jákvætt. Kunna að meta það og þakka fyrir.

Ein leið til þess að fleyta áfram því sem er jákvætt er að hrósa fólki. Það sem við sýslum við á hverjum degi er unnið allajafna af samviskusemi og dugnaði. Okkur finnst það reyndar vera sjálfsagt að leysa allt sem best af hendi. Það er einnig margsannað að hrós byggir upp t.d. betri starfsanda og eykur vellíðan á vinnustað. Hrósið er nefnilega einföld leið til að sýna velvild og ánægju í ys og þys hversdagsins. Skiptir hér engu þótt okkur kunni að þykja eitt og annað athugavert við náunga okkar. Kannski sér einhver ekki næg hrósunarefni í hversdeginum en ef betur er að gáð þá er alltaf eitthvað að finna sem er hróssins vert.

Það er sérstaklega mikilvægt að hrósa þeim sem eru að taka sínu fyrstu skref í lífinu, vinnu eða skóla. Grunnur er lagður að heilbrigðu sjálfstrausti þegar börnum er hrósað fyrir dugnað þó í smáum hversdagslegum atvikum sé. Börn sem ekki fá hrós búa við minna sjálfstraust og vita stundum ekki í hvorn fótinn á að stíga.

Sá sem sér ekki neitt sem hann telur vera hróssins vert sýnir afskiptaleysi og frá honum andar köldu. Í skugga hins afskiptalausa þrífst fátt jákvætt.

Hrós felur í sér umhyggju og sýnir að við tökum eftir því sem vel er gert. Hrósið er líka hlýleg hvatning til þess sem það fær að halda áfram á sömu braut. Það getur verið styrkur og sannfært viðkomandi um að hann hafi staðið rétt og vel að málum. Sjálfstraustið eykst og jákvæðnin kemur svo í kjölfarið.

Hrós felur í sér kærleika. Það sýnir að okkur er ekki sama um andlega velferð náunga okkar, ættingja, vinar eða félaga.

En stundum kemur hik á okkur og hrósið lætur á sér standa: Drengur nokkur sló garðinn fyrir föður sinn á sumrin og hlaut alltaf hrós að launum fyrir dugnað og vandvirkni. Eitt sumar gerðist það að drengurinn skildi alltaf eftir stóran ósleginn blett í garðinum. Faðir hans undraðist þetta og hikaði við að hrósa honum fyrir verkið. Drengurinn sem var vanur að fá hrós fyrir sláttinn áttaði sig ekki á því hvað væri á seyði. En þegar faðir hans spurði hverju þetta sætti leiddi drengurinn hann inn í hátt óslegið grasið og benti þar á þrjú fuglshreiður. Það var ástæða þess að hann hafði ekki ætt með sláttuvélina þar yfir. Faðir hans faðmaði hann innilega að sér og hrósaði honum fyrir nærgætni við málleysingjana.

Og það kemur líka fyrir að hrósið verður innihaldslaust vegna þess að því er dengt í síbylju yfir okkur. Gyðingur nokkur hafði komið sér upp glæsilegum garði og á hverjum degi þegar rabbíinn gekk fram hjá hrósaði hann garðinum og eiganda hans með þessum orðum: „Þú og Drottinn eru góðir saman.“

Þannig gekk þetta vikum og mánuðum saman. Alltaf kom sama hrósið af vörum rabbíans og gilti einu hvort hann lallaði fram hjá eða var á hraðferð. Garðeigandanum tók að leiðast hrósið því honum fannst það vera orðið fullmikið og auk þess heldur rýrt í roði. Þegar rabbíinn gekk þar næst hjá og sagði hugsunarlaust: „Þú og Drottinn eru góðir saman,“ svaraði garðeigandinn að bragði: „Jú, okkur semur ágætlega. Ég dútla í garðinum eftir bestu getu. En þú hefðir átt að sjá garðinn þegar Drottinn sá einn um hann.“

Gleymum því ekki að hrósið verður að koma frá hjartanu.