
- Gunnar Stígur Reynisson
- Sóknarprestur

Stafafellskirkja var reist úr timbri árin 1866 til 1868 og situr í miðjum Stafafellskirkjugarði. Kirkjan er turnlaus og eru útveggir klæddir með yfirfelldu listaþili. Þak kirkjunnar er krossreist og bárujárnsklætt. Einfaldur hvítur trékross er á vesturstafni kirkjunnar og á hvorri hlið hennar eru þrír hvítmálaðir gluggar. Kirkjan er með þeim elstu í landinu. Í upphafi 10. áratugs síðustu var ráðist í miklar endurbætur á kirkjunni.
Altaristaflan er frá miðri 17. öld og er hún yfir altarinu, sem er fyrir miðjum kórgafli. Hún er máluð á tré og sýnir Högna Jónsson, sem var prestur í Stafafelli árin 1610-1636 og konu hans Herdísi Nikulásdóttur krjúpa við kross Krists. Önnur altaristafla er í kirkjunni, gengt altarinu, er hún olíumálverk frá árinu 1949 eftir Kristínu Stefánsdóttur og sýnir Krist blessa lítinn dreng.
Prédikunarstóllinn er gamall og er hann innst í kór og skírnarfontur fyrir framan hann. Á prédikunarstólnum eru myndir af Kristi í miðið og guðspallamönnunum fjórum. Skírnarfonturinn er útskorinn af Ríkarði Jónssyni árið 1968. Klukkur Stafafellskirkju eru frá 1884 og 1900.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu prestakallsins.
