Fjölskylduþjónusta

Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar

Þjónustan

Við getum öll átt í einhverjum erfiðleikum í samskiptum við aðra. Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er þjónusta við hjón, fólk í sambúð, fjölskyldur og einstaklinga, sem finnst þeir vera í einhvers konar vanda í samskiptum við sína nánustu og vilja finna nýjar lausnir.

Lykilorð:

Hjónaráðgjöf, hjónaviðtöl,einstaklingsviðtöl fjölskylduráðgjöf, fjölskylduviðtöl, sálgæsla, skilnaðaráðgjöf og sambandsráðgjöf.

Opið: Virka daga frá 9:00 til 16.00.

Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er til húsa á neðri hæð safnaðarheimilis Háteigskirkju, Háteigsvegi 27-29.

Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er hluti af sálgæslustarfi kirkjunnar og þjónar öllu landinu. Öllum er heimilt að leita beint til okkar og sumir koma samkvæmt ábendingu prests eða annarra aðila.

Þú getur í fyrstu snúið þér til þíns sóknarprests og leitað aðstoðar hans eða hennar. Prestar kirkjunnar um land allt hafa sérstaka viðtalstíma fyrir sóknarbörn sín.

Handleiðsla fyrir starfsfólk kirkjunnar.

Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar sér um handleiðslu fyrir presta, djákna og aðra sem starfa á vegum kirkjunnar. Handleiðslan fer einkum fram í hópum og auglýst er á netinu þegar nýir hópar byrja fyrir presta og djákna. Boðið er upp á einstaklingshandleiðslu í sérstökum tilfellum að beiðni viðkomandi starfsmanns.
Um handleiðsluna
Handleiðsla Fjölskyldu - og sálgæsluþjónustu kirkjunnar er skipulögð af starfsfólki stofnunarinnar.
Starfsfólkið annast sjálfa handleiðsluna og eru þau viðfangsefni sem tekin eru fyrir unnin í fullum trúnaði milli þátttakenda og Fjölskyldu - og sálgæsluþjónustu kirkjunnar.

Venjulega eru starfandi um sex handleiðsluhópar en hafa stundum verið átta. Starfræktir eru hópar presta, djákna, og prófasta. Enn fremur býður Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar uppá einstaklingshandleiðslu. Þá hefur starfsfólki kirkjunnar verið boðin ráðgjöf og stuðningur í sínum störfum og í sérstökum tilvikum myndaðir starfsfólkshópar þegar miklir erfiðleikar hafa verið í vinnuumhverfi. Nýir hópar eru venjulega teknir inn að hausti eða eftir áramót.

Markmið handleiðslu eru m.a. eftirfarandi:

Efling starfssjálfsins sem felst í því að skoða mörkin sín og læra að aðgreina starfsjálf og einkasjálf ( starf og einkalíf).
Fyrirbyggja kulnun í starfi
Auka starfsgleði.
Auka samvinnu og samskipti aðila þar sem við á.

Greinar
Til skiptis hjá foreldrum - Grein eftir Benedikt Jóhannesson sálfræðing um líðan og aðlögun unglinga eftir fjölskyldugerðum
Börn og fjölskylduaðstæður - Grein eftir Benedikt Jóhannsson sálfræðing

Starfsfólk

Fjölskyldufræðingarnir sem hér starfa eru öll með sérmenntun og reynslu í fjölskylduráðgjöf og handleiðslu.

Fjölskyldufræðingarnir hafa samráð sín á milli til að veita sem faglegasta þjónustu.

Andrea Baldursdóttir, fjölskyldufræðingur
andrea.baldursdottir@kirkan.is

Guðrún Kolbrún Otterstedt, fjölskyldufræðingur 
gudrun.kolbrun.otterstedt@kirkjan.is

Vigfús Bjarni Albertsson, forstöðumaður
vigfus.bjarni.albertsson@kirkjan.is

Trúnaður

Fjölskyldu - og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er bundin þagnarskyldu. Við geymum ekki skýrslur um fjölskylduna, en skráum nauðsynlegar upplýsingar meðan á viðtölunum stendur.

Dragðu ekki að leita þér hjálpar hjá okkur eða annars staðar. Góð samskipti við aðra, einkum okkar nánustu, eru mikilvæg fyrir vellíðan og heilbrigði.

Viðtöl

Þið getið leitað til okkar þegar:
  • þið viljið bæta hjónaband ykkar eða sambúð
  • þú vilt eiga betri samræður við maka þinn
  • þið viljið meiri frið og sátt heima
  • kominn er trúnaðarbrestur í hjónabandið eða sambúðina
  • þið viljið bæta ástarlífið
  • þið hafið leitt hugann að skilnaði
  • þið hafið ákveðið að skilja og viljið ræða velferð barnanna
  • þið viljið bæta samskipti í stjúpfjölskyldu
  • styrkja þarf samband við barn eða ungling í fjölskyldunni
  • auka þarf sátt varðandi umgengni við barn / börn eftir skilnað foreldra

Í viðtölum og samvinnu við fjölskyldufræðinga gæti vandi ykkar skýrst og lausnir fundist. Yfirleitt er best að þeir sem deila vandanum komi saman í viðtölin. Oftast er hvert viðtal um einnar klukkustundar langt. Viðtölin geta dreifst á nokkra mánuði. Hvert viðtal kostar kr. 4000.

Að panta tíma

Þú eða einhver úr fjölskyldunni getið haft samband og óskað eftir viðtali. Við tökum niður helstu upplýsingar. Ykkur er síðan gefið viðtal við fyrsta tækifæri. Viðtölin fara fram kl. 9-16 alla virka daga nema laugardaga. Símanúmer Fjölskyldu - og sálgæsluþjónustu kirkjunnar er: 528 4300.