Innganga eða úrsögn úr Þjóðkirkjunni
Um inngöngu og úrsögn í Þjóðkirkjuna gilda sömu lög og um önnur trúfélög og lífskoðunarfélög í landinu. Hver þau sem orðin eru 16 ára geta tekið sjálfstæða ákvörðun um inngöngu eða úrsögn úr Þjóðkirkjunni. Þjóðskrá annast trúfélagsskráningar og er hægt að skrá sig í eða úr trúfélögum á vefnum Island.is. Hafa ber í huga að slík lögformleg skráning í Þjóðkirkjuna jafngildir ekki þegnskap í hinum andlega veruleika kristinnar kirkju, sem er ríki Guðs í þessum heimi, og byggist á skírn í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.
Þjóðkirkjan er frábrugðin öðrum trúfélögum að því leyti að skráning í Þjóðkirkjuna jafngildir skráningu í sókn. Sókn er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem býr í sókninni, sem fylgir oftast hverfaskipulagi sveitarfélaga. Sóknargjald, sem hið opinbera innheimtir og greiðir til trúfélags fyrir hönd skráðra einstaklinga, rennur þannig óskipt til viðkomandi sóknar sem heldur úti kirkjustarfi í hverfiskirkjum um land allt.
Barn getur frá fæðingu tilheyrt trúfélagi. Ef foreldrar barns eru skráð í sama trúfélag tilheyrir barnið sjálfkrafa sama trúfélagi. Ef foreldrar heyra ekki til sama trú- eða lífsskoðunarfélagi skulu þau taka sameiginlega ákvörðun um hvernig haga skuli skráningu barnsins. Fram til þess verður barnið skráð utan trúfélags. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist, skal það vera í því trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem foreldrið sem fer með forsjá tilheyrir. Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þau sameiginlega ákvörðun. Hafi barn náð 12 ára aldri á það að taka þátt í þeirri ákvörðun.