
SÁLGÆSLA
Sálgæsla fer fram í trúnaðarsamtali prests, djákna eða annars sérmenntaðs starfsfólks kirkjunnar við hvern þann sem kýs að leita til kirkjunnar með vandamál sín, tilfinningar eða lífsreynslu. Sálgæsla er samvinna starfsfólks kirkjunnar með einstaklingi, hjónum, fjölskyldum eða hópum. Sálgæsla byggist fyrst og fremst á því að hlusta á og leiðbeina þeim sem standa á einhvers konar krossgötum og leita þess vegna eftir sálgæsluþjónustu kirkjunnar.
Sálgæsla kirkjunnar
Sálgæsla fer fram í trúnaðarsamtali prests, djákna eða annars sérmenntaðs starfsfólks kirkjunnar við hvern þann sem kýs að leita til kirkjunnar með vandamál sín, tilfinningar eða lífsreynslu. Sálgæsla er samvinna starfsfólks kirkjunnar með einstaklingi, hjónum, fjölskyldum eða hópum. Sálgæsla byggist fyrst og fremst á því að hlusta á og leiðbeina þeim sem standa á einhvers konar krossgötum og leita þess vegna eftir sálgæsluþjónustu kirkjunnar.
Fyrirmynd sálgæslu kirkjunnar er Jesús Kristur sem átti mörg trúnaðarsamtöl við fólk á öllum aldri og úr öllum stéttum.
Hverjir veita sálgæslu?
Prestar og djáknar þjóðkirkjunnar veita stuðning af þessum toga. Þú getur talað við þau um allt sem hvílir á þér og þau eru bundin algerri þagnarskyldu nema í málum er varða velferð barna en í slíkum málum gengur tilkynningarskyldan framar þagnarskyldu presta verði þeir þess áskynja að barn verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, sbr. 16. og 17. gr. Barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Sálgæsluþjónusta kirkjunnar er öllum opin. Óskir þú eftir sálgæslu hringir þú einfaldlega í prest eða djákna og pantar viðtal. Einnig gætir þú átt möguleika á símaviðtali. Þá er Fjölskyldu- og sálgæsluþjónusta kirkjunnar í boði fyrir alla sem til hennar leita. Nánari upplýsingar um hana má finna á hlekk hér að ofan.
Sálgæsla á sjúkrahúsum
Auk presta og djákna í söfnuðum landsins þjóna prestar og djáknar á Landsspítala Háskólasjúkrahúsi og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þau veita sjúklingum, aðstandendum þeirra og starfsfólki spítalanna sálgæslu.
Upplýsingar um starfandi sjúkrahúspresta má finna á heimasíðum sjúkrahúsanna, sem og á síðu yfir starfandi presta Þjóðkirkjunnar. Hlekk á þá síðu má finna hér að ofan.
Önnur sérþjónusta
Hjá Þjóðkirkjunni starfar prestur fatlaðra, prestur heyrnarlausra og tveir prestar innflytjenda. Allir þessir prestar veita sálgæslu.
Prestar innflytjenda hafa aðsetur í Breiðholtskirkju. Prestur fatlaðra og prestur heyrnarlausra er í Grensáskirkju.
Sérþjónustuprestar veita þeim þjónustu sem af einhverjum varanlegum eða tímabundnum ástæðum geta ekki tekið þátt í kirkjustarfi síns safnaðar.
Fangaprestar þjóna til að mynda þeim sem afplána dóma í fangelsum landsins. Afplánun hefur margvísleg áhrif á fjölskyldur og aðstandendur þeirra sem Þjóðkirkjan sinnir einnig. Einn liður í þeirri þjónustu er verkefnið Bjargráð. Bjargráð er styrkt af Félags og vinnumarkaðsráðuneytinu og er hugsað fyrir fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga sem bíða eftir afplánun, eru í afplánun eða nýlega laus úr afplánun. Bjargráð hefur aðsetur hjá Fjölskyldu og sálgæsluþjónusta kirkjunnar er til húsa á neðri hæð safnaðarheimilis Háteigskirkju, Háteigsvegi 27-29 og getur hún veitt nánari upplýsingar um þjónustuna.
Sálgæslu og fjölskylduþjónusta kirkjunnar
Auk presta og djákna í söfnuðum landsins er starfandi á vegum þjóðkirkjunnar Sálgæslu og fjölskylduþjónusta kirkjunnar. Hún er þjónusta við hjón, fólk í sambúð, fjölskyldur og einstaklinga, sem finnst þeir vera í einhvers konar vanda í samskiptum við sína nánustu og vilja finna nýjar lausnir.
Nánari upplýsingar um þjónustuna er að finna á hlekk hér að ofan.
Sálgæslu og fjölskylduþjónusta kirkjunnar er hluti af sálgæslustarfi kirkjunnar og þjónar öllu landinu. Öllum er heimilt að leita beint til Sálgæslu og fjölskylduþjónustunnar og sumir koma samkvæmt ábendingu prests, djákna eða annarra aðila.