
Safnaðarstarf
Í kirkjum um allt land er að finna fjölbreytt og nærandi safnaðarstarf sem er öllum opið. Um er að ræða m.a. kórastarf, bænahópar, barna -og unglingastarf, fræðslusamverur, eldriborgarastarf o.s.frv. Allt þetta starf er vettvangur til að kynnast öðru fólki og taka þátt í samfélaginu í kirkjunni.
Þátttaka í safnaðarstarfi er mörgu fólki dýrmætt og vettvangur til að rækta áhugamál sín og læra nýja hluti. Í því gefst fólki færi á að vera hluti af hópi sem hlustar, styður, hvetur og auðgar daglegt líf. Öllum er velkomið að taka þátt í safnaðarstarfi kirkjunnar.
Barna- og æskulýðsstarf
Barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 6 - 18 ára. Í barna-o g æskulýðsstarfi kirkjunnar er trú og leik blandað saman og ættu allir að geta fundið sig í því. Farið er í ferðalög á mót innanlands sem utanlands. Það kostar ekkert að taka þátt og starfið er að sjálfsögðu öllum opið.
Upplýsingar um barna- og æskulýðsstarfið í þínu hverfi eru aðgengilegar á heimasíðu kirkjunnar þinnar. Þá er öllum frjálst að leita upplýsinga með því að setja sig í samband við presta, djákna og starfsfólk þinnar kirkju.
Kóra- og tónlistarstarf
Kórastarfið í Þjóðkirkjunni er öflugt og fjölbreytt. Flest allir söfnuðir þjóðkirkjunnar hafa á að skipa kirkjukór sem leiðir messusöng undir forystu organista. Auk þess bjóða fjölmargir söfnuðir börnum og ungmennum að taka þátt í faglegu kórastarfi.
Margt tónlistarfólk stígur sín fyrstu skref í barnakórum í sinni kirkju. Tónlistin er mikilvæg í öllu starfi kirkjunnar og söngurinn tengir kynslóðirnar saman og skapar vettvang þar sem vinátta og trú mætast.
Upplýsingar um raddprufur kirkjukóra og skráning í barna- og ungmennakóra eru á heimasíðu kirkjunnar þinnar. Einnig er hægt að hafa samband beint við organistann í kirkjunni þinni.
Eldri borgara starf
Í starfi eldri borgara í Þjóðkirkjunni kemur fólk saman til fræðslu og félagsskapar. Þar er boðið upp á helgistundir, samtal, fræðslu, söng, leiki og ýmsa viðburði sem gera daginn fjölbreyttan og skemmtilegan. Markmiðið er einfalt: að eiga saman nærandi og gott samfélag. Dagsferðalag í upphafi eða lok vetrarstarfs eru vinsæl og góð upplyfting.
Þátttaka er öllum opin og að kostnaðarlausu en sé málsverður er hann gegn vægu gjaldi. Upplýsingar um starfið eru aðgengilegar á vefsíðu kirkjunnar þinnar.
Sóknarnefndir
Sóknarnefndir gegna lykilhlutverki í lífi og starfi kirkjunnar. Þær bera ábyrgð á rekstri, fjármálum og viðhaldi kirkjubygginga, en ekki síður á að styðja presta, djákna og starfsfólk safnaðanna í þjónustu þeirra. Í sóknarnefnd gefst tækifæri til að taka virkan þátt í ákvarðanatöku og leggja fram hugmyndir um hvernig styrkja megi safnaðarstarfið.
Allir sem vilja leggja sitt af mörkum eru hvattir til að taka þátt í starfi kirkjunnar sinnar. Með því að starfa í sóknarnefnd getur þú haft áhrif, byggt upp samfélagið og styrkt tengsl kirkjunnar við fólkið í sókninni.