
- Edda Hlíf Hlífarsdóttir
- Prestur
Svínavatnskirkja er friðlýst timburkirkja sem byggð var árið 1879. Hönnuður hennar var Friðrik Pétursson skipasmiður, forsmiður og málari, en Friðrik lést í árslok 1897 þegar smíði kirkjunnar var hálfnuð og var Árni Hallgrímsson forsmiður frá Garðsá ráðinn í hans stað og má vel vera að hann hafi einnig mótað kirkjuna.
Þakið er krossreist og upp af framstafni er lágur turn og á honum íbjúgt píramítaþak. Hann stendur á háum og breiðum stalli með ferstrent bryggjumyndað þak. Kirkjan er klædd listaþili, þak bárujárni, en turnþök sléttu járni og stendur á steinsteyptum sökkli. Á hvorri hlið kirkju eru tveir gluggar með sex rúðum, einn minni á framstafni og annar á framhlið turns. Hlerar eru á hliðum turns. Fyrir kirkjudyrum eru tvöfaldar spjaldsettar vængjahurðir. Yfir þeim er strikaður bogadreginn bjór.
Altaristaflan er olíumálverk á striga eftir H.V. Westergaard frá 1902 og sýnir Krist ganga á Geneseretvatni. Kirkjan á silfurkaleik og patínu úr silfri, sem smíðuð voru af Arnóri Arnórssyni, gullsmið á Gauksmýri 1864. Klukkur Svínavatnskirkju eru báðar nefndar í heimildum alla 18. öldina.


