Þjóðkirkja í þína þágu

Þjóðkirkja í þína þágu

Sem Þjóðkirkja lítur kirkjan til alls landsins og til samstarfs safnaðanna, en lætur ekki hvern söfnuð um það að berjast fyrir tilveru sinni í samkeppni við ótal aðra söfnuði litla og stóra.
Þórhallur Heimisson - andlitsmyndÞórhallur Heimisson
30. nóvember 2006

Íslenska Þjóðkirkjan er grein af alheimskirkjunni. Kirkjan var stofnuð á hvítasunnudag þegar Guð úthellti anda sínum yfir lærisveina Jesú samkvæmt postulasögunni. Kirkjan er samfélag kristinna karla og kvenna á öllum tímum sem gengur fram undir merkjum Krists, með boðskap hans að leiðarljósi og fyllt heilögum anda hans. Hlutverk kirkjunnar á öllum öldum er að berjast fyrir réttlæti Guðs í heiminum, boða trú á Krist, skíra í nafni föður, sonar og heilags anda, bera fram altarissakramenntið, líkna þjáðum, og biðja fyrir þeim sem á fyrirbæn þurfa að halda. Í gegnum aldirnar hefur kirkjan hvíslast í fjölmargar trúarhreyfingar, kirkjudeildir  og söfnuði sem hafa ólíkar áherslur en sama kjarna, sömu trú í grundvallaratriðum.

Ísland varð formlega kristið land á Þingvöllum árið 1000 eins og við öll vitum. Það var hin kaþólska miðaldakirkja sem þá nam hér endanlega land og átti eftir að breyta ásjónu samfélagsins. Svo lítið dæmi sé nefnt þá eigum við kirkjunni að þakka hinn mikla menningararf íslenskra bókmennta sem hefði farið algerlega forgörðum ef ekki hefði komið til starf munka og presta í kirkju miðaldana. Saga Íslands er einstök fyrir það að hér á landi hefur kristin trú verið til staðar alveg frá fyrstu tíð. Þó nokkur hluti landnámsmanna var kristinn eða hafði orðið fyrir miklum kristnum áhrifum.

Kirkjan sem óx hér fram á miðöldum var á margan hátt mjög þjóðleg, íslensk og frábrugðin hinni evrópsku kirkju. Íslenska kirkjan stóð hvað lengst vörð um sjálfstæði landsins og það var ekki fyrr en eftir að vald kirkjunnar hafði verið brotið á bak aftur að erlent konungsvald náði hér föstum tökum.

Það var meðal annars gert með því að ræna kirkjuna og klaustrin eignum sínum, flytja auðinn úr landi og taka jarðir kirkjunnar undir konung. Þrátt fyrir siðaskiftin árið 1550 þá hélt hin lúterska kirkja fast í þjóðleg einkenni íslensku miðaldakirkjunnar.

Stjórnarskrá íslenska lýðveldisins er grunnur þess þjóðkirkjuskipulags sem við þekkjum. Um leið er trúfrelsið undirstrikað þar og réttur allra til að stunda sína trú. Einnig er réttur kirkjunnar til að standa vörð um eigin kenningu og boðskap tryggður. Ríkið hefur þannig engan rétt til að hlutast til um helgihald, Biblíuþýðingar, sálmabók né boðskap kirkjunnar. Í Danmörku er því t.d. þannig farið að kirkjan verður algerlega að lúta ríkisvaldinu í þessum málum. Um leið og stjórnarskráin tryggir öllum trúfrelsi þá undirstrikar hún að við Íslendingar viljum að hinn kristni siðaboðskapur haldi áfram að móta samfélag okkar. Ísland er kristið samfélag því samfélagið byggir á kristnum gildum, á sér kristna sögu og þannig viljum við hafa það eins og sést á því að stærstur hluti barna og ungmenna er skírður og fermdur til kristinnar trúar. Þar með er ekki verið að gera lítið úr öðrum trúarbrögðum hér á landi.

Hvaða hlutverki gegnir Þjóðkirkjan þá í dag? Sem fyrr stendur hún vörð um hina sígildu arfleifð heimskirkjunnar, boðskap Jesú eins og hann er að finna í Biblíunni. Þar tekur Þjóðkirkjan sér stöðu með systurkirkjum sínum um víða veröld og hér á landi. Um leið myndar Þjóðkirkjan skjaldborg um hina þjóðlegu arfleifð eins og hún hefur alltaf gert. Og Þjóðkirkjan horfir fram til framtíðar, tilbúin að takast á við nýjar spurningar nýrrar aldar í samfélagi og samvinnu við gott fólk úr öllum trúfélögum.

Sem Þjóðkirkja lítur kirkjan til alls landsins og til samstarfs safnaðanna, en lætur ekki hvern söfnuð um það að berjast fyrir tilveru sinni í samkeppni við ótal aðra söfnuði litla og stóra. Um allt land eru starfandi litlir söfnuðir  sem á engan hátt gætu haldið uppi þjónustu við heimamenn ef ekki kæmi til sameiginlegur styrkur Þjóðkirkjunnar. Ef Þjóðkirkjan legðist af myndu þessir söfnuðir einnig leggjast af. Þjóðkirkjan heldur uppi öflugu neti hjálpar, líknar og sálgæslu í öllum héruðum sem enginn stofnun eða einkaframtak ætti möguleika á að leysa af hólmi. Stöðugt fleiri sækja sér hjálp og styrk til kirkjunnar til stofnanna hennar, safnaða og presta, enda safnaðarstarf öflugt og lifandi. Í því sambandi er aldrei spurt um trúfélagsaðild heldur veitt sú hjálp sem þörf er á. Því Þjóðkirkjan er öllum opin og vinnur í allra þágu.