- María Guðrún Ljungberg
- Sóknarprestur

Vopnafjarðarkirkja
Vopnafjarðarkirkja er friðlýst timburkirkja, sem byggð var á árunum 1902-1903. Hönnuður hennar var Björgólfur Brynjólfsson forsmiður frá Skjöldólfsstöðum í Breiðdal. Kirkjan var klædd að utan með panelmótuðum plötum árið 1974. Tengibygging var reist milli kirkju og safnaðarheimilis árið 1994. Hönnuður þess var Hjörleifur Stefánsson arkitekt
Stöpull er tvískiptur, breiður neðst og á honum rismikið þak. Á stöpulþakinu er ferstrendur burstsettur turn og ferstrend spíra yfir. Þök eru krossreist og klædd bárujárni. Kirkjan er klædd lóðréttum panelborðum með hálfstafsstriki og jaðarsniði og stendur á steinsteyptum sökkli. Á norðurhlið kirkju eru þrír smárúðóttir oddbogagluggar úr steypujárni, tveir á suðurhlið og einn á hvorri hlið kórs. Tveir litlir gluggar eru á hvorum stafni kirkju og einn á framhlið stöpuls og annar mjórri á framstafni turns, en oddbogadregin hljómop með hlera á hvorri turnhlið. Tengibygging milli kirkju og safnaðarheimilis sunnan kirkjunnar er við innsta glugga sunnan megin. Fyrir kirkjudyrum eru spjaldsettar vængjahurðir og oddbogagluggi yfir.
Altaristafla Vopnafjarðarkirkju er olíumálverk frá árinu 1916 eftir Jóhannes Kjarval og sýnir Jesú Krist, sem stendur milli tveggja súlna og flytur mannfjöldanum fagnaðarerindið um Guðs ríki. Kirkjan á silfurkaleik og patínu, sem eru danskir smíðisgripir, sem voru komnir í kirkjuna árið 1907. Þá á kirkjan silfuroblátuöskju, sem smíðuð var í Danmörku. Hún var einnig komin í kirkjuna árið 1907. Skírnarfonturinn er úr eik, útskorinn árið 1962 af Wilhelm Beckmann (1909-1965). Fontinum fylgir skírnarskál úr silfri á fæti, smíðuð í Englandi. Hvort tveggja fontur og skál eru minningargjafir til kirkjunnar. Kirkjuklukka í turni er frá því um aldamótin 1900. Lítil klukka er í sáluhliði kirkjugarðs, hennar er getið í kirkjunni árið 1903. Nýjar kirkjuklukkur eru í turni, sem steyptar voru í Belgíu árið 2003.