
HELGIHALD
Helgihald kirkjunnar getur verið margskonar, guðsþjónusta eða messa á sunnudögum er það sem við þekkjum flest. Við tölum um guðsþjónustu þegar ekki fer fram altarisganga en messu þegar altarisganga á sér stað.
Guðsþjónusta er þjónusta Guðs við okkur, sú þjónusta fer fram í náðarmeðulunum og með henni styrkir Guð okkur í trúnni, eflir okkur í voninni og gerir okkur brennandi í kærleikanum.
Við erum líka gerendur í messunni og að því leyti þjónar Guðs. Sú þjónusta sem við látum Guði í té í guðsþjónustunni er iðrun og trú, lofgjörð og þökk.
Messan
Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt (Lúk.22.19-20)
Messan er samfélag trúaðra þar sem allir taka þátt og miðar að því að virkja söfnuðinn til tilbeiðslu. Hún hefst með komu, svo þjónustu orðsins og heldur áfram í samfélagi um Guðs borð og lýkur á sendingu, út að þjóna Guði í hinu daglega lífi.
Tónlist er mikilvægur þáttur í messunni og stuðlar að þátttöku, boðun og inngildingu. Sálmabók kirkjunnar ber vitni um trúarlíf og kenningu Þjóðkirkjunnar og er notuð við guðsþjónustur og helgihald. Kirkjukórar og forsöngur miðla tónlistinni, sem virkir líkamann, huggar og tengir saman. Þögn er jafnframt mikilvæg til undirbúnings og í bæn.
Kristur býður sjálfur til máltíðarinnar. Í máltíðinni gefur Kristur okkur sig með brauði og víni. Hann veitir fyrirgefningu syndanna, frelsar til nýs lífs, tengir okkur sem lifandi limi hvert við annað og styrkir okkur til þjónustu við aðra.
Finndu messu nálægt þér
Á síðunni Kirkjur Íslands sem finna má hér efst á síðunni finnur þú upplýsingar um allar kirkjur Þjóðkirkjunnar ásamt upplýsingum um heimasíður og samfélagsmiðla kirknanna. Þar eru messur auglýstar auk félagsstarfs auk allra opinna annarra opinna viðburða.