
Styrktarsjóðir
Þrír verkefnasjóðir á vegum Þjóðkirkjunar úthluta árlegum styrkjum til eflingar kirkjustarfs og viðhaldi eigna.
Jöfnunarsjóður sókna fær hluta af afgjaldi ríkisins til Þjóðkirkjunar til úthlutnar ár hvert og er hlutverk hans að jafna stöðu sókna með það fyrir augum að fámennar sóknir geti áfram sinnt hlutverki sínu. Aðeins sóknir geta sótt um úthlutun úr Jöfnunarsjóði. Kristnisjóður úthlutar styrkjum til hvers konar starfsemi sem eflir kristna trú á Íslandi og geta félög og stofnanir til jafns við sóknir til dæmis sótt um úthlutanir úr sjóðinum. Loks úthlutar Kynningar-, fræðslu og útgáfusjóður kirkjunnar (KFÚ) styrkjum til verkefna sem styðja við og efla kynningar- og fræðslustarf kirkjunnar svo og útgáfustarfsemi á því sviði.
Nánari upplýsingar um þessa þrjá sjóði má finna hér að neðan.
Jöfnunarsjóður
Jöfnunarsjóður sókna fær hluta af afgjaldi ríkisins til Þjóðkirkjunnar til úthlutnar ár hvert
Sótt er um í Jöfnunarsjóð á þjónustuvef Þjóðkirkjunnar. Aðgang að umsóknarformi hafa prestar, formenn, gjaldkerar og framkvæmdastjórar sókna.
Tilgangur Jöfnunarsjóðs er:
a. Að veita styrki til þeirra kirkna, sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, þannig að þær vegna sögulegra eða annarra sérstakra ástæðna geta talist kirkjur alls landsins. Er hér fyrst og fremst átt við Dómkirkjuna í Reykjavík, Hóladómkirkju, Skálholtsdómkirkju, Hallgrímskirkju í Reykjavík og Hallgrímskirkju í Saurbæ.
b. Að leitast við að jafna aðstöðu sókna og styrkja sóknir, þar sem tekjur skv. lögum um sóknargjöld o.fl., nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum að dómi sóknarnefndar og sóknarprests og að fenginni umsögn héraðsnefndar.
c. Að veita styrki til nauðsynlegra verklegra framkvæmda á vegum sókna, til að styrkja rekstur kirkna, t.d. til kaupa á nauðsynlegum búnaði þeirra og til að styðja kirkjulegt starf innan sókna. Enn fremur er heimilt að veita styrki til að greiða fyrir sameiningu fámennra sókna og til að styrkja sóknir, sem bera sérstakan kostnað. Með styrkjum til verklegra framkvæmda er átt við framlög til viðhalds, endurbóta og nýbygginga kirkna. Enn fremur styrki til byggingar þjónusturýmis og safnaðarheimila, þar sem þeirra er þörf.
d. Að veita styrki til að auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðahverfum og greiða fyrir kirkjulegu starfi þar.
e. Að styrkja safnaðaruppbyggingu og aðra kirkjulega félags- og menningarstarfssemi innan sókna eða prófastsdæma og veita héraðssjóðum styrki til verkefna, er undir þá féllu, sbr. 8. gr. laga um sóknargjöld o.fl. Við mat á styrkveitingum til héraðssjóða, skal m.a. höfð hliðsjón af því, hvort þeir fullnýti tekjustofna sína, samkvæmt gildandi starfsreglum um héraðsfundi og héraðsnefndir hverju sinni.
Kristnisjóður
Styrkir eru veittir til að styðja hvers konar starfsemi kirkjunnar til eflingar kristinni trú, svo sem útgáfu á hjálpargögnum í safnaðarstarfi og kristilegu fræðsluefni, enn fremur geta félög og stofnanir, sem vinna að mikilvægum verkefnum á kirkjunnar vegum fengið styrk.
Kynningar-, fræðslu- og útgáfusjóður kirkjunnar
Tilgangur sjóðsins er að styðja við og efla kynningar - og fræðslustarf kirkjunnar svo og útgáfustarfsemi á því sviði. Stjórn KFÚ auglýsir eftir umsóknum um styrki til þeirra verkefna sem sjóðnum er ætlað að sinna. Umsækjendur skulu gera skilmerkilega grein fyrir verkefni því sem sótt er um styrk til.