Guðsþjónusta

Samkirkjuleg guðsþjónusta 

Guðsþjónusta

í tilefni Alþjóðlegrar, samkirkjulegrar bænaviku fyrir einingu kristninnar
Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt.
Jóh 15.5-9

Efni guðsþjónustunnar kemur frá samkirkjulega systrasamfélaginu í Grandchamp í Sviss. Það er sett upp sem þrjár bænavökur eða vigilar og hægt að nota hluta þess að vild. Þýðingu og heimfærslu annaðist dr. María Guðrúnar. Ágústsdóttir, formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi sem hefur umsjón með bænavikunni hérlendis.

P: Prestur
L: Lesari
S: Saman


FORSPIL
P: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.
S: Og með þínum anda.
P: Minnumst skírnar okkar í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda. Amen.
Biðjum saman:
Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
Amen

UPPHAFSÁVARP
L: Góð systkin í Kristi, þetta árið völdu systurnar í Grandchamp samfélaginu í Sviss þema bænaviku fyrir einingu kristninnar. Þema ársins er byggt á orðum Jesú í 15. kafla Jóhannesarguðspjalls: Verið stöðug í elsku minni og þið munuð bera mikinn ávöxt.
L: Eins og Jesús segir þráir Guð ekkert heitar en að við komum til hans og séum stöðug í honum. Guð bíður okkar og vonar að þegar við erum sameinuð honum í kærleika munum við bera ávöxt sem færir fólki líf. Frammi fyrir því sem okkur er ókunnugt er hætta á að við drögum okkur í hlé og sjáum bara það sem skilur okkur að. Hlýðum kalli Jesú þegar hann biður okkur um að vera stöðug í kærleika sínum og berum ávöxt samkvæmt því .
L: Hér á eftir munum við biðja saman með orðum systrasamfélagsins í Grandchamp. Við minnumst þess að Jesús Kristur kallar okkur til samfélags og við snúum okkur til kærleika hans, sem er kjarni lífs okkar. Vegur einingar hefst með einlægu samfélagi við Guð. Þegar við dveljum í Guði, erum stöðug í elsku Guðs, styrkist löngun okkar til að leita einingar og sátta við aðra. Guð opnar hjarta okkar fyrir þeim sem eru ólík okkur sjálfum. Það er mikilvægur ávöxtur trúarinnar, gjöf sem gerir okkur heil, gjöf sem læknar sundrunguna innra með okkur, sundrunguna á milli okkar og sundrunguna í heiminum.

P: Í friði biðjum við til Guðs:
Guð, þú er vínyrkinn sem lætur þér annt um okkur í umhyggju þinni.
Þú kallar okkur til að koma auga á fegurð hverrar greinar sem er sameinuð stofninum, fegurð hverrar manneskju.
En samt erum við of oft hrædd við það sem er ólíkt okkur sjálfum.
Við drögum okkur í hlé.
Við gleymum að treysta þér.
Fjandsemi fær að þróast á mili okkar.
Kom þú , Guð og leið hjörtu okkar til þín enn á ný.
Hjálpa okkur að lifa í fyrirgefningu þinni
að við mættum sýna samstöðu og lofa nafnið þitt.

LOFGJÖRÐ
S: Þú sem kallar okkur til að vera þér lofsöngur á jörðu: dýrð sé þér!
L: Við flytjum þér lofgjörð í heiminum og meðal allra þjóða.
L: Við flytjum þér lofgjörð í sköpunarverkinu miðju og meðal alls þess sem skapað er.
S: Þú sem kallar okkur til að vera þér lofsöngur á jörðu: dýrð sé þér!
L: Við flytjum þér lofgjörð í þjáningum og tárum.
L: Við flytjum þér lofgjörð í velgengni og afrekum.
S: Þú sem kallar okkur til að vera þér lofsöngur á jörðu: dýrð sé þér!
L: Við flytjum þér lofgjörð þar sem eru deilur og misskilningur.
L: Við flytjum þér lofgjörð þar sem er samvera og sáttargjörð.
S: Þú sem kallar okkur til að vera þér lofsöngur á jörðu: dýrð sé þér!
L: Við flytjum þér lofgjörð þar sem klofningur og aðskilnaður ríkir.
L: Við flytjum þér lofgjörð í lífi og dauða og væntum fæðingar nýs himins og nýrrar jarðar.
S: Þú sem kallar okkur til að vera þér lofsöngur á jörðu: dýrð sé þér!

FYRSTA BÆNAVAKA AÐ DVELJA Í KRISTI: EINING PERSÓNUNNAR Í HEILD

LESTRAR
Davíðsálmur 103.1-5, 22

Lofa þú Drottin, sála mín,
og allt sem í mér er, hans heilaga nafn;
lofa þú Drottin, sála mín,
og gleym eigi neinum velgjörðum hans.
Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar,
læknar öll þín mein,
leysir líf þitt frá gröfinni,
krýnir þig náð og miskunn.
Hann mettar þig gæðum,
þú yngist upp sem örninn.

Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.

Jóh 15.1-17
Jesús segir: „Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir. Ég hef elskað yður eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðug í elsku minni. Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.

Þannig hljóðar hið heilaga guðspjall.
S: Lof sé þér, Kristur.

FYRIRBÆNIR
L: Guð kærleikans, í Kristi segir þú við okkur: „Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður.“ Þú leitar okkar, þú býður okkur að taka á móti vináttu þinni og vera stöðug í henni. Kenndu okkur að svara kalli þínu af einlægni og vaxa til lífs í fyllstu gnægð.
S: Í Guði er okkar hjartans gleði.
L: Guð lífsins, þú kallar okkur til að vera þér lofsöngur í heiminum miðjum og fagna hvert öðru sem gjöf náðar þinnar. Mætti þitt elskandi augnaráð sem hvílir á okkur öllum opna hjarta okkar svo að við getum tekið á móti hvert öðru eins og við erum.
S: Í Guði er okkar hjartans gleði.
L: Guð, þú sem safnar okkur saman og tengir okkur saman sem einn vínvið í syni þínum Jesú. Við biðjum þess að þinn elskandi andi sé stöðugur í okkur þegar við komum saman í söfnuðum okkar og samkirkjulegum viðburðum. Gef okkur að fagna þér saman með gleði.
S: Í Guði er okkar hjartans gleði.
L: Guð víngarðsins eina, þú kallar okkur til að vera stöðug í elsku þinni í öllu sem við gerum og segjum. Þú sem snertir við okkur með gæsku þinni, veit okkur að endurspegla ást þína á heimilum okkar og vinnustöðum. Mættum við ganga á undan með góðu fordæmi til að brúa bil samkeppni og vinna bug á spennu.
S: Í Guði er okkar hjartans gleði.

P: Mjög oft lítum við á bæn sem verk, eitthvað sem við gerum. Guð kallar okkur líka til hljóðrar bænar, að leita innri kyrrðar, án þess að láta viðfangsefni lífsins eða hugsanir okkar trufla. Í kyrrðinni er það Guð sem er að verki. Okkur er boðið að vera stöðug í elsku Guðs með því að dvelja í nærveru Guðs án orða, hvíla í Guði.

ÖNNUR BÆNAVAKA EINING KRISTINS FÓLKS VERÐI SÝNILEG
LESTRAR


Davíðssálmur 85.9-14

Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar.
Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna
og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans.
Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann
svo að dýrð hans megi búa í landi voru.
Elska og trúfesti mætast,
réttlæti og friður kyssast.
Trúfesti sprettur úr jörðinni
og réttlæti horfir niður af himni.
Þá gefur Drottinn gæði
og landið afurðir.
Réttlæti fer fyrir honum
og friður fylgir skrefum hans.

1Kor 1.10-13a

En ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga. Því að heimilismenn Klóe hafa tjáð mér um ykkur, bræður mínir og systur, að þrætur eigi sér stað á meðal ykkar. Ég á við að sum ykkar segja: „Ég fylgi Páli,“ og aðrir: „Ég fylgi Apollós,“ eða: „Ég fylgi Kefasi,“ eða: „Ég fylgi Kristi.“ Er þá Kristi skipt í sundur?

FYRIRBÆNIR
L: Heilagur andi, þú skapar og endurskapar kirkju þína um víða veröld. Kom þú og hvísla í hjörtu okkar bænina sem Jesús bað Föðurinn í aðdraganda píslar sinnar: „að öll mættu þau vera eitt ... til þess að heimurinn trúi.“
S: Kyrie eleison (númer 739)
L: Drottinn Jesús, friðarhöfðinginn, tendra eld ástar þinnar í okkur, að tortryggni, óvirðing og misskilningur innan kirkju þinnar víki. Við biðjum þess að múrarnir sem skilja okkur að falli.
S: Kyrie eleison.
L: Heilagur andi, huggari okkar allra, vek í okkur hugarfar fyrirgefningar og sáttfýsi og leið okkur sem höfum villst af leið aftur heim til þín.
S: Kyrie eleison.
L: Drottinn Jesús, þú sem ert hógvær og af hjarta lítillátur, gefðu okkur að vera fátæk í anda svo að við getum tekið fagnandi á móti náð þinni sem stöðugt kemur á óvart.
S: Kyrie eleison.
L: Heilagur andi, þú yfirgefur aldrei þau sem eru ofsótt vegna trúfesti sinnar við fagnaðarerindið, konur, karla og börn. Veit þeim styrk þinn og hugrekki og styð þau sem veita ofsóttu fólki aðstoð.
S: Kyrie eleison.

FRIÐARKVEÐJA
P: Guð kallar okkur til einingar. Guð gefur okkur frið sinn og býður okkur að gefa öðrum hlutdeild í þeim friði. Við skulum nú færa hvert öðru frið Guðs með því að leggja hönd á hjartastað, hneigja höfuð og horfast í augu með bros á vör.

ÞRIÐJA BÆNAVAKA EINING ALLRA ÞJÓÐA OG GJÖRVALLRAR SKÖPUNAR

LESTRAR:
Davíðssálmur 96.10-14
Boðið meðal þjóðanna: Drottinn er konungur.
Jörðin er á traustum grunni, hún bifast ekki.
Hann dæmir þjóðirnar með réttvísi.
Himinninn gleðjist og jörðin fagni,
hafið drynji og allt sem í því er,
foldin fagni og allt sem á henni er,
öll tré skógarins fagni með þeim
fyrir augliti Drottins því að hann kemur,
hann kemur til að ríkja á jörðu,
hann mun stjórna heiminum með réttlæti
og þjóðunum af trúfesti sinni.

OpJóh 7.9-12

Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.
Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

PRÉDIKUN

FYRIRBÆNIR


L: Guð lífsins, þú hefur skapað hvert og eitt okkar í þinni mynd og líkingu. Við færum þér lof fyrir gjöf fjölbreyttrar menningar, trúartjáningar, hefða og þjóðernis. Gef okkur hugrekki til að sporna við ranglæti og hatri sem byggir á kynþætti, þjóðfélagsstöðu, kynvitund, trúarbrögðum eða ótta við þau sem eru ólík okkur.
S: Guð friðarins, Guð kærleikans, í þér er von okkar.
L: Miskunnsami Guð, í Kristi sýnir þú okkur að við erum eitt í þér. Kenn okkur að nota þá gjöf í daglegu lífi svo að trúað fólk allra trúarhefða í hverju landi fái hlustað hvert á annað og lifað í friði.
S: Guð friðarins, Guð kærleikans, í þér er von okkar.
L: Jesús, þú komst inn í heiminn og áttir fulla hlutdeild í mennsku okkar. Þú þekkir erfiðleika lífsins sem fólk þjáist af á svo marga vegu. Mætti andi samúðar hreyfa við okkur svo að við gefum þeim sem eru í neyð af tíma okkar, lífi og gæðum.
S: Guð friðarins, Guð kærleikans, í þér er von okkar.
L: Heilagur andi, þú heyrir angistaróp sköpunar þinnar sem er í sárum og hróp þeirra sem nú þegar þjást vegna loftlagsbreytinga. Leið okkur í átt að breyttri hegðun. Mættum við læra að lifa í sátt og samlyndi sem hluti af sköpunarverki þínu.
S: Guð friðarins, Guð kærleikans, í þér er von okkar.

L: Við erum kölluð til að miðla lækningu Guðs og ást sem færir sátt. Sú þjónusta ber ekki ávöxt nema við séum stöðug í Guði, eins og greinar vínviðarins sanna sem er Jesús Kristur. Þegar við færumst nær Guði færumst við einnig nær hvert öðru.

Sjáum fyrir okkur hring sem teiknaður hefur verið á gólfið. Þessi hringur táknar heiminn. Í miðju hringsins logar á lifandi ljósi. Miðjan táknar Guð. Við erum öll í útjaðri hringsins og förum okkar eigin leiðir til að nálgast miðjuna. Þegar við göngum nær miðjunni, kjarnanum sem er Guð, færumst við einnig nær hvert öðru. Og því nær sem við færumst hvert öðru, færumst við einnig nær Guði.

Nú skulum við sjá fyrir okkur að við höfum öll nálgast Guð svo, að við getum tendrað okkar trúarljós af eilífu ljósi Guðs. Þar sem við stöndum þarna þétt saman gerum við bæn okkar og snúum síðan við, hvert með okkar ljós til að bera það áfram til heimsins.

BÆN DROTTINS
P: Biðjum saman með orðunum sem Jesús kenndi okkur:
S: Faðir vor...

L: Andleg iðkun og samstaða haldast hönd í hönd. Bæn og athöfn heyra saman. Þegar við erum í Kristi tökum við á móti anda hugrekkis og visku til að vinna gegn ranglæti og kúgun. Tökum til okkar daglega hvatningu systranna í Grandchamp samfélaginu:

L: Biðjum og vinnum að verki Guðs á jörðu.
Látum Orð Guðs blása lífi í annir og hvíld daglegs lífs.
Varðveitum innri kyrrð í öllum hlutum
að við megum vera stöðug í Kristi.
Fyllumst anda sæluboðanna:
Gleði, einfaldleika, miskunn.

BLESSUN
L: Verum eitt, til þess að heimurinn trúi! Verum stöðug í elsku Guðs, göngum út í lífið og berum elsku Guðs ávöxt.

P: Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. Í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda. Amen.