Sjómannadagur

Sjómannadagur

Guðspjallið ,,Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“ Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn. Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“( Matt 8.23-27)

Guðspjallið
,,Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“( Matt 8.23-27)

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Í voða, vanda og þraut
vel ég þig förunaut
yfir mér virztu vaka
og vara á mér taka.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru englaliði.

Þá sjávarbylgjan blá
borðinu skellur á,
þín hægri hönd oss haldi
og hjálpi með guðdómsvaldi.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru englaliði.

Ljóst þegar lífið dvín,
leið þú mig heim til þín,
í föðurlandið fríða,
firrtan við allan kvíða.
Jesús mér fylgi í friði
með fögru englaliði. Amen. (Hallgrímur Pétursson)

Svona bað skáldpresturinn Hallgrímur Pétursson áður en hann lagði upp frá Kaupmannahöfn til Íslands forðum. Með sitt fólk.

Gleðilega hátíð kæru sjómenn, farmenn, fiskimenn og allir landsmenn, gleðilegan sjómannadag.
Í ár eru liðin 80 ár frá því að sjómannadagur var fyrst haldinn hér á landi með því sniði sem nú er. Hinn gamli sjómannadagur er fjórði sunnudagur eftir þrettánda, bænadagur á vetri, enda fellur sá sunnudagur alltaf nálægt deginum þegar vetrarvertíðin hófst forðum. Allt til ársins 1700 var það á Pálsmessu, 25. janúar, en eftir það daginn eftir Kyndilmessu, sem er 2. febrúar. Og piltarnir sem sendir voru til að draga björg í bú, í bókstaflegum skilningi, komu gangandi víða að til útróðrastaðanna, bjuggu við þröngan kost í verbúðum, og margir þeirra komu aldrei aftur heim. En það var ekki aðeins sjórinn sem tók þá, heldur voru ferðir þeirra að heiman um hávetur glæfraferðir, og vetrarbyljirnir tóku líka mörg líf. Nú eru breyttir tímar. Sem betur fer.

Kirkjuganga og sjómannadagur er jafngömul sjóróðrum og kristni, þó að sjómannadagurinn sé í eðli sínu ekki beinlínis kirkjuhátíð. En það mun hafa verið sr. Sigurgeir Sigurðsson á Ísafirði, síðar biskup sem ákvað 1938 að sérstaklega skyldi messa vegna sjómannadagsins og svo hefur verið síðan. Það ár á Ísafirði og hér í Reykjavík.

Kirkjan tók fagnandi þeirri tillögu árið 1938 að taka þátt í hátíðahöldum sjómanna þennan dag, og hefur valið honum sérstaka ritningarlestra og samið bænir í tilefni hans þar sem þakkað er fyrir handleiðslu Guðs og þeirra minnst sem gista hina votu gröf. Svo er einnig þetta árið.

Guðspjallsfrásögnin, þessi litla saga um Jesú sem sefur í bátnum þó að óveður sé skollið á og lærisveinarnir titra af ótta, þar til þeir vekja hann í ofboði og hann hastar á vindinn og öldurnar svo að það gerir stillilogn, þessi saga hefur margar merkingar. Jesús glímir við náttúruöflin og beygir þau til hlýðni. Það er eins og hann tali til þeirra líkt og þegar reynt er að siða til þau sem fara ekki að reglunum. En við sem tilheyrum hinni upplýstu vitibornu þjóð 21. aldarinnar, vitum að það er bara hægt í ævintýrum og að alvaran er önnur. Samt persónugerum við vindinn og köllum hann Kára, köllum Veturinn konung og sjóinn ýmist Ægi eða Rán og dætur þeirra Báru, Öldu og Bylgju.

Einfaldasta útleggingin á guðspjallinu og sú algengasta er að segja að hún merki að þegar Jesús er með í bátnum þá sé öllu óhætt. Það er auðvitað alveg rétt, en þar með er hægt að komast framhjá þessu með náttúruöflin. Þess vegna er aðferðin sú ófullkomin og jafnvel villandi.
Engu að síður hefur sýn trúarinnar á Jesús í bátnum, eins og Jesús gangandi á vatninu, verið huggun í harmi og styrkur í þrengingum. Við höfum sagt hvert við annað á erfiðum stundum: Jesús sem kyrrir vind og sjó og gengur á vatninu bjargar alltaf. Hann bjargar bát til hafnar eða inn í himinn sinn.

Maðurinn getur nálgast náttúruöflin og hina ógurlegu krafta þeirra á mismunandi hátt. Hann getur forðast að glíma við þau og gefist upp fyrir þeim, óttast þau, og reynt að vernda sig gegn þeim. En um leið getur hann verið á þeirra valdi og jafnvel í þeirri hættu að fara að tilbiðja þau eins og Guð væri. Hann getur í öðru lagi reynt ræna náttúruöflin leyndarmálum sínum með vísindalegum athugunum á eðli þeirra, í þeim tilgangi að bregðast við þeim og ráða við þau með tæknilegum lausnum. Eftir því sem það tekst betur og betur vex traustið til þeirrar verndar sem þekkingin veitir. Þegar þau samt bregðast við með öðrum hætti en útreiknað var og koma aftan að hinni vísindalegu hugsun geta þau skilið eftir enn meiri óvissu og óróleika en áður var.

Stundum er sagt að þegar mótorar komu í bátana hafi sjóferðabænin hljóðnað. En það er ekki rétt.
Það er rétt að dag nokkurn í sögu okkar var það liðin tíð að bátsformaðurinn og áhöfnin færi sameiginlega með bæn í heyranda hljóði áður en lagt var frá landi. Sérhvert sinn.
Núna er presturinn beðinn að koma um borð i nýjan bát og biðja fyrir honum og áhöfninni og framtíð beggja. Ekki alltaf, en ótrúlega oft.
Og enginn nema Guð þekkir allar þær bænir sem stíga upp frá þeim sem stíga ölduna.

Ef við tökum alvarlega nafn Drottins, sem við köllum Herra himins og jarðar, þá eru mæri himins og jarðar einmitt þar sem Kristur sjálfur berst við öflin sem snúist hafa gegn skapara sínum. Einnig á sviði hins náttúrubundna.
Sá guðdómlegi kraftur sem í upphafi kallaði fram sköpun úr óskapnaði er enn að verki. Og þennan kraft getur hver og einn, stór og smár ákallað sér til hjálpar og verndar, líknar og lækningar.

Við búum í landi sem úthafið umlykur, og er land jarðskjálfta og eldsumbrota. Þjóðin hefur í þúsund ár lifað við ógnina sem býr í ógnarkröftum hafsins sem hrifsað geta til sín sjófarendur, og er oftast nær en sú ógn sem býr í eldsumbrotum og landskjálftum.

Við erum sem fyrr hjálparvana gagnvart ógnarkröftum sköpunarinnar, en samt er hún sköpun sem lýtur skapara sínum.
Vald hans og máttur er af þeirri stærð sem lætur jörðina bifast. Í Jesú Kristi, sem er Herra himins og jarðar höfum við aðgang til Guðs sem heyrir bænir þeirra sem óttast í hamförunum, eins og lærisveinarnir í bátnum, og þeirra vegna rís hann upp þeim til verndar og lægir vind og sjó og gefur logn, ekki bara úti fyrir í náttúrunni heldur inni fyrir í sálinni.

Við megum ákalla hann og getum ákallað hann og skulum ákalla hann. Það er leiðin til lausnar og frelsunar. Þess vegna viljum við ákalla hann um blessun hans yfir þau öll sem eiga um sárt að binda vegna þess að hafið hefur tekið elskaðan vin og ættingja. Og við viljum þakka honum vernd hans og miskunn því að hann yfirgefur aldrei það sem hann hefur skapað því að hann elskar það.

Sjómannadagurinn er einn af þrem messudögum kirkjunnar, sem einkenna hana sem þjóðkirkju. Hinir eru 1. desember og 17.júní. Aðeins sjómannadagurinn lifir góðu lífi sem messudagur. Kannski er það vegna þess að þá er minnst lífsháskans sem felst í því að föðurland vort hálft er hafið, eins og segir í sálminum sem við sungum. En við megum aldrei gleyma því að lífsháskinn er jafnt á landi og sjó og í lofti, og lífsháski þjóðar er daglegt fyrirbænarefni þjóðkirkju.
Og þó að fáir sjái ástæðu til þess að svara kalli kirkjunnar um kirkjugöngu á öllum þessum dögum er ekki minnsta ástæða til þess að hverfa frá því ætlunarverki sem kirkjunni er ætlað nú sem fyrr.
Að biðja, án afláts. Að bera sífellt fram fyrir Guð með helgum bænarorðum málefni þjóðarinnar, í dag sérstaklega þau sem eiga hálft sitt föðurland á hafinu.

Við höfum beðið fyrir því að fiskimiðin glatist ekki, og aflabrögð verði trygg og afkoman örugg og fengsæl, og að sérhvert fley, stórt og smátt megi snúa aftur til lands og að boðaföllinn aldrei grandi neinum. En nú þurfum við ekki síður að biðja fyrir heilbrigði sjávarins, fiskimiðanna, og aflans, andspænis ógnandi breytingum í lífkerfi sjávar, þar sem mesta ógnin kemur frá okkur sjálfum og kynslóðunum sem á undan okkur töldu rétt og telja sumir enn að sjórinn sé ekki aðeins matarkista heldur yfirstærð af ruslafötu.
Lengi tekur sjórinn við, segir máltækið, og lengi tók sjórinn við. Og nú skal því hætt.
Og þegar hafið hefur kastað upp á land því sem maðurinn hefur varpað í það, þá er okkar hlutverk að að hreinsa ströndina áður en útfallið tekur það með sér aftur. Ekki til að reyna að bæta fyrir brot þeirra sem á undan fóru, heldur til að þjóna þeim sem á eftir koma.

Við þurfum að læra aftur að þakka fyrir að það sem bjargaði kynslóð eftir kynslóð frá hungurdauða í þessu landi, er sú lífmóðir sem hafið er. Og eins og það er ljúf skylda barnanna að annast og heiðra sína móður þegar aldur og ýmislegar meinsemdir plaga , skulum við minnast þeirrar skuldar sem við eigum að gjalda þeim lifandi og lífgefandi faðmi sem umlykur landið og fólkið sem þar býr.

Við getum ekki beygt náttúruöflin til hlýðni. Hvorki vind né veður, brim eða bárur. En við getum ákallað þann um vernd sem hefur vald og ráð í hverjum háska. Guð.

Hér í Dómkirkjunni í Reykjavík er fáni þar sem settar eru stjörnur jafnmargar þeim sem hlutu hina votu gröf á umliðnu ári. Núna er engin stjarna. Guði sé lof. Þeim árum fjölgar þegar engin stjarna er og segir sína sögu um öryggi á hafinu. En svo hefur sannarlega ekki alltaf verið.
Nú verður á þessari stund, lagður blómsveigur að minnisvarða drukknaðra sjómanna í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Ég bið ykkur að rísa úr sætum og votta hinum látnu virðingu og biðja fyrir syrgjendum.

Þökk fyrir! (Dómkórinn syngur„Þakkargjörð“, sálm sr. Hjálmars Jónssonar og Sigfúsar Halldórssonar).

Guð, veit þeim sem við nú höfum minnst frið og hvíld og gleði í þínu eilífa ríki. Lát ljós þitt lýsa þeim. Heilagi Guð við biðjum þig að hugga og styrkja þau sem misst hafa ástvin eða ættingja í hafið, sakna og syrgja. Blessa kærar minningar þeirra og þerra tárin. Gef þeim styrk og trú og von um endurfundi í ríki þínu.

Í Jesú nafni.

Amen, ó, Jesú minn,
að þér tak þrælinn þinn,
til skips þá ganga geri,
Guðs englar með mér veri.
Jesús mér fylgi í friði,
með fögru engla liði. (Hallgrímur Pétursson)

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.