Hugleiðing í fangelsi: Hárskeri Lúthers

Hugleiðing í fangelsi: Hárskeri Lúthers

Allir þurfa að láta klippa sig. Eins og gengur og gerist koma tískubylgjur í hárklippingum og skyndilega er fjöldi manna kominn með sömu klippinguna. Þetta sést alls staðar. Líka í fangelsum. Þangað skila líka tískuklippingar sér.
Hreinn Hákonarson - andlitsmyndHreinn Hákonarson
18. febrúar 2015

Allir þurfa að láta klippa sig. Eins og gengur og gerist koma tískubylgjur í hárklippingum og skyndilega er fjöldi manna kominn með sömu klippinguna. Þetta sést alls staðar. Líka í fangelsum. Þangað skila líka tískuklippingar sér. Sennilega er þó frægasta klippingin innan múranna bara krúnarakaðir karlmenn, kröftugir og svalir að sjá. Um þessar mundir er í tísku einhvers konar heysáta á hvirflinum og annar hluti höfuðsins snöggrakaður. Þetta fer flestum vel ef ekki öllum. Síðan mun önnur tíska leysa þessa af hólmi – og koll af kolli. Þannig er tískan, eins og vindurinn, enginn veit hvaðan hún kemur (eða hvað?) né hvert hún fer(?) ef hún fer bara ekki um allt eins og eldur í sinu.

Eins og með annað er snertir líkamann þá er hártíska ákveðin yfirlýsing og á sér einhverjar rætur aðrar en það sem einhverjum tískuklipparanum dettur í hug í það og það sinnið. Í gamla daga var snoðklipping mjög algeng áður en farið var í sveitina. Sá piltur sem var snoðaður var á leið í sveitina. Sagt var í hálfkæringi að það væri til þess að lúsin sæist betur þegar í sveitina væri komið! Sumir sögðu reyndar að það væri bæjarhreinsun áður en haldið væri út í fagra sveitina! Svo kom drengurinn úr sveitinni með lubbann og þá var það undir honum komið hvernig hann lét klippa sig fyrir veturinn. Allir kannast við gamlar myndir af hjárænulegum unglingum nýkomnum úr sveitinni með hár niður á herðar. Það var ákveðinn kafli í lífinu sem var um stund að baki. Lífsreynsla sem aldrei gleymdist.

Sumir fara alltaf til sama rakarans – eða klipparans. Treysta einhverjum einum fyrir kollinum á sér og komast í gott samband við hann. Í mörgum tilvikum ævilangt samband eða þar til annar hvor gengu fyrir ætternisstapa. Frægt er til dæmis að Halldór Laxness lét klippa sig vikulega hjá hárskeranum í Eimskipafélagshúsinu en þá voru reyndar fá dæmi um það að menn hér á landi færu vikulega í hársnyrtingu. Þessi hárskeri eins og svo margir aðrir átti sinn fasta viðskiptahóp og þekkti hann mæta vel.

Í fangelsum er það svo að hárskerar koma og klippa menn. En það er líka algengt að í fangahópnum leynist góður klippari. Hann setur upp sinn stól og klippir menn gegn vægu gjaldi. Sú hársnyrting hefur verið til fyrirmyndar og margir notfært sér hana þegar hún hefur verið í boði.

Siðbótarfrömuðurinn Marteinn Lúther (1483-1546) átti sinn hárskera. Sá hét Pétur Beskendorf. Þeir urðu miklir mátar og ræddu margt. Og auðvitað ræddu þeir uppreisnina sem Lúther hafði gert gegn ægiveldi kaþólsku kirkjunnar og sneri öllu á hvolf í Evrópu á sínum tíma. Rakarinn ræddi við Lúther um trú sína og vandkvæði sín við að biðja til Guðs. Lúther gerði sér lítið fyrir og skrifaði sérstaka bænabók handa honum – hún var reyndar í bréfformi en hefur verið gefin út ótal sinnum. Þessi bænabók er eins og annað sem frá Lúther kom á kjarnyrtu máli og lifandi af trú og anda. Hann segir frá trúarlífi sínu og baráttu og veikleika í trúnni. Persónuleg og einlæg bók. Og bænirnar eru allar í þessum anda.

Bænabókin var mikill fengur fyrir rakarann og hann notaði hana og kom trúarlífi sínu í gott horf. Bókin heitir því stutta nafni: Einföld leið til að biðja. Lúther segir í formálanum: „Góður og athugull hárskeri einbeitir sér að verkinu, gefur ekki hugsunum sínum lausan taum, hann heldur augunum opnum fyrir verki sínu enda er blað rakhnífsins eggskarpt. Hann má ekki gleyma sér við verkið því þá er voðinn vís. Of miklar og djúpar samræður geta kostað ranga klippingu, skurð á nefi, eyrum eða jafnvel hálsi! Allt sem vel er gert krefst aðgæslu og umhugsunar eins og segir í orðskviðunum: Sá sem hugsar um margt í einu, hugsar ekkert, og gerir ekkert rétt. Bænin krefst einbeitingar og helgunar hjartans ef hún á að vera góð bæn. Þess vegna skaltu halda einbeitingunni í bæninni.“

En rakarinn lenti í ógæfu. Stuttu eftir að bænabókin sem honum var tileinkuð kom út á prenti varð hann tengdasyni sínum að bana í drykkjuæði. Það var mikið áfall fyrir vini hans og Lúther talaði máli hans og fékk lífi hans þyrmt. Fór svo að Pétur rakari var sviptur öllum eignum sínum og dæmdur í útlegð. Þetta voru miklir róstutímar í Evrópu og grímulaust ofbeldi viðgekkst og yfirvöld, furstar og kóngar, brugðust við með pyntingum og aftökum.

En bænabók hans lifir og hefur orðið mörgum hjálparhella. Því miður er hún ekki til á íslensku en þýðing er í undirbúningi.

Allir geta beðið, lagt sjálfa sig fram í bæn til Guðs!