
HJÓNAVÍGSLA
Þegar tveir einstaklingar taka ákvörðun um að ganga saman í gegnum lífið vakna sjálfsagt spurningar um giftingu og sambúð. Hjónavígsla er helgiathöfn en hefur einnig réttarleg áhrif sem mikilvægt er að kynna sér vel áður en ákvörðun er tekin.
Sumar athafnir eru fámennar og látlausar. Aðrar stærri í sniðum. Hvernig sem þið veljið að hafa ykkar athöfn býður kirkjan upp á hlýlegt og táknrænt umhverfi þar sem þið fáið að hefja sameiginlegt líf í nærveru Guðs og ástvina. Prestar Þjóðkirkjunnar eru boðnir og búnir til þess að aðstoða við undirbúninginn.
Hjónavígslan er....
Kirkjuleg hjónavígsla er helgiathöfn þar sem tveir einstaklingar strengja þess heit að ganga saman æviveginn, lýsa yfir þeim vilja sínum í áheyrn votta að vilja vera hjón og handsala síðan þann sáttmála. Algengast er að hjónavígsla fari fram í kirkju. Þó getur prestur framkvæmt hjónavígslu í heimahúsi eða jafnvel utandyra. Tveir vottar þurfa að vera viðstaddir.
Áður en hjónavígslan fer fram þarf að fylla út könnunarvottorð sem finna má á heimasíðu sýslumanna. Hjónavígsla getur ekki farið fram fyrr en prestur hefur fengið útgefið vottorðið í hendurnar.
Hvaða kirkju eigum við velja og hvaða prest?
Viljið þið gifta ykkur í kirkjunni þar sem þið búið, fermingarkirkju annars hvors ykkar eða í rómantískri sveitakirkju - eða bara í einhverri allt annarri kirkju?
Allar kirkjur bjóða ykkur velkomin og valið er ykkar. Allir prestar þjóðkirkjunnar taka að sér hjónavígslur og algengt er að hjónaefni velji sér sinn prest og sína kirkju óháð hvar viðkomandi prestur starfar. Hér takmarkast möguleikarnir einungis af dagskrá viðkomandi kirkju og prests.
Við undirbúning hjónavígslu þá fer fram samtal við prestinn sem ætlar að gefa brúðhjónin saman. Þá verður rætt um fyrirkomulag athafnarinnar, hvar hún verður og form hennar og má þar nefna atriði eins og tónlistina en í sálmabók Þjóðkirkjunnar er t.d. að finna fallega brúðkaupssálma Sérhver hjónavígsla felur ávallt í sér ritningarlestur, bæn og blessun, ásamt ávarpi prestsins, spurningum og handsali brúðhjónanna.
Hér efst á síðunni undir Kirkjur Íslands má finna lista yfir allar kirkjur á Íslandi ásamt upplýsingum um aðstöðu sem þar er til staðar, starfsfólk kirknanna, tengiliðaupplýsingar og flest sem þið þurfið til þess að hefja skipulagningu að ykkar athöfn.