
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur

Undirfellskirkja er friðað steinsteypuhús, sem byggt var árið 1915. Hönnuður hennar var Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Í norðvestur horni rís ferstrendur turn, sem setur mikinn svip á kirkjuna. Þakið er krossreist og klætt bárujárni. Kirkjan er múrhúðuð og sökkulbrún er neðst á veggjum. Á suðurhlið kirkju eru þrír bogadregnir smárúðóttir steypujárnsgluggar, tveir á norðurhlið og hringgluggi á framstafni. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir og um þær múraður bogafaldur. Turninn nær 0,34 m fram fyrir vesturgafl og norðurhlið kirkju. Hann stendur á háum sökkli og ofarlega dragast turnveggir inn í tvígang og eru þar um turninn tvö múrbönd. Bogadregnar dyr eru á framhlið turns og um þær að jafnaði gengið til kirkju. Yfir þeim er hár og mjór bogadreginn gluggi og annar á norðurhlið, en hálfhringgluggi undir honum á sökkulbrún. Ofarlega á hverri turnhlið er lítill bogadreginn gluggi en yfir hverjum þeirra eru þrír litlir bogadregnir gluggar uppi undir háu píramítaþaki.
Altaristaflan er olíumálverk eftir Ásgrím Jónsson, listmálara, sem sýnir Krist sem situr og talar til fólks. Aðrir dýrmætir forngripir eru í kirkjunni. Þessi gamla friðaða kirkja er með tvær klukkur í turni.
Ljósmynd tók Jón Grétarsson.


