- Ingibjörg Jóhannsdóttir
- Djákni Austurlandsprófastsdæmi

Djúpavogskirkja
Djúpavogskirkja var vígð 19. maí árið 1996. Fyrsta skóflustungan var tekin þann 21. júlí árið 1991. Sr. Þorleifur Kristmundsson prófastur á Kolfreyjustað ásamt sr. Sjöfn Jóhannesdóttur og sr. Gunnlaugi Stefánssyni sáu um athöfnina ásamt kirkjukór Djúpavogskirkju. Björn Kristleifsson var arkitekt kirkjunnar. Fjarðaverk sá um uppsteypu. Ágúst Guðjónsson, Sigvaldi Jónsson og Tumi Hafþór Helgason frá Trésmiðju Djúpavogs reistu þakið og smíðuðu allt innanhúss. Magnús Sigurðsson múraði kirkjuna að innan.
Á hvítasunnudag, sunnudaginn 23. maí 2021 var haldin hátíðarguðsþjónusta í tilefni af 25 ára vígsluafmæli Djúpavogskirkju. Af þessu tilefni var kross settur upp utandyra á litlum kletti við kirkjuna. Stólpar úr gömlu bryggjunni voru notaðir við smíðina og er krossinn í sömu hlutföllum og krossinn, sem er altaristafla kirkjunnar. Ari Guðjónsson smíðaði krossinn. Hreinn Guðmundsson, Egill Egilsson og Baldur Sigurðsson settu krossinn upp.
Í kirkjunni er bænastjaki sem Stefán Bogi Stefánsson gullsmiður hannaði. Líkt og Djúpavogskirkja er bænastjakinn hannaður undir miklum áhrifum frá Búlandstindi sem er staðarfjall Djúpavogs, þríhyrningslaga fjall. Fjallið hefur þannig guðfræðilega skírskotun og er sannarlega eitt fallegasta fjall landsins að mati heimafólks.
Gamla altaristaflan fór með úr gömlu kirkjunni og sómir sér vel á vegg í nýju kirkjunni. Það var norski listamaðurinn Axel Hjalmar Ender sem túlkaði frásögn Markúsar af upprisunni. Axel þessi gerði margar altaristöflur, en Karl Kristjánsson (frændi Jóns á Teigarhorni) málaði útgáfu Djúpavogskirkju eftir þeirri norsku árið 1911 og ber hún heitið „Upprisan.“ (Markús 16.1-7). Nýja altaristaflan er kross, úr steinum frá Borgarfirði eystra og smíðaður af Álfasteini. Timburverk er utan um krossinn og hann lýstur upp, aðeins er slökkt á krossinum á föstudaginn langa. Á altarinu eru gylltir kertastjakar sem keyptir voru fljótlega eftir vígslu kirkjunnar af ágóða eftir vel heppnað þorrablót. Skírnarfonturinn er gjöf frá sr. Róbert Jack, en hann smíðaði Ríkarður Jónsson myndhöggvari frá Djúpavogi. Sálmataflan er sömuleiðis eftir Ríkarð en báðir þessir gripir komu úr gömlu Djúpavogskirkju. Moldunarkerið smíðaði Ragnar Imsland frá Höfn í Hornafirði, gjöf til minningar um ömmu hans Þórdísi og afa hans Höskuld sem bjuggu á Höskuldsstöðum á Djúpavogi. Eldra moldunarkerið smíðaði Ágúst Guðjónsson frá Djúpavogi. Kvenfélagið Vaka á Djúpavogi hefur stutt kirkjustarfið og bygginguna dyggilega, keypt hljóðkerfi, skrúða og margt fleira. Starf þeirra og stuðningur við kirkjuna er ómetanlegt. Kirkjuklukkurnar fylgdu með frá gömlu Djúpavogskirkju.
Ljósmynd tók Rüdiger Þór Seidenfaden.
- Arnaldur Arnold Bárðarson
- Prestur

- Benjamín Hrafn Böðvarsson
- Prestur
- Jóna Kristín Þorvaldsdóttir
- Sóknarprestur