kirkjuorgel

Þjóðkirkjan

Þjóðkirkjan er vettvangur fólks sem sameinast í kristinni trú. Hún stendur opin öllum sem vilja tilheyra kristnu samfélagi.

Í skírninni erum við gerð að þegnum í ríki Guðs og farvegi þess hér í heimi sem er kirkjan. Kirkjan er í innsta eðli sínu andlegur veruleiki en að ytra formi stofnun, m.a. á Íslandi sem þjóðkirkja. Aðild að Þjóðkirkjunni sem slíkri stofnun er öllum opin og tæknilega séð ekki bundin sérstökum skilyrðum en það stafar af þeirri útfærslu á skráningu í trú- og lífsskoðunarfélög sem ríkisvaldið hefur bundið í lög.

Það gerir að verkum að jafnvel óskírt fólk getur skráð sig í Þjóðkirkjuna í þeim tilgangi að styðja hana og styrkja. Lögformleg aðild að Þjóðkirkjunni fæst með skráningu sem þú getur framkvæmt hér.

fólk í thurch

Þjóðkirkjan er evangelísk-lúthersk kirkja

Í sögu kirkjunnar hafa því reglulega komið upp siðbótarhreyfingar sem hafa viljað leiðrétta kirkjuna þegar hún hefur misst sjónar af kjarnaboðskap sínum, fagnaðarerindinu um Jesú Krist. Siðbótin hófst árið 1517 þegar Marteinn Lúther mótmælti aflátssölu kirkjunnar með 95 greinum sínum.

Kjarni hennar er að maðurinn bindur trú sína við Guð sem opinberast í Jesú Kristi. Guð tekur á móti manninum í náð og fyrirgefningu, sem gerir honum kleift að sættast við sjálfan sig, virða náunga sinn og sköpunina.

Þjóðkirkjan hefur sömu trúarjátningu og aðrar kristnar kirkjur. Auk þess eru til aðrar játningar sem eru einkennandi fyrir evangelísk-lútherskar kirkjur.

Um tengsl ríkis og Þjóðkirkju

Þjóðkirkjan starfar samkvæmt lögum um þjóðkirkjuna og stjórnarskrárákvæði þar um. Þar segir að „hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.“

Ríki og kirkja voru aðskilin með lögum um þjóðkirkjuna sem tóku gildi 2021 og er starfsfólk hennar því ekki lengur opinberir embættismenn og fjármögnun kirkjunnar er háð samningum sem Þjóðkirkjan og hið opinbera gera sín á milli. Þó er þess getið í lögum að kirkjan skal halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Enn fremur er kirkjunni gert skylt að halda úti ýmiss konar fræðslu og kærleiksþjónustu. Þá geta stjórnvöld leitað til Þjóðkirkjunnar í störfum sínum telji þau þess þörf. Að öðru leyti ræður Þjóðkirkjan starfi sínu og skipulagi sjálf.

Innganga eða úrsögn úr Þjóðkirkjunni

Um inngöngu og úrsögn í Þjóðkirkjuna gilda sömu lög og um önnur trúfélög og lífskoðunarfélög í landinu. Hver þau sem orðin eru 16 ára geta tekið sjálfstæða ákvörðun um inngöngu eða úrsögn úr Þjóðkirkjunni. Þjóðskrá annast trúfélagsskráningar og er hægt að skrá sig í eða úr trúfélögum á vefnum Island.is. Hafa ber í huga að slík lögformleg skráning í Þjóðkirkjuna jafngildir ekki þegnskap í hinum andlega veruleika kristinnar kirkju, sem er ríki Guðs í þessum heimi, og byggist á skírn í nafni Guðs, föður, sonar og heilags anda.

Þjóðkirkjan er frábrugðin öðrum trúfélögum að því leyti að skráning í Þjóðkirkjuna jafngildir skráningu í sókn. Sókn er félag þess fólks innan Þjóðkirkjunnar sem býr í sókninni, sem fylgir oftast hverfaskipulagi sveitarfélaga. Sóknargjald, sem hið opinbera innheimtir og greiðir til trúfélags fyrir hönd skráðra einstaklinga, rennur þannig óskipt til viðkomandi sóknar sem heldur úti kirkjustarfi í hverfiskirkjum um land allt.

Barn getur frá fæðingu tilheyrt trúfélagi. Ef foreldrar barns eru skráð í sama trúfélag tilheyrir barnið sjálfkrafa sama trúfélagi. Ef foreldrar heyra ekki til sama trú- eða lífsskoðunarfélagi skulu þau taka sameiginlega ákvörðun um hvernig haga skuli skráningu barnsins. Fram til þess verður barnið skráð utan trúfélags. Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þegar barn fæðist, skal það vera í því trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi sem foreldrið sem fer með forsjá tilheyrir. Það foreldri sem fer með forsjá barns tekur ákvörðun um inngöngu þess í eða úrsögn úr skráðu trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi. Ef foreldrar fara saman með forsjá barns taka þau sameiginlega ákvörðun. Hafi barn náð 12 ára aldri á það að taka þátt í þeirri ákvörðun.

Söfnuðir og sóknir

Söfnuður er félagsleg og fjárhagsleg grunneining þjóðkirkjunnar.

Söfnuður á tilteknu landsvæði myndar sókn.

Ein eða fleiri sóknir mynda prestakall.

Sóknarbörn eru öll þau sem eiga lögheimili í sókn og eru skráð í þjóðkirkjuna.