
- Elísa Mjöll Sigurðardóttir
- Sóknarprestur

Staðarkirkja á Reykjanesi er friðlýst timburkirkja, sem byggð var árið 1864. Hönnuður hennar va Daníel Hjaltason forsmiður og gullsmiður. Hún hefur verið í vörslu Þjóðminjasafns Íslands frá árinu 1964.
Þak kirkjunnar er krossreist og upp af framstafni er ferstrendur turn með risþaki. Kirkjan er klædd listaþili og listasúð og stendur á steinhlöðnum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru þrír gluggar. Í hverjum þeirra er rammi með níu rúðum milli lóðréttra og láréttra rima og sjö að ofan milli skásettra rima. Yfir kirkjudyrum er lítill gluggi með sex rúðum, en hleri fyrir hljómopi á framhlið turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar vængjahurðir. Yfir þeim er stórstrikuð brík og undir henni hvorum megin dyra hálfsúlur með súluhöfðum í korintískri stíllíkingu.
Altaristaflan er smíðuð úr eik með málaðri mynd af síðustu kvöldmáltíðinni á miðtöflu og myndum af guðspjallamönnunum fjórum á vængjum, bæði innanverðum og utanverðum. Hún mun vera frá því um 1600, líklega gerð í Danmörku. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir fá seinni hluta 17. aldar. Á kaleiksbarm er grafið nafn Jóns Magnússona bónda í Miðhúsum á Reykjanesi. Tvær klukkur eru í Staðarkirkju, sú minni er lítil bjalla, hin er steypt í Kaupmannahöfn 1804.
