- María Guðrún Ljungberg
- Sóknarprestur

Skeggjastaðakirkja
Skeggjastaðakirkja er friðlýst timburkirkja frá árinu 1845. Hönnuður hennar er talinn vera Ólafur Briem forsmiður á Grund, en yfirsmiður kirkjunnar Guðjón Jónsson forsmiður á Akureyri er einnig talinn geta verið hönnuður hennar. Við norðurhlið kirkjunnar er skrúðhús og á þakinu er klukknaport á fjórum stoðum. Þök eru krossreist og klædd listasúð, en hátt íbjúgt píramítaþak klukknaportsins skarsúðarklætt. Kirkjan stendur á steinsteyptum sökkli og veggir eru klæddir listaþili þar sem skiptast á tveir samlægir listar og undirborð. Á hvorri hlið kirkju eru tveir póstagluggar með tveimur átta rúðu römmum og aðrir tveir á kórbaki, en fjögurra rúðu gluggi uppi á stafninum og annar gegnt honum á framstafni. Hvorum megin kirkjudyra er hálfgluggi með átta rúðum. Kvistgluggi er á suðurþaki yfir prédikunarstól. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir til hlífðar spjaldsettri hurð. Hálfgluggi er hvorum megin á skrúðhúsi og póstgluggi á stöfnum með tveimur átta rúðu römmum. Dyr eru á vesturhlið skrúðhúss með spjaldsettri hurð. Gréta og Jón Björnsson skreyttu kirkjuna og máluðu.
Altaristaflan er olíumálverk og sýnir Krist með opna bók í hendi þar sem stendur skrifað: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Taflan var keypt frá Danmörku árið 1859 og gæti verið eftir danska málarann Wilhelm August Knippel 1806-1863. Kirkjan á silfur kaleik og patínu, sem eru enskir smíðisgripir, sem voru gefnir kirkjunni árið 1967 og teknir í notkun árið eftir. Skírnrfonturinn er úr tré, smíðaður árið 1964 af Ólafi Guðmundssyni eftir teikningu Gretu Björnsson, sem marmaramálaði fontinn. Kirkjuklukkurnar eru þrjár, ein frá 17. öld, önnur er nýleg klukka með steyptum munsturbekk og sú þriðja er án áletrunar.