Viljum við koppalogn?

Viljum við koppalogn?

Enn eru áhöld um hvort Stjórnlagaþing 2011 muni fjalla um trúmálabálk stjórnarskrárinnar sem hefur að geyma kirkjuskipan landsins og trúfrelsisákvæði. Margir kunna að telja þetta jákvætt og boða frið þjóðkirkjunni til handa eftir stormasama tíma undangengin misseri.
Hjalti Hugason - andlitsmyndHjalti Hugason
19. janúar 2011

Dómkirkjan, Jón og Alþingishúsið

Enn eru áhöld um hvort Stjórnlagaþing 2011 muni fjalla um trúmálabálk stjórnarskrárinnar sem hefur að geyma kirkjuskipan landsins (62. gr.) og trúfrelsisávæði (63. og 64. gr.). Margir kunna að telja þetta jákvætt og boða frið þjóðkirkjunni til handa eftir stormasama tíma undangengin misseri.

Til að verja slíkt aðgerðaleysi þingsins er bent á að þjóðkirkjan hafi ekki leikið stórt hlutverk í Hruninu. Þá sé heldur ekki rétt að endurkoða stöðu þjóðkirkjunnar einmitt meðan hún glímir við þann sérstaka vanda sem hún á í nú vegna mála Ólafs heitins Skúlasonar. Hvort tveggja er í sjálfu sér rétt og satt.

En óskum við okkur slíks „Drottins dýrðar koppalogns“? Væri það gott fyrir þjóð, kirkju eða þjóðkirkju? Er ekki tími til kominn að gegnumlýsa einmitt þennan elsta hluta stjórnarskrárinnar?

Gott veganesti inn í 21. öldina?

Þegar fyrsta stjórnarskrá okkar var sett leit stjórnarskrárgjafinn enn svo á að Ísland væri óaðskiljanlegur hluti Danaveldis. Stjórnarskráin tók enda aðeins til sérmála Íslendinga, innanlandsmálanna. Þetta mótar uppbyggingu hennar.

Í dönsku stjórnarskránni sem var fyrirmynd þeirrar íslensku var kirkjuskipanin fléttuð inn í stjórnskipan ríkisins fremst í plagginu en fjallað um trúfrelsið í sérstökum kafla aftan til í því áður en tekið var að fjalla almenn mannréttindi. Þegar kveða skyldi á um kirkjumál sem íslensk innanlandsmálefni var hins vegar úr vöndu að ráða um hvar staðsetja skyldi kirkjuskipanina. Niðurstaðan varð að gera hana að upphafsgrein í sérstökum trúmálakafla og kveða á um trúfrelsi í framhaldi af henni.

Þetta var eðlilegt eins og á stóð í því samtoga kyrrstöðusamfélagi sem hér var enn við lýði á síðasta fjórðungi 19. aldar. Afleiðingin er hins vegar sú að enn í dag leggur stjórnarskráin höfuðáherslu á að þjóðin sé evangelísk-lúthersk þótt hér ríki samt sem áður víðtækt frelsi til að iðka aðra trú eða hafna öllum trúarbrögðum. Er þetta gott vegarnesti inn í 21. öldina — öld fjölhyggjunnar?

Endurskoðunar er þörf

Hér skal því haldið fram að víðtækar þjóðfélags- og hugarfarsbreytingar sem urðu á 20. öld valdi því að það sé bæði þjóð og þjóðkirkju til góðs að endurskoða trúmálabálkinn einmitt nú í tengslum við aðra þætti stjórnarskrárinnar. Þó virðist vart ástæða til að yfirgefa þá meginhefð sem trúfrelsið hefur þróast eftir hér á landi. Innan hennar er þó mögulegt að gera ýmis konar áherslubreytingar.

Trúmálabálkur 19. aldar tefldi eins og fram er komið lútherskri trú fram fyrir aðra trú og trú fram fyrir aðrar lífsskoðanir. Hann gengur líka fremur út frá hagsmunum trúfélaga eða -stofnana — einkum þjóðkirkjunnar — en réttindum einstaklinga og stuðlar fremur að einhæfni en fjölbreytileika. Öllu þessu má breyta án þess að hafna í því sem oft er kallað „neikvæð“ útfærsla trúfrelsis eða „sekúlarisma“.

Forsendur endurskoðunar

Við endurskoðun á trúmálabálkinum er mikilvægt að ganga út frá nokkrum grunnforsendum sem leiða má út frá aukinni einstaklings- og fjölhyggju í trúarefnum. Meðal þeirra markmiða sem æskilegt væri að keppa eftir með breytingum má nefna eftirfarandi:

  1. Að gengið sé út frá rétti einstaklinga í ríkari mæli en nú er gert.
  2. Að stuðlað sé að jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum og þar með auknu jafnvægi milli „jákvæðrar og neikvæðrar hliðar“ trúfrelsis.
  3. Að réttur fólks til að tjá trúar- eða lífsskoðanir sínar og iðka þær í einrúmi eða með öðrum sé tryggður („jákvæð hlið“).
  4. Að réttur fólks til að hafna slíkum skoðunum sé tryggður („neikvæð hlið“).
  5. Að staða trú- og lífsskoðunarfélaga sé jöfnuð eftir því sem eðlilegt má telja með tilliti til stöðu þeirra í samfélaginu sem m.a. endurspeglast í fjölda félagsmanna, fjölda starfsstöðva, þjónustu við aðra en eigin félagsmenn og almenn félagsleg og menningarleg hlutverk.

Koppalogn getur reynst svikalogn

Síðar verður kynnt tillaga um hvernig ná má þessum markmiðum en það má auðvitað gera á fleiri en einn veg. Hið mikilvæga er að stjórnskipunarlegur grunnur trúmálapólitíkurinnar í landinu verði útfærður í takt við kröfur tímans. Verði það ekki gert er hætt við að koppalogn í dag reynist svikalogn á morgun. Sú staða getur komið upp ef við höldum vegferð okkar áfram lengra inn í 21. öldina á sauðskinnsskóm í 19. aldarstíl í þessu efni.

Trúmálabálkur stjórnarskrárinnar er jafnmikilvægur og aðrir hlutar hennar þótt mörgum finnist trúmál ekki sami burðarás í samfélagi og menningu og áður var. Kaflann þarf því að vega og meta. Auðvitað kann Stjórnlagaþing 2011 að vera með öllu varbúið til þess m.a. vegna þess að markvissa umræðu um þessi mál hefur skort. Hvenær gefst þó betra tækifæri til þessa en einmitt nú í tengslum við heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar?