Hjálparstarf

Hjálparstarf Kirkjunnar

Hlutverk Hjálparstarfs kirkjunnar er að starfrækja mannúðar- og hjálparstarf í nafni íslensku þjóðkirkjunnar. Sem kirkjutengd stofnun nýtur Hjálparstarfið þeirrar sérstöðu að byggja á grasrótarstarfi í nærsamfélaginu en meginmarkmiðin eru bætt lífsgæði þeirra sem búa við fátækt og að mannréttindi séu virt. Í starfinu felst þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð á alþjóðavettvangi, neyðaraðstoð, félagsleg ráðgjöf og valdeflandi verkefni innanlands, talsmannshlutverk, fræðsla og fjáröflun.

Vefsíða hjálparstarfsins
Hjálparstarf kirkjunnar
Heimilisfang: Háaleitisbraut 66, 103 Reykjavík
Fax: 528 4401

Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun skráð í þjóðskrá og fyrirtækjaskrá hjá Ríkisskattstjóra með rekstrarform félagasamtaka og er skráð góðgerðafélag. Yfirstjórn er í höndum fulltrúaráðs en í það skipar biskup Íslands fimm fulltrúa, lærða og leikna, og prófastsdæmi í landinu einn fulltrúa hvert. Auk þess er hverri kirkjusókn heimilt að tilnefna fulltrúa í ráðið. Fulltrúaráð kýs framkvæmdastjórn Hjálparstarfsins og setur henni og endurskoðendum starfsreglur. Skipan fulltrúaráðs Hjálparstarfs kirkjunnar má nálgast á heimasíðu. Starfsár stofnunarinnar er frá 1. júlí - 30. júní ár hvert. Framkvæmdastjórn sem kosin er á aðalfundi Hjálparstarfs kirkjunnar til eins árs í senn ber ábyrgð á daglegum rekstri stofnunarinnar.


Hjálparstarf kirkjunnar fagnaði 50 ára starfsafmæli sem hjálparstofnun árið 2020 en á fundi kirkjuráðs þann 9. janúar 1970 var formlega ákveðið að stofna Hjálparstofnun kirkjunnar. Tildrögin voru þau að þjóðkirkjan hafði árið áður tekið þátt í landssöfnuninni „Herferð gegn hungri” sem var hrundið af stað til styrktar sveltandi fólki í Biafrahéraði í Nígeríu. Í kjölfarið hvöttu prestar landsins kirkjuna til að koma á legg hjálparstofnun er sinnti hjálparstarfi og líknarmálum á vegum hennar.


Fyrsti stjórnarfundur Hjálparstofnunar kirkjunnar var svo haldinn þann 1. apríl 1970. Síðan þá hefur Hjálparstarf kirkjunnar tekið þátt í mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu víða um heim. Stofnunin hét upphaflega Hjálparstofnun kirkjunnar en nafni hennar var breytt árið 1998 enda þótti nýja nafnið - Hjálparstarf kirkjunnar - meira lýsandi.


Hjálparstarfið vinnur óháð og sjálfstætt í þágu þeirra sem líða fátækt og óréttlæti. Markmiðið er að hjálpa til sjálfshjálpar og tala máli fátækra. Markmið okkar er að draga fram kjör þeirra sem eiga sér ekki málsvara og að ýta á aðgerðir sem breyta lífsmöguleikum þeirra. Horft er til getu og færni hvers og eins og opna möguleika til virkrar þátttöku í samfélaginu. Ráðgjöf og stuðningur er veittur án tillits til trúar, þjóðernis, litarháttar, kyns eða skoðana.


Í fyrstu var framkvæmdastjóri eini starfsmaðurinn. Starfið óx þó nokkuð hratt og brátt urðu starfsmenn fleiri. Upp úr 1990 jókst mjög stuðningur við einstaklinga á Íslandi vegna atvinnuleysis og fjárhagserfiðleika. Nú eru starfsmenn Hjálparstarfs kirkjunnar 11 talsins.


Hjálparstarfið er aðili að Almannaheillum, regnhlífarsamtaka félaga sem vinna í þágu almennings.