
Kirkjuþing unga fólksins
Hlutverk kirkjuþings unga fólksins er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í Þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan. Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif á starfsemi kirkjunnar.
Hlutverk og skipulag
Biskup Íslands boðar til kirkjuþings unga fólksins í samráði við forseta kirkjuþings.
Hlutverk
Hlutverk kirkjuþings unga fólksins er að ræða stöðu og hlutverk ungs fólks í Þjóðkirkjunni og í samfélagi kirkna um heim allan.
Kirkjuþing unga fólksins er vettvangur ungs fólks til að hafa áhrif á starfsemi kirkjunnar.
Kirkjuþing unga fólksins kýs einn fulltrúa á kirkjuþing með málfrelsi og tillögurétt.
Skipulag
Biskup Íslands skipar verkefnastjóra kirkjuþings unga fólksins að vori ár hvert og boðar til þingsins í samráði við forseta kirkjuþings hins almenna. Þingið skal haldið árlega að hausti og starfi í tvo daga yfir helgi.
Biskup annast undirbúning kirkjuþings unga fólksins í samvinnu við verkefnastjóra og starfandi svæðisstjóra æskulýðsmála
Fulltrúar
Á kirkjuþingi unga fólksins eiga sæti 21 fulltrúi prófastsdæmanna með málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt. Fjöldi fulltrúa hvers prófastsdæmis er sem hér segir:
a. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, 3 fulltrúar
b. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, 3 fulltrúar
c. Kjalarnessprófastsdæmi, 3 fulltrúar
d. Vesturlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
e. Vestfjarðaprófastsdæmi, 2 fulltrúar
f. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
g. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, 2 fulltrúar
h. Austurlandsprófastsdæmi, 2 fulltrúar
i. Suðurprófastsdæmi, 2 fulltrúar.
Að auki eiga tveir fulltrúar KFUM og KFUK á Íslandi seturétt á kirkjuþinginu með málfrelsi og tillögurétt.
Fulltrúar skulu vera á aldursbilinu 16 til 35 ára, skráð í þjóðkirkjuna og með tengsl við Þjóðkirkjuna í því kjördæmi sem þau sitja fyrir. Fulltrúar eru valdir til tveggja ára.