
Fólkið í kirkjunni
Hjá Þjóðkirkjunni starfar einstaklega fjölbreyttur hópur fólks og sinnir þar margbreytilegum verkefnum. Innan kirkna landsins starfa sóknarprestar Þjóðkirkjunnar, æskulýðsprestar, djáknar, starfsfólk kirkna og safnaða, tónlistarfólk, kirkjuverðir og sjálfboðaliðar í ýmiskonar störfum.
Allflestir vígðir þjónar kirkjunnar eru starfsmenn Þjóðkirkjunnar. Annað starfsfólk sem starfar við kirkjur og söfnuði landsins eru almennt ráðnir af og starfa fyrir sóknir og söfnuði. Hér er að finna nánari upplýsingar um helstu verkefni sem fólkið í kirkjunni sinnir í daglegu starfi hennar hér á landi.
Prófastar
Á Íslandi eru níu prófastsdæmi.
Þau eru Suðurprófastsdæmi, Kjalarnesprófastsdæmi, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Vesturlandsprófastsdæmi og Vestfjarðaprófastsdæmi, sem eru í Skálholtsumdæmi og Húnavatns og Skagafjarðarprófastsdæmi, Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi og Austurlandsprófastsdæmi sem eru í Hólaumdæmi.
Í hverju prófastsdæmi starfar einn prófastur. Prófasturinn hefur í umboði biskups tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu, embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda. Hann er tilsjónarmaður og ráðgjafi þessara aðila og skipuleggur t.d. afleysingaþjónustu vegna frítöku eða veikindaleyfa presta í prófastsdæminu.
Prófastur ber ábyrgð á að prestur sé ávallt tiltækur þegar á þarf að halda og er trúnaðarmaður biskups og ráðgjafi í kirkjulegum málum.
Prófastur er jafnframt formaður viðkomandi héraðsnefndar og formaður stjórnar héraðssjóðs. Prófastur setur nýja presta í embætti og afhendir þeim prestsþjónustubækur og gögn að boði biskups.
Prestar
Í Þjóðkirkjunni eru á fjórða hundrað kirkjur, en þær eru ekki allar sóknarkirkjur. Í hverri sókn geta verið nokkrar kirkjur og nokkrir prestar. Sóknir landsins eru mjög fjölbreyttar að stærð, bæði lýðfræðilega og landfræðilega.
Dæmi eru um að margir prestar starfi í einu prestakalli og þjóni einni kirkju. Annars staðar starfa margir prestar í einu prestakalli en þjóna mörgum kirkjum. Svo eru til prestaköll með mörgum kirkjum en aðeins einum presti. Í hverju prestakalli starfar einn sóknarprestur.
Hlutverk presta er að prédika fagnaðarerindi Jesú Krists og viðhafa sakramentin, sem eru skírn og heilög kvöldmáltíð. Auk þess sinna prestar sálgæslu og framkvæma hjónavígslur, útfarir, fermingar, skírnir, blessanir o.s.frv. Kennsla fermingarbarna er stór þáttur í starfi presta, auk þess sem þau vitja sjúkra og sorgmæddra.
Í samfélaginu er hópur fólks sem myndar söfnuð sem ekki getur notið hefðbundinnar kirkjulegrar þjónustu vegna sérstakra aðstæðna. Þær aðstæður geta verið varanlegar svo sem hjá heyrnarlausum, fötluðum, sjúkum eða eru tímabundnar eins og hjá föngum, sjúkum sem fá endurheimt heilsu, og innflytjendum.
Þessum hópi fólks sinna sérþjónustuprestar sem hafa starfsstöðvar í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu, en sinna þó ekki einum tilteknum staðbundnum söfnuði.
Yfirmaður presta Þjóðkirkjunnar er biskup Íslands.
Til að verða prestur í Þjóðkirkjunni þarf að ljúka mag. theol. gráðu í guðfræði frá Guðfræði og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Mögulegt er að nema guðfræði í nágrannalöndum okkar en þá þarf alltaf að bæta við ákveðnum greinum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Auk þess þarf að ljúka starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Þó langflestir prestar Þjóðkirkjunnar starfi í söfnuðum kirkjunnar, þá eru mörg annars konar prestsstörf. Í Þjóðkirkjunni starfa til dæmis héraðsprestar, æskulýðsprestar, sjúkrahúsprestar, fangaprestur, prestur fatlaðra, prestar innflytjenda og prestur heyrnalausra.
Djáknar
Djáknar eru ásamt prestum og biskupum vígðir þjónar kirkjunnar. Fyrsti menntaði djákninn var Unnur Anna Halldórsdóttir en hún var vígð í Dómkirkjunni í Reykjavík þann 28. nóvember árið 1965.
Starf djákna er á sviði kærleiksþjónustu og starfa þeir því helst við fræðslu og líknarmál. Djáknar starfa innan safnaða, á margs konar heilbrigðisstofnunum eða á vegum líknarfélaga. Helstu verkefni djákna eru á sviði kærleiksþjónustu og felast til að mynda í vitjun sjúkra og aldraðra, sálgæslu í söfnuðum og hjálparstarfi hverskonar.
Víða sjá djáknar um sunnudagaskóla og annað barnastarf auk fræðslustarfs innan safnaða Þjóðkirkjunnar. Djáknar sem starfa innan veggja heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa hlúa að velferð skjólstæðinga sinna og veita þeim andlega leiðsögn. Djákni situr héraðsfundi í því prófastsdæmi þar sem hann starfar og hefur þar málfrelsi og atkvæðisrétt.
Djáknafræði er þriggja ára nám og eru kennd við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Þó er hægt að ljúka djáknanámi á einu ári ef viðkomandi er með B.A. gráðu frá Hugvísinda og Menntavíksindasviði Háskóla Íslands eða hefur lokið hjúkrunarnámi.
Til þess að geta hlotið vígslu sem djákni að loknu djáknanámi þarf viðkomandi að ljúka starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Organistar
Organistar eru þau sem stýra söng og leika á orgel eða píanó við guðsþjónustur og viðburði í kirkjunum. Organistar stjórna einnig kirkjukórum og eru tónlistarstjórar í kirkjum landsins.
Á Íslandi fer grunnnám organista og kirkjutónlistarfólks fram í Tónskóla Þjóðkirkjunnar, en einnig er hægt að stunda kirkjutónlistarnám við Listaháskóla Íslands. Í kirkjutónlistarnámi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Listaháskólann læra nemendur orgelleik, söng, kórstjórn og barnakórstjórn.
Auk þess læra nemendurnir píanóleik, hljómborðsleik, bæði tölusettan bassa og ryþmískan hljómborðsleik, tónfræðagreinar, orgelfræði, kirkjufræði og kirkjusöngsfræði. Til að hefja nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar í kirkjutónlist þarf nemandi að hafa lokið miðprófi á píanó, en til að hefja nám við Listaháskólann þarf bæði að hafa lokið miðprófi á píanó og orgel og hafa grunn í söng og kórstjórn. Námið er í eðli sínu klassískt nám, en starf organistans er þó mjög fjölbreytt því kirkjutónlistin spannar marga mismunandi tónlistarstíla.
Kórstjórar og kirkjukórar
Við langflestar kirkjur landsins starfa kirkjukórar og í mörgum kirkjum eru einnig barna- og unglingakórar. Oftast fer organisti hverrar kirkju með stjórn kórstarfsins en í stöku kirkju er einnig starfandi kórstjóri. Kórarnir eru misjafnlega stórir, allt frá nokkrum einstaklingum upp í fleiri tugi.
Kórarnir syngja við helgihald og tónleika í kirkjunum en í kringum allt kórstarf er iðulega heilmikið félagsstarf. Hver kór hefur sína stjórn og er víða heilmikið samstarf á milli kóra, kóramót eru oft og víða um land allt og erlendis.
Ef þig langar að ganga í kirkjukór, er fyrsta skrefið að hafa samband við organista eða kórstjóra í kirkjunni þinni.
Meðhjálparar og hringjarar
Meðhjálpari í kirkju aðstoðar prestinn við messuhald. Nokkuð misjafnt er milli safnaða hversu víðtækt hlutverk meðhjálparinn hefur. Meðhjálparinn kveikir til að mynda á kertum á altarinu fyrir helgiathafnir og undirbýr altarið fyrir altarisgöngu ef kvöldmáltíðarsakramentið er haft um hönd.
Meðhjálparinn aðstoðar enn fremur gjarnan við altarisgöngurnar og afhendir sálmabækur við kirkjudyr fyrir messu. Hann er langoftast sjálfboðaliði, en í fjölmennum söfnuðum er launaður kirkjuvörður sem sinnir oft einnig störfum meðhjálpara.
Stundum skiptir fólk sem situr í sóknarnefnd með sér verkum um að sinna meðhjálparastarfi.
Þar sem ekki er sérstakur hringjari sjá meðhjálparar um að hringja kirkjuklukkum í upphafi og lok athafna.
Kirkjuklukkur eru samofnar menningu okkar og trú og kalla þær okkur til athafna í kirkjunni. Þar sem þeim er ekki handhringt eru þær rafstýrðar. Handhringing fer þannig fram að samhringt er níu sinnum eða níu sinnum þrjú slög með tveimur klukkum.
Í lok messu er einni klukku hringt þrisvar sinnum, svokölluð bænaslög. Við skírn er hringt einni klukku, Skírnarklukku. Við brúðkaup er hringt tveimur klukkum, bæði fyrir athöfnina og eftir að henni er lokið. Við útfarir er aðeins einni klukku hringt og er það svokölluð líkhringing, sem er eitt slag í senn og líður nokkur stund á milli slaga.
Þegar kista er borin úr kirkju hefst líkhringing um leið og líkmenn lyfta kistunni og leggja af stað.
Valdimar Briem orti eftirfarandi vers:
Oss héðan klukkur kalla,
Svo kallar Guð oss alla
til sín úr heimi hér,
Þá söfnuð hans vér sjáum
og saman vera fáum
í húsi því sem eilíft er.
Enga sérstaka menntun þarf til að gerast meðhjálparar eða hringjarar. Áhugi og vilji til þess að taka þátt er eina krafan sem gerð er. Þó er mikilvægt að hringjari kunni reglurnar hér að framan. Til er lítill bæklingur, sem ber heitið Kirkjuklukkur eftir sr. Kristján Val Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti sem væntanlegir hringjarar ættu að kynna sér vel.
Ef þú hefur áhuga á að gerast meðhjálpari, þá er fyrsta skrefið að tala við prestinn þinn og bjóða fram aðstoð.
Kirkjuverðir
Kirkjuhúsin á Íslandi eru misstór eins og söfnuðurnir sem þeim tilheyra. Í smærri söfnuðum sjá sóknarnefndir um þrif og daglegan rekstur kirkjuhúsa og bera ábyrgð á því að fá fólk til viðhalds og fylgjast með því hvar og hvenær þess gerist þörf.
Í stórum söfnuðum eru gjarnan launaðir kirkjuverðir sem sjá um daglega umsjón með kirkjunni. Sumstaðar sjá kirkjuverðir um veitingar við athafnir. Í stærstu söfnuðum eru margir kirkjuverðir og fer þá einn þeirra með hlutverk framkvæmdastjóra þeirra, eða verkstjóra. Eðli kirkna, staðsetning þeirra, stærð safnaðar og fjölmargt annað markar auðvitað verkefni kirkjuvarða. Víða eru kirkjur orðnar vinsælir áfangastaðir ferðamanna og hefur það gjörbreytt störfum og ábyrgð kirkjuvarða. Þannig er starf kirkjuvarða ekki bara fjölbreytilegt, heldur breytist og þróast með árunum samhliða breyttum samfélagsaðstæðum.
Kirkjuverðir vinna í nánu samstarfi við prestana og sóknarnefndina. Ekki þarf þó sérstaka menntun til að gerast kirkjuvörður og eru starfandi kirkjuverðir í dag með jafn fjölbreyttan bakgrunn og kirkjuverðir eru margir. Það eina sem þau öll þurfa að hafa er lipurð í samskiptum, greiðvikni og virðing fyrir kirkju og kristni.
Æskulýðsfulltrúar
Barna- og æskulýðsstarf er eitt mikilvægasta starf sem unnið er í söfnuðum landsins. Víðast hvar eru sunnudagaskólar starfræktir og eru þeir ásamt æskulýðsfélögum fyrir börn á fermingaraldri og eldri hryggjarstykki í æskulýðsstarfi kirkjunnar.
Starf með börnum er oft sjálfboðavinna, en stórir söfnuðir hafa einnig æskulýðsfulltrúa sem sinna barna og æskulýðsstarfi annað hvort í hlutastarfi eða fullu starfi. Þá heldur Þjóðkirkjan jafnframt úti svæðisstjórum æskulýðsmála um landið sem stýra og samhæfa æskulýðsstarf, hver á sínu svæði.
Að jafnaði þarf enga sérstaka menntun til að verða æskulýðsfulltrúi í kirkjunni. Mikilvægt er þó að hafa grunnþekkingu á kristindómnum, hafa áhuga á að vinna með börnum og unglingum og sýna þeim kærleika og virðingu. Þátttaka í Farskóla leiðtogaefna er afar góður undirbúningur fyrir starfið. Æskilegt er að æskulýðsfulltrúar geti leikið á hljóðfæri þar sem söngur er stór þáttur í öllu æskulýðsstarfi.
Sóknarnefndir
Í hverri kirkjusókn er sóknarnefnd sem styður kirkjulegt starf í sókninni ásamt sóknarpresti og starfsmönnum sóknarinnar og annast rekstur og framkvæmdir á vegum sóknarinnar.
Sóknarnefnd skal starfa undir forystu sóknarprests og með hliðsjón af erindisbréfi hans við mótun og skipulag kirkjulegs starfs safnaðarins og standa fyrir guðsþjónustuhaldi safnaðarins, trúfræðslu og kærleiksþjónustu.
Sóknarnefnd er ásamt sóknarpresti í fyrirsvari fyrir sóknina gagnvart stjórnvöldum, og einstökum mönnum og stofnunum. Hún hefur jafnframt umsjón með kirkju safnaðarins og safnaðarheimili.
Aðalsafnaðarfundur kýs sóknarnefndarmenn og varamenn til fjögurra ára í senn. Þeir sem hlotið hafa vígslu sem prestar eða djáknar geta ekki setið í sóknarnefnd. Sóknarnefnd skiptir með sér verkum formanns, gjaldkera og ritara úr röðum aðalmanna þegar eftir að kjör í sóknarnefnd hefur farið fram.
Ef þú hefur áhuga á að gefa kost á þér í sóknarnefnd þinnar sóknar, skaltu fylgjast með auglýstum aðalsafnaðarfundi, sem halda skal að jafnaði fyrir lok maí hvers árs. Þú getur einnig kannað hver situr í sóknarnefnd þinnar sóknar á heimasíðu kirkju þinnar, eða haft samband við þinn sóknarprest fyrir nánari upplýsingar.
Finna má upplýsingar um allar kirkjur á landinu, þjónandi presta í hverri kirkju og upplýsingar um símanúmer og heimasíður undir „Kirkjur Íslands“ hér að ofan.