
Biskupsstofa
Biskupsstofa er skrifstofa biskups Íslands. Hlutverk Biskupsstofu er að hvetja og styðja presta, djákna, annað starfsfólk og söfnuði Þjóðkirkjunnar í starfi og þjónustu.
Verkefni Biskupsstofu
Á Biskupsstofu starfar fjölbreyttur hópur fólks að ýmsum verkefnum.
Mannauðssvið hefur með starfsmannahald Þjóðkirkjunnar að gera. Má þar nefna launavinnslu, ráðningar og gerð ráðningasamninga, jafnlaunavottun, skipulagningu afleysingaþjónustu í prestsstöður um allt land og margt fleira.
Biskupsstofa sinnir jafnframt stoðhlutverki fyrir kirkjuþing og prestastefnur auk annarra viðburða á vegum Þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan er aðili að ýmsum erlendum samtökum kirkna og er samstarfsverkefnum sinnt af starfsfólki biskupsstofu.
Upplýsingatæknisvið sér um rekstur og viðhald á tölvukerfum og tækjabúnaði Þjóðkirkjunnar. Þá er miðlægri skjalavörslu Þjóðkirkjunnar og miðlun upplýsinga enn fremur sinnt af Biskupsstofu.
Kærleiksþjónustusvið Þjóðkirkjunnar, fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta, heyrir undir Biskupsstofu, en er með aðsetur í Háteigskirkju.
Tónskólinn er með aðsetur í Háteigskirkju en heyrir undir Biskupsstofu. Þar fer fram kennsla í kirkjutónlist og litúrgískum fræðum og menntun organista.
Biskupsstofa er í forsvari fyrir Þjóðkirkjuna gagnvart almenningi og fjölmiðlum og annast starfsfólk samskiptasviðs Biskupsstofu ritstjórn og framleiðslu efnis á öllum miðlum kirkjunnar.
Fræðslusvið Biskupsstofu mótar stefnu í fræðslumálum kirkjunnar til þess að vernda og viðhalda almennri þekkingu á kristinni trú og auka tengsl allra þjóðfélags- og aldurshópa við kirkjuna. Fræðslusvið framleiðir t.d. efni til fermingarfræðslu og heldur kynningar- og fræðslufundi með starfsfólki Þjóðkirkjunnar um land allt.
Tengiliður við sóknarnefndir hefur aðsetur á Biskupsstofu.
Fjármálasvið annast fjármál kirkjunnar og einnig rekstur, viðhald og umsýslu fasteigna og jarða í eigu hennar.
Á Biskupsstofu hafa starfsmenn Kirkjugarðasjóðs starfsaðstöðu.
Skrifstofa Biskupsstofu
Biskupsstofa er í Borgartúni 26.
Móttakan er opin kl. 09:00 til 15:00 virka daga.
Svarað er í síma virka daga á milli 09:00 - 12:00 og 13:00 - 15:00
Hafa má samband við Biskupsstofu í síma 528-4000 eða með tölvupósti; kirkjan@kirkjan.is.