
- Ingimar Helgason
- Sóknarprestur

Kirkjan, sem stendur núna í Þykkvabæ, var byggð úr timbri árið 1864. Þykkvabæjarklausturskirkja var reist 1864 og vígð sama ár af sr. Jóni Sigurðssyni prófasti á Prestsbakka á Síðu. Allur tréviður kirkjunnar var handunninn úr rekaviði úr fjöru Þykkvabæjarklausturs. Yfirsmiður var Jóhann Jónsson snikkari úr Reykjavík. Kirkjan er bárujárnsklædd timburkirkja með hlöðnum sökkli, sem steypt var utan á árið 1964. Þakið er klætt með rauðmáluðu bárujárni. Turninn á vesturhlið kirkjunnar er með rauðu bárujárnsþaki og krossi efst. Opnanleg lúga er á turninum.
Altaristaflan er olíumálverk frá árinu 1904 eftir Anker Lund og sýnir Jesú lækna blindan mann. Altarisstjakarnir komu til kirkjunnar úr strandi franska spítalaskipsins St. Paul í Koteyjarfjöru árið 1899. Kirkjan á kaleik og patínu úr silfri, smíðuð árið 1787 af Sigurði Þorsteinssyni gullsmíðameistara í Kaupmannahöfn. Skírnarskál er úr brenndum leir, gerð árið 1949 af Ragnari Kjartanssyni. Orgelharmóníum er staðsett norðan megin í kór. Kirkjuklukkurnar eru frá árunum 1725 og 1735.
