
FERMING
Kirkjan býður öllum unglingum á 14. ári til fermingarfræðslu. Á þessum tímamótum fá þátttakendur tækifæri til að spyrja mikilvægra spurninga eins og: „Hver er ég?“ „Hvernig vil ég lifa?“ og „Get ég verið eins og ég er?“
Í fermingarfræðslunni er fjallað um Guð og starf og boðun Jesú Krists, lífið og það sem skiptir þig máli, auk þess sem þú kynnist sjálfum/sjálfri/sjálfu þér betur og færð stuðning til að finna þinn veg í lífinu.
Hvað er ferming?
Flest fermingarbörn eru þegar skírð áður en fermingarfræðslan hefst en þau sem eru það ekki láta skírast fyrir ferminguna. Fermingin hefur tengst skírninni frá því á dögum frumkirkjunnar en tengsl skírnar og fermingar hafa verið útskýrð með mismunandi hætti. Ein leið er að líta á ferminguna sem trúfræðslu en í frumkirkjunni fór skírn fram að undangenginni viðamikilli skírnarfræðslu eða trúfræðslu sem gat tekið allt að þrjú ár. Þannig má líta á fermingarathöfnina sem lokin á skírnarfræðslu fermingarbarnsins sem að jafnaði var skírt sem ungbarn.
Önnur leið til að útskýra upphaf og tilgang fermingarinnar er að benda á þann lið í skírnaratferli frumkirkjunnar að smyrja skírnarþegann með olíu að lokinni skírninni en það samsvaraði gjöf heilags anda. Í Vesturkirkjunni greindist ferming snemma frá skírninni og þróaðist yfir í sérstaka athöfn sem fékk stöðu sakramentis og hafði þann tilgang að veita heilagan anda.
Marteinn Lúther vildi hins vegar meina að fermingin væri ekki sakramenti heldur kirkjusiður og taldi ferminguna sem sakramenti varpa skugga á skírnina. Hann tengdi ferminguna trúfræðslu barna og skrifaði að prestar mættu leggja hendur yfir börnin og ferma þau eftir að hafa gengið úr skugga um að þau lærðu trúna og kynnu hana. Sú fræðsla var líka hugsuð sem undirbúningur undir altarisgöngu. Sú þróun átti sér því stað hjá lútherskum kirkjum að fermingin varð athöfn sem snerti fræðslu ungmenna í kristnum fræðum og svo er enn í dag.
Orðið ferming (lat. confirmatio) getur þýtt „staðfesting“. Í samhengi fermingarfræðslunnar þýðir það staðfesting á því að þú hafir hlotið uppfræðslu í kristnum fræðum. En það getur líka merkt að þér gefst tækifæri til þess að staðfesta þá trúarjátningu sem foreldrar þínir og guðforeldrar mæltu fyrir þína hönd við skírnina. Með því staðfestir þú að þú viljir tilheyra kirkju Krists og rækta trú þína en orðið ferming getur nefnilega líka haft merkinguna „styrking“. Markmið fermingarinnar er því bæði að styrkja trú þína með fermingarfræðslu og öðru fermingarstarfi og að þú staðfestir að þú viljir fylgja Kristi. Það gerir þú þegar þú svarar þessari spurningu prestsins í fermingarathöfninni: Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Síðan þiggur þú fyrirbæn og blessun.
Hvernig fara fermingarstörfin fram?
Það er mjög mismunandi hvernig fermingarstarfið fer fram. Í sumum kirkjum hefjast fermingarstörfin rétt eftir miðjan ágúst með sumarnámskeiði, sem stærstur hluti fermingarbarnanna tekur þátt í. Síðan hefst vetrarnámskeið í september og er vikulega fyrir þau sem misstu af sumarnámskeiði, eða hluta þess.
Fastur liður hjá mörgum söfnuðum er að fara í kirkjumiðstöð, eins og t.d. Vatnaskóg, Löngumýri eða einhvern annan fallegan stað einhvern tímann yfir veturinn. Í öðrum kirkjum eru vikulegar samverur allan veturinn þar sem tekið er á ýmsum málum. Talað er um lífið og kristna trú og spurningar eru ræddar sem brenna á þátttakendum.
Fjallað er um Biblíuna, farið er yfir boðorðin, Faðir vorið, trúarjátninguna og bænina, altarisgönguna og skírnina. Oft fá fermingarbörnin heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar og víðast hvar taka þau þátt í söfnun Hjálparstarfsins. Þátttaka í helgihaldi yfir veturinn er hluti af fermingarstarfinu.
Fermingardagurinn
Fermingarathöfnin fer fram í kirkju, en áður hefur presturinn æfingu svo allt fari vel fram. Í athöfninni svarar þú spurningu prestsins, sem er á þessa leið: Vilt þú leitast við að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?
Þegar þú svarar þeirri spurningu játandi þýðir það að þú játast Jesú Kristi og viljir fylgja honum og láta náð, fyrirgefningu og kærleika hans móta líf þitt. Um leið játar þú því að þú viljir leyfa Jesú að taka þátt í þínu lífi.
Síðan þiggur þú fyrirbæn og blessun. Að lokum er altarisganga. Í altarisgöngunni þiggur þú brauð og vín þar sem Jesús er raunverulega nálægur og minnst er síðustu kvöldmáltíðar Jesú með lærisveinum sínum.
Í flestum kirkjum fá börnin að ganga til altaris áður en þau eru fermd, en sums staðar eru þau að taka þátt í altarisgöngunni í fyrsta skipti í fermingarathöfninni. Langflest fermingarbörn halda fermingarveislur með fjölskyldu og vinum, sem öllum eru eftirminnilegar.