
- Ingimar Helgason
- Sóknarprestur

Kapellan á Klausturhólum á Kirkjubæjarklaustri var vígð sunnudaginn 4. nóvember árið 2012. Filippus Hannesson frá Núpsstað ánafnaði Klausturhólum myndarlegri peningaupphæð eftir sinn dag, sem gerði það kleift að ráðast í verkið. Einnig höfðu hjónin Júlíus Jónsson og Arndís Salvarsdóttir frá Norður-hjáleigu gefið peningaupphæð til fyrirhugaðrar kapellu. Kapellan var vígð af frú Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi Íslands. Sóknarpresturinn sr. Ingólfur Hartvigsson tók þátt í athöfninni. Margir fallegir gripir voru smíðaðir fyrir kapelluna.
Altarisdúkinn gerði Sigfríð Kristinsdóttir á Fossi og gaf kapellunni. Kertastjakana og glerkrossinn sem prýða altarið ásamt skírnarskálinni gerðu hjónin Guðrún Sigurðardóttir og Emil Sæmundsson og gáfu gripina til kapellunnar til minningar um Jón Björnsson bónda í Svínadal í Skaftártungu. Einnig gerðu þau hjón gestabók úr gleri sem starfsfólk og heimilisfólk Klausturhóla gaf kapellunni. Snorri Snorrason skar út Maríumynd og gaf kapellunni. Kvenfélag Kirkjubæjarhrepps gaf kapellunni Biblíu á altarið og kvenfélagið Hvöt gaf stólu. Þá var gefinn lampi skreyttur af nemendum heilsuleikskólans Kærabæjar. Útsaumaða mynd af Jesú þar sem hann er að bjóða til inngöngu gaf Katrín Þórarinsdóttir, en hún saumaði myndina.
Leifur Breiðfjörð gerði altaristöfluna sem er glæsilegt glerlistaverk. Innblásturinn fékk Leifur úr Opinberunarbók Jóhannesar þar sem sagt er frá hinni Nýju Jerúsalem. Altarið og prédikunarstólinn teiknaði Helgi Hjálmarsson arkitekt og Benedikt Lárusson listasmiður smíðaði gripina. Velunnarasjóður Klausturhóla hefur ákveðið að gefa kapellunni kaleik og patínu.
Prófastur Suðurprófastsdæmis færði kapellunni 100.000 kr. að gjöf frá Héraðsnefnd Suðurprófastsdæmis.
